05.05.1942
Sameinað þing: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2586)

103. mál, fjölgun hæstaréttardómara

*Flm. (Jóhann G. Möller):

Ég varð satt að segja fyrir nokkrum vonbrigðum að heyra ræðu hæstv. dómsmrh. og sérstaklega það, að fjársparnaður var aðalmótbára hans gegn till. minni. Hann taldi, að lagaákvæðið um, að dómararnir væru 5, væri aðeins heimild til að fjölga úr 3 í 5 og knúin fram aðeins af einum manni. En ég sé ekki betur en lögin segi skýrt: „Hæstarétt skipa 5 dómarar: En í síðustu gr., 57. gr., segir, að dómarar skuli þó aðeins vera 3, unz fé er veitt á fjárl. til að fjölga þeim. Ég tek auðvitað orð ráðh. trúanleg, þótt einkennilegt sé, að það hafi verið einn þm., sem réð þarna formi laganna. En það breytir engu. Það er lögfest, að 5 skuli dómararnir vera, en fækkun þeirra í 3 leyfð til bráðabirgða, unz fjárhagur og fjárlög neyða ekki lengur til að viðhalda þeirri bráðabirgðaráðstöfun. Till. er um afnám bráðabirgðahafta í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, en ekki um nýja embættastofnun. Hæstv. ráðh. virtist ekki vilja líta á málið í þessu rétta ljósi og skaut því hjá marki í því, sem hann r æddi réttilega um ný og ný embætti. Nú álit ég, að fjárhagshliðin megi ekki ráða neinum úrslitum í málinu, þótt svo sé að sjá af umr. um málið 1935, að hún ein hafi ráðið því, að frestað var þá að skipa alla dómarana 5. Við megum ekki láta neinn þann skugga falla á hæstarétt, að hann sé ekki hliðstæður æðsta dómsvaldi annarra ríkja. Ég vil telja, að 1935 hafi löggjafarvaldið álitið dóminn betur tryggðan með 5 dómurum en 3 og það hljóti einnig að vera á því máli nú, svo að þess vegna sé okkur nauðsyn að láta ekki dragast lengur að gjalda hæstarétti skuldina.

Það var alveg rétt hjá ráðh., að við mættum ekki „yfirbyggja“ okkur með embættafjölgun. En hér á annað sjónarmið við. Ef kóróna þeirrar yfirbyggingar er ekki fullkomin, er áliti okkar og öryggi út á við stefnt í hættu, og inn á við er byggingin gerð veikari en hún má vera. Höfuðnauðsyn er, að allir einstaklingar þjóðarinnar verði að krjúpa því valdi. Ráðh. segir hættu fólgna í till. Ég álit hættulegt að samþykkja hana ekki.

Þá segir hæstv. ráðh., að sér finnist réttara að launa vel þá 3 menn, sem nú skipa dóminn. Ég tel, að till. mín geti á engan hátt dregið úr, að sæmilega sé að þeim búið. Annars held ég, að árstekjur dómaranna séu ekki 10 þús. kr., heldur talsvert meira, og væri gaman að fá það upplýst. Eftir því sem ég bezt veit, fá þeir drjúgar aukatekjur fyrir matsgerðir, sem mjög fer fjölgandi. En jafnframt verður þessum 3 dómurum algerlega ofvaxið að komast yfir þær matsgerðir allar og slíkar rannsóknir, og það er ein ástæðan til þess, að dómarar þurfa að vera 5. Þá gæti rétturinn falið einhverjum ákveðnum dómurum matið eða a.m.k. forrannsóknir að því, áður en hann tæki þar afstöðu í heild. — Mér er það líka ljóst, að vel þarf að búa að fulltrúum okkar erlendis.

En ég þykist hafa ákaflega mikið fyrir mér í því, að dómsvaldið er í hverju landi einna merkastur fulltrúi alls stjórnarfarsins í erlendum augum og það með réttu.

Mér þykir leitt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki geta fallizt á þessa till. mína, einkum af því að ég hef orðið var við það í hinni stuttu þingseta minni, að hann hefur látið sér mjög annt um þessi mál í ræðum sínum, og mér hefur skilizt, að einmitt upp á síðkastið sé honum vel ljóst, hversu öll innri bygging okkar hlýtur að hafa mjög örlagarík áhrif á framtíðarstöðu okkar eftir stríðið. Það er hægt að leiða að því glögg rök, að því er varðar hlut smáþjóðanna eftir síðasta stríð, að þá var einmitt réttaröryggið sterkur þáttur í leiknum á hinu mikla taflborði, sem smáþjóðirnar voru peð á.