28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í D-deild Alþingistíðinda. (2601)

111. mál, stúdentagarðar

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. Alþingi er kunnug saga þessa máls og þessarar till., og er því ekki þörf að rekja þær hér. En ástæðurnar eru í stuttu máli þær, að brezka setuliðið hefur tekið Garð til afnota og hefur ekki fengizt til þess að rýma hann aftur, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ástæðurnar fyrir því er hvorki nauðsynlegt né rétt að rekja hér. En allt hefur verið gert, sem auðið er, til þess að losa húsið.

Hv. Alþingi er kunnugt um hin miklu húsnæðisvandræði í bænum, og þrátt fyrir húsaleigulögin hafa herbergi hækkað mjög í verði. Húsnæðisvandræði stúdentanna eru líka mjög mikil, og sú aðbúð, sem þeir nú verða að sæta, er alveg óviðunandi. Þess vegna er þessi till. flutt. Það er fyrirsjáanlegt, að stúdentagarðurinn, sem nú er, er allt of lítill til frambúðar. Þennan garð þarf því hvort sem er að reisa. Gert er ráð fyrir, að hann rúmi um 70 stúdenta, eða nál. helmingi fleiri en gamli Garður. Er það einkum fyrir þá sök, að meira er innréttað, o;t sumpart vegna þess, að ekki eru gerðar eins miklar kröfur til húsrýmis eins og í hinum.

Í þessu sambandi er rétt að minnast þess, að húsnæðisvandræðin eru svo mikil, að sjáanlegt er, að ekki verður hjá því komizt að reisa ný hús. En verkfræðingar eru á einu máli um það, að það verði ekki betur gert á annan hátt en zð reisa stúdentagarðinn. Við það losna ca. 80 herbergi í bænum, og bætir það verulega úr vandræðunum. — Þetta er því hvort tveggja í senn, nauðsynjamál fyrir stúdentana og bót á húsnæðisvandræðunum í bænum.

Ég hef ekki flutt á Alþingi margar till. sem þessa, og ég hefði ekki gert það, ef nauðsynin hefði ekki verið svo brýn sem raun er á. Ég vil því skora á hv. Alþingi að samþ. þessa till., því að úr byggingu Garðsins getur því aðeins orðið, að þessi till.samþ.