11.03.1942
Neðri deild: 17. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forsrh. endaði ræðu sína með því að tala um þá hættu, sem stafað gæti af ábyrgðarleysi í stjórnmálum þeirra landa, sem væru í hættu vegna stríðsins, eins og okkar land er. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh.: Hefur ábyrgðarleysið nokkurs staðar komizt eins langt og nýlega í einni yfirlýsingu hæstv. ríkisstj:, sem var á þessa leið: „Landvarnarvinnan er ríkisstj. óviðkomandi“? Hvað er ábyrgðarleysi í stjórnmálum, ef ekki slík ummæli? Ég ætla aðeins að minnast á eitt atriði í sambandi við þetta, það er afstaðan til hervarna landsins.

Aðalblað ríkisstj., Morgunblaðið, lýsir yfir því, að „landvarnirnar séu ríkisstj. óviðkomandi“. Er þetta nú borið fram til þess að verja það, að fækkað sé í Bretavinnunni, en tilgangurinn með því er að geta lækkað kaupið eða haldið því verulega niðri.

Þegar ríkisstj. gerði hervarnarsamninginn við Bandaríkin í fyrra, þá áskildi hún sér eftirfarandi rétt í samningnum:

„Bandaríkin skuldbinda sig til að haga vörnum landsins þannig, að þær veiti íbúum þess eins mikið öryggi og frekast er unnt og að þeir verði fyrir sem minnstum truflunum af völdum hernaðaraðgerða, og séu þær gerðar í samráði við íslenzk stjórnarvöld að svo miklu leyti sem mögulegt er.“

Og enn fremur:

„Íslenzka ríkisstj. leggur sérstaka áherzlu á, að nægar flugvélar séu til varnar, hvar sem þörf krefur og hægt er að koma þeim við, jafnskjótt og ákvörðun er tekin um, að Bandaríkin takist á hendur varnir landsins.“

Það er auðséð, að ríkisstj. hefur þá ekki álftið landvarnirnar sér óviðkomandi. En álitur hún þær sér óviðkomandi nú? Það er óhjákvæmilegt fyrir hana að taka afstöðu til ummæla Morgunbl., sérstaklega þó vegna þeirra tilrauna, sem hún gerir til þess að fá Bretavinnuna minnkað. — Ríkisstj. afsakar sig með því, að atvinnuvegirnir séu í hættu. Verklýðsfélög eins og Dagsbrún hafa þegar lýst sig reiðubúin til samninga við ríkisstj. um að tryggja nauðsynlega framleiðslu í landinu jafnhliða hervarnavinnunni. Í fyrra settum við Sósíalistaflokksm. fram till. um að tryggja landbúnaðarvinnuna með því að veita bændum fjárhagslegan styrk, til þess að þeir stæðust samkeppnina við Bretavinnuna. Enn bjóðum við aðstoð verklýðsfélaganna, eins og Dagsbrún nú hefur gert, til þess að tryggja framleiðslu nauðsynjavaranna, og það er ríkisstj., sem hafnar þeirri samvinnu. Hún vill taka menn úr Bretavinnunni, til þess að reyna að skapa atvinnuleysi, en hún vill ekki fækka í óþarfavinnunni, Bretasjoppunum. — Hvað er hún að gera? — Hæstv. forsrh. minntist á stríðsgróðann, hver á að eiga hann? Eiga togarafélögin að eiga hann. svo sem Kveldúlfur? Ég segi nei! Þjóðin sjálf á að eignast stríðsgróðann, til þess að hún geti ráðið framleiðslutækjunum og gert þau að sinni sameign. Það er það, sem við erum að berjast um.

Hæstv. atvmrh. talaði hér af miklum þjósti um „hrunið eftir stríðið“, atvinnuleysið og eymdina, sem þá biði fólksins. Hann var að reyna að láta líta svo út sem þetta hrun kæmi því aðeins, að stefna hans sigraði ekki, að hrunið væri aðeins afleiðing dýrtíðar. — Nú vil ég í fyrsta lagi taka það fram, að einmitt dýrtíðin er stefna hæstv. ráðh., ef dæma skal hana af ávöxtunum. 83% dýrtíðaraukning á tæpum 3 árum, það er heimsmet í dýrtíð. En sleppum því nú. Hrun kom eftir síðasta stríð, bæði í þeim löndum, sem verðbólgan varð ógurlegust í, eins og Þýzkalandi, sem og í hinum, sem tóku aftur upp gullmynt, eins og í Englandi. Hrunið stafaði ekki af einstökum ráðstöfunum, svo sem gengisskráningu eða slíku. Orsök hrunsins var skipulagsleysi auðvaldsþjóðfélagsins sjálfs. Atvinnuleysi og eymd er óhjákvæmilegur fylgifiskur þjóðfétags, sem hefur gróða fyrir Kveldúlf og önnur slík auðfélög að leiðarstjörnu, en hindrar með öllum ráðum verkalýðinn í því að eignast fullan afrakstur vinnu sinnar. Þeim, sem boða atvinnuleysi eftir stríðið, vil ég segja þetta: Þjóðirnar, sem nú ganga í gegnum þjáningar stríðsins, er yfir stendur, ætla sér áreiðanlega ekki að þola það, að eftir stríðið verði atvinnuleysi og eymd haldið áfram sem áður var. Þjóðirnar eru búnar að fá nóg af stjórn manna, sem ekki geta annað en fært eymd, atvinnuleysi og kúgun yfir þær. — Föðurlandsástin hjá Thorsurunum ! — já, ég efast ekki um að þeir elski föðurlandið og þjóðina, — en það er þá í bezta falli eins og reiðmaður elskar hest, sem hann pínir áfram með sportinum til að bera sig að markinu. Þrælalögin, sem við hér ræðum, sýna það bezt, hvað það er, sem þeir elska, þessir herrar, — allur ferill stj. frá 1939 sannar það, — það eru peningarnir, gróðinn t.d. hjá Kveldúlfi. Það hefur verið eina markmiðið, sem þessir herrar hafa stefnt að, og þar hefur líka þjóðin verið pínd svo um munar. Eimskipafélög þau, sem einn af umeðrum hæstv. ráðh. er form. í, hafa þrítugfaldað auð sinn, — en sjómönnunum, sem aflað hafa gróðans og allt of margir hafa fórnað lífinu þeim er bönnuð grunnkaupshækkun og reynt að brennimerkja áhættuþóknun þeirra með orðinu „hræðslupeningar“, sem búið er til af helzta samstarfsmanni þessa hæstv. ráðh. Hverjir eru þá „föðurlandsleysingjar“, ef ekki fyrst og fremst þessir tilbiðjendur gróðans, sem alltaf hafa verið reiðubúnir að semja við erlenda auðmenn á kostnað þjóðarinnar, allt frá Gismondisamningnum alræmda og til brezku samninganna í sumar?

Ég held, að Jensenssynir ættu að tala sem minnst um föðurland. Þeirra er hvorki Ísland né einu sinni Danmörk, þeirra föðurland er bara gróðinn.

Og svo kom hæstv. atvmrh. að Finnagaldrinum, — ósköp held ég, að hann sakni hans —, að nú skuli vera hlegið að honum fyrir sömu ummælin, sem menn héldu, að hann meinti fyrir tveimur árum. Hann er auðsjáanlega jafnhrifinn enn af verklýðsböðlinum Mannerheim sem fyrir 2 árum. Hann hefur auðsjáanlega ekki minnkað ást sína á honum, eftir að hann tók upp baráttuna með Hitler, máske aukið hana. Sækjast sér um líkir. Það er ekki verið að fara í felur með aðdáunina á fasismanum hjá þessum forsprakka milljónamæringanna á Íslandi. Staðfestir þetta allt þau ummæli mín, sem ég áðan hafði.

Það er blekking hjá stjórnarfl., að þeir geti ráðið við dýrtíðina að fullu. Ég skal athuga stuttlega höfuðþætti dýrtíðarinnar. Við getum hindrað braskið. — En það hefur ríkisstj. einmitt ekki gert. Hún hefur þvert á móti fengið böskurunum tugi millj. kr. til þess að braska með og skapa þannig verðbólguna. Við getum ekki hindrað verðhækkun erlendu varanna. Það er hægt að gefa með þeim um tíma,— en það er þá beinlínis verið að taka úr vasa eins alþjóðar — og láta í vasa annars — stórútflytjendanna —, og til lengdar er, það, ef verðhækkun verður mikil. — Það er hægt að reyna að binda kaupgjaldshækkun, ef menn vilja velta afleiðingum dýrtíðarinnar yfir á verkalýðinn. En það er þá gert til þess eins að kúga verkalýðinn, en ekki til hins, að hindra dýrtíðina, því að kaupgjald getur vel hækkað án þess að dýrtíð vaxi. T.d. hefur kaupgjaldið í Bandaríkjunum, frá því á síðasta ári, hækkað um 25%, en dýrtíðin aðeins vaxið um 6%. — Það, sem stjórnarfl. hér hafa verið að tala um dýrtíðina sem átyllu til gerðardómsl., er þá fyrst og fremst blekking, átylla til þess að dylja með kaupkúgunina. Þessi hræsni stjórnarfl. verður berust, ef athugaðar eru gerðir þeirra. Hverjir eru það, sem gera öngþveitið mest? Hverjir eru að gera peningana verðlausa? Hverjir hafa fellt krónuna síðan 1939 svo hrottalega, að dýrtíðin hefur vaxið um 83%? Hverjir hirða eignir ekknanna og munaðarleysingjanna? Það eru ekki kommúnistarnir, — það eru þeir, sem hafa látið dýrtíðina vaxa um 83%, þeir, sem knúðu fram gengislækkunina 1939. Það eru þeir, sem héldu krónunni jafnlágri, þegar reynt var þó að lækka sterlingspundið eftir hernámið. Og hverjir eru þetta? Stjórnarflokkarnir. Hverjir hafa grætt á þessu? Togaraeigendur með Kveldúlf í broddi fylkingar.

Það kann nú að virðast spaugilegt, sem fulltrúi Bændafl. sagði hér áðan: að það væri stefnuskrá hans, sem væri framkvæmd, þegar mikið lægi við, — en þetta er nú eiginlega alveg satt, sbr. gengislækkunina 1939 og þrælalögin nú. Þegar breiðfylkingin alræmda gekk til kosninga, þá þorði Sjálfstfl. ekki að segja neitt um gengislækkun vegna kjósenda sinna, — en Bændafl. í breiðfylkingunni gat engu tapað hjá sínum kjósendum með því að segja, hvað fyrir honum vekti. Þess vegna gerði hann það. Nú er stefnuskrá þeirra framkvæmd fyrst af Alþfl. og nú síðast Ólafi Thors og svo auðvitað af Bændafl. En kjósendurnir, sem kusu 30 þm., vinstri flokkanna á þing, á móti breiðfylkingunni, eru sem vænta má, illa sviknir. — Baráttan, sem stendur um þetta frv., er einn mikilvægasti þátturinn í stéttar- og valdabaráttu, sem hér hefur verið háð. Annars vegar standa stríðsgróðamenn, stórútflytjendurnir, eins og togaraeigendur, sem grætt hafa nú yfir 100 millj. kr. á stríðinu, — menn, sem hafa þrítugfaldað auðmagn það, sem þeir hafa lagt í hlutafélög sín, meðan íslenzka sjómannastéttin hefur beðið þyngra afhroð vegna stríðsins en nokkru sinni fyrr. Hins vegar standa allar vinnandi stéttir þessa lands, verkamenn og launastéttir, bændur og smáatvinnurekendur kaupstaðanna. Allar þessar stéttir eru gerðar að ófrjálsum þegnum stríðsgróðaauðvaldsins, — að féþúfu þess —, ef þessi l. fá að standa áfram. Þess vegna er það mál málanna, að þær sameinist nú, sameinist gegn milljónamæringastéttinni og hirðmönnum hennar.