19.03.1942
Neðri deild: 22. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Eins og ég tók fram áðan, hefur þessi hlið málsins ekki verið rædd í ríkisstj. Og það er vitanlega alveg rétt, sem hér kemur fram hjá hv. þm. N.-Þ., að ef ætti að bæta það tjón, sem orðið hefur samkv. þeim l., sem afgr. voru um stríðstryggingar, þá álít ég, ef ég man ákvæði l. rétt, að það yrði of þungt í vöfum. Það var í raun og veru ekki ætlunin með þeim lögum að láta þau koma til framkvæmdar — því að framkvæmd þeirra er stórt kerfi — nema tjón yrði miklu verulegra af pöldum styrjaldarinnar heldur en orðið er af völdum þessara tundurdufla. Og ég lít þannig á, án þess að ég geti lýst yfir nokkru fyrir hönd ríkisstj. um þetta efni enn sem komið er, m.a. vegna þess, að þessi hlið málsins hefur ekki verið rædd, að miklu eðlilegra væri að bæta það tjón. sem af tundurduflunum er orðið og kann að verða, ef Alþ. álítur rétt að bæta það, beinlínis með fjárframlögum úr ríkissj., heldur en að láta þessi l., sem eru mikið kerfi, koma til framkvæmda til að bæta það tjón. En þetta mál allt er talsvert vandasamt og það fyrir þá sök, að tjónið af völdum ófriðarins, sem landsmenn hafa orðið fyrir, er margs konar. Og þó að þetta, af völdum tundurduflanna, sé mikið, og kannske umfangsmesta tjónið af því tagi, þá er mjög mikið vafamál, að það sé meira eða tilfinnanlegra fyrir einstaka menn heldur en annað tjón af völdum ófriðarins, sem sumir menn aðrir hafa orðið fyrir hér á landi. Ég get t.d. upplýst það hér, að það liggja olíuskip fyrir Austurlandi, og að ég hygg sérstaklega á Seyðisfirði, og þau eru tekin til hreinsunar að mér er sagt annað slagið. Fer þá mikið af olíu út á fjörðinn og meðfram ströndunum. Og á sumum bæjum; þar sem æðarvarp hefur verið stórköstlegur atvinnuvegur, er sýnilegt, eftir því sem mér hefur verið skrifað þar að austan, að yfir þeim bændum, sem þar búa, vofir, að sá atvinnuvegur gereyðileggist, því að æðarfuglinn rekur í stórum hrönnum upp á fjörurnar eftir að olían hefur komizt í fiðrið og fuglinn af þeim ástæðum getur ekki bjargað sér eins og annars. Þetta er kannske ekki eins mikið tjón í svipinn eins og vegna þess, þegar tundurdufl springa. En sem peningalegt tjón er það næstum alveg það sama.

Hvort hv. alþm., sem áhuga hafa fyrir þessu máli, vilja taka þetta mál upp eða beina því til ríkisstj. að gera það og leggja till. fyrir þingið um það, læt ég liggja milli hluta að svo komnu.