08.05.1942
Sameinað þing: 13. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (2621)

126. mál, Hallveigarstaður

*Flm. (Magnús Jónsson):

Flestir hv. þm. munu kannast við, að það hefur nú um langt skeið verið unnið að því af konum í Reykjavík að koma upp gestaheimili eða samkomustað fyrir konur, bæði í Reykjavík og sérstaklega kannske aðkomukonur, sem dveljast um tíma hér. Ég veit ekki, hve langt er síðan þessi starfsemi var hafin og þar á meðal fjársöfnun í því skyni að koma þessu húsi upp, en það er alllangt, og hefur aðeins strandað á því, að ekki hafa verið fjármunir fyrir hendi til þess.

Þessi viðleitni hefur nú verið viðurkennd af því opinbera með því að leggja til lóð undir væntanlegt hús á Arnarhóli. En sá staður reyndist ekki vera sem heppilegastur, og var honum komið í verð og keyptur ákaflega heppilegur blettur við Garðastræti milli Túngötu og Öldugötu, þar sem nú stendur hinn mikli sýningarskáli. Þessi lóð er geysistór, og um verðmæli hennar veit enginn. Fyrir utan þessa mestu eign hefur svo verið safnað hlutafé til húsbyggingarinnar. Hefur það gengið mismunandi vel eins og gengur, því að fjármagn hefur ekki staðið mikið að baki þessu. Þó er innborgað hlutafé nú 43 þús. kr. rúmlega. Það má segja, að það hossi ekki hátt í stórbyggingu. En nú þykja vera aðrir tímar til að safna slíku fé, ef á annað borð væri hagræði að hefjast handa, og mér þykir líklegt, að frekari hlutafjársöfnun muni ganga betur nú, og telja konurnar líkur fyrir, að svo mikið muni safnast, að e.t.v. muni vera hægt að ráðast í framkvæmdir, ef það af öðrum ástæðum reyndist ekki ókleift. Konurnar skrifuðu svo fjvn. þessa þings beiðni um að fá 100 þús. kr. styrk. En þegar það þótti sýnt, að fjárl. yrðu ekki afgr. fyrr en seinna á árinu, dregur það úr hendi tækifærið til að hef jast handa í sumar með loforð um þessa fjárveitingu. Þess vegna höfum við 3 þm. orðið við því að flytja hér fram þessa þáltill., eins og hefur tíðkazt dálítið, af þessari sömu ástæðu, um það, að Alþ. heimili ríkisstj. að veita styrk til að koma upp þessu húsi, ef það reynist af öðrum ástæðum fært.

Ég skal ekki fara mikið út í, hver þörf er á svona stofnun. Það má segja, að þær almennu stofnanir, sem til eru, séu bæði fyrir karla og konur. En reynslan sýnir, að allur meginþorri stofnana, sem settar eru upp og fé veitt til í stórum stíl, verða til miklu meiri nota fyrir karlmenn en kvenfólk. Það þýðir ekki að vitna í nein kvenréttindi, konan hefur sína sérstöðu, ekki sízt í þessu efni. Kona, sem kemur til bæjarins það að dveljast þar um stund, á ekki eins aðgengilegt athvarf á hvers konar gististöðum sem er eins og karlmenn. Það er enginn vafi, að svona gistiheimili er ákaflega gott og þægilegt fyrir konur, sem ýmist eru gestkomandi um stund eða dveljast í bænum við störf eða af sínum nauðsynjum eða annarra. En þar að auki eru það margar konur hér í bænum, sem mundu mjög óska eftir að eiga slíka miðstöð. Ég held þetta fyrirtæki hljóti yfirleitt að hafa mikla samúð allra alþm. Það mun nú hafa verið hafður sá gangur á slíkum málum sem þessum að vísa þeim til umsagnar fjvn., og vil ég ekki mælast undan því, en óska eftir velviljaðri athugun og fljótri afgreiðslu.