20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í D-deild Alþingistíðinda. (2629)

132. mál, sauðfjársjúkdómar

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og stendur í grg. þessarar þáltill., þá var samþykkt á búnaðarþingi 1941 till. um áskorun til ríkisstj., sem fór í svipaða átt og þessi. Hún var þó ekki tekin fyrir á siðasta þingi, af því að þá var ekki ljóst, hver tekjuafgangur ársins yrði, en þegar það kom í ljós, hve mikill hann var, þótti rétt að árétta þessa till. búnaðarþings með því að bera nú fram þessa þáltill.

Á búnaðarþingi komu fram ýmsar skoðanir á þessu máli, en þó aðallega tvær. Önnur var sú, að hentugasta ráðið til útrýmingar sjúkdómnum væri að ala upp stofn, sem yrði ónæmur gegn veikinni. Hin var, að þar sem of dýrt mundi reynast að ala upp nýjan stofn, þá bæri að skera niður fé á hinum sýktu svæðum og koma á fjárskiptum í héruðum. Báðar þessar skoðanir eru uppi enn þá, en um eitt eru menn alveg sammála, að ef niðurskurðarleiðin verði farin, þá megi ekki hefjast handa strax, á meðan tímarnir eru þannig, að matvælaframleiðslan má ekki minnka í landinu, en af niðurskurði fjárins mundi leiða mikið afturkast og þess vegna yrði það að bíða þar til í lok stríðsins. Það var og einróma álit manna, hver leiðin sem farin yrði, að ríkissjóður legði til hliðar fé, sem síðan yrði notað eftir stríðið til útrýmingar sauðfjársjúkdómum. Tekjur ríkissjóðs eru miklar núna, og ef ekkert yrði lagt til hliðar, gæti farið svo, að eigi væri hægt að standa straum af kostnaðinum. Ekki verður komizt hjá miklum útgjöldum vegna þessara sjúkdóma og því betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þeim efnum:

Það hefur komið fram brtt. við þessa þáltill., en ég sé ekki, að hún raski efni hennar, mér finnst allt felast í aðaltill. á þskj. 377, en ég mun ekki gera að kappsmáli, hvor verður samþ.