16.05.1942
Sameinað þing: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

Stjórnarskipti

forsrh. (Ólafur Thors):

Ég leyfi mér hér með að tilkynna hinu háa Alþingi, að eftir að ríkisstjóri hafði samkvæmt ósk forsrh., Hermanns Jónassonar, veitt ráðuneyti hans lausn, fól hann mér að mynda nýtt ráðuneyti.

Samkvæmt þessu umboði hef ég myndað nýtt ráðuneyti, og er það svo skipað, að auk mín eiga sæti í því alþingismennirnir Jakob Möller og Magnús Jónsson.

Þegar fyrrv. forsrh., Hermann Jónasson, ritaði formanni Sjálfstfl. bréf, dags. 15. apríl síðastl., og tjáði honum, að ráðh. Framsfl. mundu fara úr ríkisstj., ef felld yrði till. sú, til rökstuddrar dagskrár, sem Framsfl. mundi bera fram til stöðvunar stjórnarskrármálsins við 2. umr. þess máls, og þegar sýnt var, að stjórnarskrárbreyt. átti svo mikið þingfylgi, að dagskrá þessi hlaut að falla, var hafizt handa um undirbúning þess, að mynduð yrði ríkisstj., sem fylgt gæti fram stjórnarskrárbreyt. og farið með önnur mál, er fyrir liggja.

Var þá sérstaklega um tvær leiðir að ræða: Að mynduð yrði samsteypustjórn einhverra þeirra flokka, er að málinu stóðu, eða að fjölmennasti flokkurinn, Sjálfstfl., myndaði einn stj.

Sjálfstfl. kaus síðari kostinn í því trausti, að innan þingsins sé og muni verða nægilega mikið fylgi við stjórnarskrárbreytinguna, til þess að afstýra vantrausti á þá ríkisstj., sem mynduð er til þess að fylgja þessu máli fram til fullnaðarsamþykktar.

Stjórn sú, er nú tekur við völdum, er stjórn Sjálfstæðisflokksins í þeim skilningi, að hana skipa eingöngu sjálfstæðismenn. Hins vegar hefur hún ekki þá aðstöðu flokksstjórnar að vera bær um að framkvæma þau stefnu- og hugsjónamál Sjálfstfl., sem ekki njóta stuðnings annarra flokka, þar eð sjálfstæðismenn eru nú, svo sem kunnugt er, aðeins 16 á þingi, af alls 47 mönnum, er nú eiga þar sæti.

Hlutverk stjórnarinnar verður því fyrst og fremst það tvennt, að sjá farborða máli því, er stjórnarskiptum hefur valdið — stjórnarskrármálinu —, og að inna af hendi það höfuðverkefni undanfarinna ríkisstjórna að verja þjóðina gegn áföllum á þessum einstæðu og örðugu tímum, framfylgja lögum og annast daglega afgreiðslu þeirra mála, er á hverjum tíma koma til úrskurðar og framkvæmda sérhverrar ríkisstj.

Ríkisstj. mun samkv. eðli málsins ekki telja sig bæra um að taka upp eða fylgja fram nýjum ágreiningsmálum, meðan stjórnarskrármálið er til meðferðar, nema hún telji óumflýjanlega þjóðarnauðsyn til bera.

Þegar stjórnarskrármálið hefur náð samþykki þess Alþingis, er nú situr, mun þing tafarlaust verða rofið, svo sem 75. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um, og stofnað til kosninga svo fljótt sem auðið er, væntanlega í júnílok eða byrjun júlímánaðar næstkomandi. Hið nýja þing mun síðan kvatt saman svo fljótt á þessu sumri sem kostur er á. Mun stjórnarskrárbreyt. verða lögð fyrir það þing á ný, og verði hún þá samþykkt þar, verður það þing að sjálfsögðu rofið og stofnað til nýrra kosninga, væntanlega á næsta hausti, eftir ákvæðum hinnar nýju stjórnarskrár.

Þá er það vilji stjórnarinnar, að skipuð verði milliþinganefnd, er semji frv. til l. að nýrri stjórnarskrárbreyt., og gefist þá Alþingi kostur á að ganga endanlega frá sjálfstæðismálum þjóðarinnar í samræmi við áður gefnar yfirlýsingar Alþingis í þeim efnum, þannig að stofnað verði lýðveldi á Íslandi.

Að þessu sinni þykir ekki ástæða til að víkja að þeim ágreiningsmálum, er stjórnarskiptum hafa valdið, eða freista þess að gera grein fyrir afstöðu Sjálfstfl. til þeirra, enda mun það væntanlega gert bráðlega í áheyrn alþjóðar.

Ég skal svo að lokum leyfa mér að lesa efni ríkisstjóraúrskurðar um breyting um stundarsakir á konungsúrskurði 29. des. 1924, um skipun og skiptingu starfa ráðherra o.fl.:

„Auk þeirra mála, sem samkvæmt konungsúrskurði frá 29. desember 1924 heyra undir forsætisráðherra, fer forsætisráðherra Ólafur Thors einnig með utanríkismál, landbúnaðarmál, vegamál, útvegs- og siglingamál önnur en síldarútvegsmál og strandferðamál, svo og útflutningverzlunarmál, þar undir útflutningsnefnd.

Jakob Möller fer með fjármál ríkisins, skattamál, tollamál og önnur þau mál, sem samkvæmt konungsúrskurði 29. desember 1924 heyra undir fjármálaráðherra og ekki er í þessum úrskurði ákveðið, að falin verði öðrum ráðherrum. Enn fremur bæjar- og sveitarstjórnarmál, tryggingamál, heilbrigðismál, dómsmál og önnur þau mál, sem samkvæmt téðum konungsúrskurði heyra undir dóms- og kirkjumálaráðherra, og ekki er í þessum úrskurði ákveðið, að falin verði öðrum ráðherrum.

Magnús Jónsson fer með póstmál, símamál og loftskeytamál, vatnamál, iðnaðarmál, strandferðamál, verzlunarmál önnur en útflutningsverzlun, síldarútvegsmál, þar undir síldarverksmiðjur ríkisins og síldarútvegsnefnd og önnur þau mál, sem í téðum konungsúrskurði eru falin atvinnu- og samgöngumálaráðherra og ekki er í þessum úrskurði ákveðið, að falin verði öðrum ráðherrum. Enn fremur bankamál og sparisjóðamál, gjaldeyrismál, kirkju- og kennslumál.“