16.03.1942
Neðri deild: 19. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort ekki væri hægt að halda lokaðan fund um ýmis mál viðvíkjandi setuliðinu, sem er hér nú, ekki aðeins um það, sem talað hefur verið um, að haldinn yrði kannske lokaður fundur viðvíkjandi brottflutningi fólks úr bænum o.þ.h., heldur viðvíkjandi réttaröryggi Íslendinga hér í bænum gagnvart setuliðinu. Þrír Íslendingar hafa nú verið skotnir af setuliðinu, og nú fyrir rúmum sólarhring hefur einn þeirra látizt af skoti. Auk þess hafa af setuliðinu verið framin hér nokkur ofbeldisverk, sem ekki hefur heyrzt um í blöðum, en ekki hafa verið vefengd af neinum.

Ég óska þess fyrir mitt leyti, að hæstv. fjmrh. tali við hina ráðh., helzt í dag, eða þá sem fyrst, um það, hvort ekki væri hægt að hafa lokaðan þingfund um þetta mál, því að mér finnst, að það ætti að ræðast helzt á lokuðum fundi í Alþingi.