23.05.1942
Sameinað þing: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (2659)

151. mál, ríkisprentsmiðjan Gutenberg

Jörundur Brynjólfsson:

Hæstv. forseti hefur gefið alveg fullnægjandi skýrslu þessu viðvíkjandi af okkar hálfu. Ég get aðeins tekið undir þau ummæli hans viðvíkjandi þeim ákvörðunum, hvenær þingfundum skuli lokið. Það höfðu komið fram af hálfu þm., sumra hverra, eindregnar óskir um að flýta svo störfum þingsins, að fundum mætti verða lokið í dag. Og starfstímanum hafði verið þannig niður raðað, að okkur virtist ekki mundu vinnast nokkur tími til að taka fleiri mál en nauðsyn bar til, eins og þegar er komið á daginn. Fundur í Ed. stóð fram á nótt, og í Nd. voru fundir háðir í morgun. Okkur var líka kunnugt um það, að nokkrir þm. ætluðu sér núna árla þessa dags í burt, og þeir eru þegar farnir. Þess vegna fannst okkur ekki hlíta, að meðferð mála héldist áfram eftir að þingið var ekki fullskipað, og hygg ég, að allir hv. þm. geti á þessar ástæður fallizt. Ég vil vona, að ekki fari fram frekari umr. um þetta mál, þar sem sjáanlegt er, að ekki er unnt að halda áfram frekar meðferð mála annarra en þeirra, sem eru á dagskrá.