22.04.1942
Sameinað þing: 7. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2554)

89. mál, brúargerð á Kvíá í Öræfum

Flm. (Jón Ívarsson):

Ég skal að sjálfsögðu verða við tilmælum hæstv. forseta um að vera ekki langorður um þessa till., sem hér er lögð fram. Ég skal aðeins geta þess, að þetta er í fyrsta sinn, sem fram kemur ósk á háttv. Alþingi um að brúa á í öræfum, en sú sveit er svo afskekkt og samgönguerfiðleikar þar svo miklir, að ég vænti þess, að tekið verði vinsamlega í málið og þær ástæður athugaðar, sem fyrir hendi eru. Ég leyfi mér að óska, að málinu verði, eins og öðrum slíkum málum, vísað til fjvn. og umr. frestað, eins og um hin önnur mál líks efnis.