19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (2497)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Jóhann G. Möller:

Mig langar til að gera eina fyrirspurn til hæstv. félmrh., út af þáltill., sem ég flutti á vetrarþinginu í fyrra um það, að ríkisstj. léti fara fram rannsókn á því, hvort kleift mundi vera að koma á sameiginlegum líftryggingum landsmanna vegna ófriðarhættunnar og tryggingum vegna tjóns vegna ófriðarhættunnar. Þessi þál. fékk góðar undirtektir hér hjá þáv. félmrh. Síðan hefur ekkert heyrzt í þessu máli. Og þó að kominn sé annar félmrh. nú, langar mig til að vita, hvort nokkur rannsókn hefur átt sér stað af hálfu félmrn. í þessu máli, og ef sú rannsókn hefur ekki átt sér stað, þá hvort núv. ríkisstj. vildi ekki láta þá rannsókn fara fram og bera síðan fram frv. um þetta mál.