21.04.1942
Neðri deild: 39. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (2519)

Afgreiðsla mála úr nefndum

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Ísaf. telur, að það dragist nokkuð hjá fjhn. að skila áliti um þetta frv., sem jafnaðarmenn hafa flutt hér í d., en honum er kunnugt, að það er mikið að starfa í þeirri n., en gengið treglega að fá menn til að mæta þar til vinnu, og hygg ég, að það sé ekki sízt fulltrúi jafnaðarmanna, sem oft hefur ekki komið á fundi, og væri æskilegt, að hann gæti sótt fundi betur en verið hefur, ef á að koma fram málum, sem fyrir n. liggja. Það er ómögulegt að afgreiða þar mörg stórmál, nema fundir séu sóttir daglega af öllum nm. Ég vil því mælast til, að jafnaðarmenn sjái um, að fundir verði betur sóttir en verið hefur af þeirra hálfu.