10.04.1942
Neðri deild: 32. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun nú ekki svara nema sumum atriðum úr þessarl löngu ræðu hv. þm. Ísaf. Enda er sannleikurinn sá, að hún mun meira hafa verið haldin til þess að tefja tímann heldur en af því, að hv. þm. sé ekki ljóst, að mest af því, sem þessi hv. þm. hefur nú tekið fram, hefur verið tekið fram áður, ýmist af samherjum hans hér í þinginu eða annarra flokka mönnum. Og jafnframt hefur flestu af því, — að vísu ekki öllu —, sem hann hefur nú komið fram með, verið svarað áður. Ég ætla hér aðallega að minnast á það af því, sem hann hefur sagt nú, sem snertir það ráðnuneyti, sem ég veiti forstöðu. En áður en ég kem að því, vil ég víkja örfáum orðum að ýmsum almennum fullyrðingum, sem þessi hv. þm. kom með og snerta flokk minn sérstaklega. En mestur hlutinn af þeim skætingi, sem hv. þm. Ísaf. hreytti til mín í ræðu sinni, er þannig, að hann er ekki svara verður.

Hv. þm. Ísaf. sagði í gær, að mér hefði fundizt það ábótavant við löggjöfina, sem gilt hefur um dýrtíðarmálin og ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í þeim málum, að þær væru ekki nógu illvígar í garð verkamanna og launamanna í landinu. Ég veit ekki, hvernig þessi hv. þm. ætlast til, að þessu sé svarað, hvort hann ætlast til, að því sé svarað með sams konar skætingi. En ég ætla ekki að fara í neitt slíkt skæklatog hér á hæstv. Alþ. Hitt ætla ég að minna hv. þm. á, að hann og flokkur hans hefur gert sér títt um það undanfarin ár, hve mörgum áhugamálum verkamanna og launamanna hann hafi komið fram með stuðningi Framsfl. og þá ekki síður mínum stuðningi en annarra. Þetta hygg ég, að hafi verið aðalinntakið í því, sem hv. þm. Ísaf. og flokksmenn hans hafa haldið fram hingað til um Framsfl.

Hv. þm. Ísaf. minntist á það, sem hann kallaði launaskattstill. frá þinginu í fyrra. Ég greip þá fram í fyrir honum og leiðrétti það, því að það lágu ekki fyrir 1941 neinar slíkar till. á þingi um launaskatt. En ég sagði, að þessi hv. þm. væri svo oft búinn að segja þetta, að hann vissi varla, hvað væri rétt í þessu máli. Ég er sannfærður um, að 9 menn af hverjum 10 eru farnir að trúa því, að lagt hafi verið fram launaskattsfrv. hér á þingi, sem aldrei hefur sézt hér. en það var lögð fram till. um að leggja sérstakan viðbótartekjuskatt, að vísu með sérstökum hætti, á almennar tekjur landsmanna, en ekki frekar á laun heldur en aðrar tekjur. Þetta er sýnishorn at þeim málflutningi, sem sumir menn telja sómasamlegan í þessu máli. Þessi skattstill. átti að réttlæta ummæli hv. þm. Ísaf. um það, að ég væri verkalýðsböðull og teldi aldrei nógu níðangurslega gengið í garð verkamanna. Eftir þessari till., sem ég gat um, var gert ráð fyrir þessum viðbótartekjuskatti þannig, að þó að hann hefði verið lagður við tekjuskattinn, sem samþ. var á þinginu, þá náði hann samt ekki því, sem flokkur hans og við framsóknarmenn lögðum á sem tekjuskatt sameiginlega. Þessi hv. þm. verður því að hafa mig afsakaðan, þó að ég taki ekki sérstaklega nærri mér gífuryrði hans út af þessari till.

Hv. þm. Ísaf. talaði mikið um vanrækslu ríkisstjórnarinnar í dýrtíðarmálunum. Þótt ég vilji ekki taka undir gífuryrði hans um það efni, því get ég tekið undir margt af því, sem hann sagði um það, vegna þess að enginn maður hefur meira gagnrýnt það skeytingarleysi, sem ríkisstjórnin, sem áður sat, sýndi í því máli, þar sem, eins og hv. þm. benti á, var samþ. löggjöf í dýrtíðarmálunum að mínu frumkvæði, sem ekkert verulegt fékkst framkvæmt eftir. Ég tek því ekki til mín skæting hv. þm. Ísaf. um það efni. En hann getur ekki, né flokkur hans, ákaflega djarflega talað um þessi mál. Ég get upplýst það hér, ef menn vita það ekki áður, að hæstv. fyrrv. félmrh. (StJSt) átti aldrei frumkvæði að neinum aðgerðum í dýrtíðarmálunum og rak aldrei eftir því, að neitt væri gert í þeim. En hann tók venjulega undir það með mér, þegar ég rak eftir aðgerðum í þeim efnum í ríkisstjórninni; og tjáði sig reiðubúinn til að fylgja því, sem ég lagði til. En að hv. þm. Ísaf. geti staðið hér upp og fleygt í menn skætingi út af framkvæmdaleysi í dýrtíðarmálunum, finnst mér alveg fráleitt, af því að aðstaða flokks hans er eins og ég hef skýrt frá í þessu máli.

Hv. þm. Ísaf. deildi talsvert mikið á aðgerðarleysið í dýrtíðarmálunum, og það má margt segja um það og kannske fleira en hv. þm. drap á. En það er eitt atriði í sambandi við dýrtíðarmálin enn þá, sem ekki snertir sérstaklega mitt ráðuneyti, sem mér finnst skylt að minnast á, það, sem hv. þm. sagði um það, að hækkanir á verði á landbúnaðarafurðum hefðu verið framkvæmdar gersamlega úr hófi fram og með slíkri frekju, að engin dæmi og engin skynsamleg rök væru fyrir, og að þessar framkvæmdir hefðu orðið til þess að gera að engu viðleitni manna í dýrtíðarmálunum. Ég vil ekki hafa þau gífuryrði um flokk hans út af þessu, eins og hann hafði um ríkisstjórnina viðkomandi verkamönnum. En ég get bent á, að þrátt fyrir þessa framkvæmd, sem hann talaði um í verðlagsmálum landbúnaðarins, þá er ástandið þannig, að fólkið streymir jafnt og þétt frá landbúnaðinum úr þessari sælu, sem þar á að hafa verið sköpuð, og yfir í verkamannastéttina, þar sem kúgunarl. gilda. Þannig er ástatt í landinu. Ég hygg, að það væri betra fyrir þennan hv. þm. að kryfja til mergjar ástæðurnar fyrir þessari þróun heldur en að sitja við að setja saman aðra eins gífuryrðaræðu eins og hann hefur flutt hér. Það er ekki hægt að komast fram hjá þessari einföldu staðreynd. Og það er ekki hægt fyrir þennan hv. þm. að sleppa með það að gera það í öðru orðinu að ádeiluefni á ríkisstj., að hún hafi þolað verðlækkun á landbúnaðarafurðum, en segja í hinu orðinu, að hann sé ekki að telja eftir hækkunina á verðlagi til bændanna. Það er tilgangslaust fyrir þennan hv. þm. að gera slíkar tilraunir til þess að draga úr því í öðru orðinu, sem hann segir í hinu. Og það er ekki hægt fyrir hann að komast fram hjá þeirri staðreynd, að afurðaverð landbúnaðarins er svo lágt, að fólkið streymir frá þeirri framleiðslu og í verkamannastéttina, sem, eftir orðum þessa hv. þm., býr við kúgunarlög.

Um sjálf gerðardómsl., sem hér liggja fyrir, ætla ég ekki að ræða almennt. Þau snerta ekki nema að litlu leyti þá stjórnardeild, sem ég veiti forstöðu. Hv. þm. Ísaf. kallaði þau kúgunarl. L. eru um það aðallega, að haldast skuli sem mest óbreytt grunnkaup í landinu, eins og það var unt síðustu áramót. Ég held, að það væri nær fyrir þennan hv. þm., heldur en að setja á langa ræðu um þetta, að útskýra fyrir hv. þm., í hverju það afbrot liggur að setja l. sem þessi, þegar þess er gætt, að ráðh. flokks hans og Alþýðusamband Íslands var reiðubúið að vinna að þessu sama, sem l. miða að, en án löggjafar. Það er ekki nema til þess að gera sig hlægilegan að vera með þennan bægslagang og kalla þessi l. kúgunarlög vegna þess, að þau gangi nærri verkamönnum. Það lætur undarlega í eyrum frá þeim mönnum, sem hafa þá afstöðu, sem ég hef bent á.

Ég mun ekki svara fleiru af þeim ádeilum, sem snerta framkvæmdir þær, sem gerðar hafa verið eftir þessum l., eða almennt l. sjálf. En ég mun ræða hér sérstaklega verðlagseftirlit erlendra vara, sem hv. þm. Ísaf. deildi talsvert á í ræðu sinni. Hv. þm. komst að þeirri niðurstöðu, að mér skildist, að eftirlitið með verðlagi erlendu varanna hefði verið slælega rekið. Og hann sagði það beinlínis, að það hefði verið gagnslítið, og að mér skildist gagnsminna heldur en það hefði getað verið, ef vel hefði verið á haldið. Hann sagði, að ég mundi hafa haft góðan vilja til þess að sinna þessu máli, sem stakk nokkuð í stúf við vitnisburð hans um mig viðvíkjandi öðru efni, en að framkvæmdin hafi ekki orðið eftir því. Ég verð nú að segja það, að það er ákaflega erfitt bæði fyrir mig og eins hv. þm. Ísaf. að færa sönnur á það, hvaða gagn hafi verið að verðlagseftirlitinu með erlendum vörum, eða að hve miklu leyti hefði getað orðið meira gagn að því heldur en raun hafi á orðið, vegna þess að hvorugur okkar veit, hvernig verðlagsástandið hefði verið hér í landinu á erlendum vörum, ef ekki hefði verið verðlagseftirlit. Hins vegar munu allir gera sér það ljóst, að mjög mikið gagn hefur orðið að þessu verðlagseftirliti. Það þarf ekki annað en athuga verðlag á varningi þeim, sem ekki er undir verðlagseftirliti, til þess að fá hugmynd um, hvernig ástandið hefði verið, ef ekkert slíkt eftirlit hefði átt sér stað, t.d. verðlag á hlutum, sem ganga kaupum og sölum manna á milli með margföldu verðlagi, og miður þörfum hlutum í verzlunum, sem ekki hefur verið hámarksálagning eða hámarksverð sett á. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. í þessari gagnrýni sinni á framkvæmd verðlagseftirlitsins, sem var nokkuð almenn, hafi stuðzt við hennar fullyrðingar, sem í blöðum hafa birzt um það, að verðlagseftirlitið hafi verið slælega rekið. En þessar fullyrðingar hafa lítið verið rökstuddar og jafnvel sumar alls ekki. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Ísaf. hafi viljað taka undir þennan söng hér á þingi. Það er ákaflega erfitt að færa fram sannanir í þessu máli. En það er hægt að draga fram líkur að því, hvað unnizt hefur. Ég ætla að minnast á eitt dæmi.

Hér í bænum starfar öflugt kaupfélag og það hefur þá aðstöðu í benum, að það getur ráðið verði á helztu nauðsynjavörum. Þetta félag hefur nú gert upp reikninga sína fyrir s.l. ár, og niðurstaðan er sú og hefur verið birt opinberlega, að félagið hefur haft verzlunarumsetningu, sem nemur 61/2 millj. kr. Hreinn ágóði félagsins s.l. ár er reikningslega 315 þús. kr., en ef bætt er við óvenjulegum afskriftum, þá hygg ég, að hann sé um 370 þús. kr. (GÞ: Það ætti að greiða stríðsgróðaskatt.) Það lætur megingróðann ganga til þeirra, sem skipta við það, og hann er sem næst 5%–6% af brúttóumsetningu félagsins. Nú er augljóst, að þetta félag á að hafa aðstöðu til að haga rekstri sínum hagkvæmlega eða hagkvæmlegar en flestir aðrir, sem reka verzlun hér í bænum. Það verzlar með alla nauðsynlega verzlunarvöru. Það kom greinilega fram á aðalfundi þessa félags, að þessi ágóði er ekki meiri en þetta vegna þess verðlagseftirlits, sem haldið hefur verið uppi. Og það er gengið út frá því, eftir upplýsingum, sem komu fram á þessum fundi, að ef verðlagseftirlitinu væri haldið í því horfi, sem nú er, þá mundi varla verða þess að vænta, að félagið gæti borgað nokkurn tekjuafgang á yfirstandandi ári til félagsmanna sinna, því að það var gengið út frá því, að það verð, sem það má hafa á vörum, gerði ekki betur en að það slyppi með að bera uppi rekstrarkostnað. Nú skal ég ekki segja um það til hlítar, hvernig þessi verzlun er rekin. En þetta er stórt félag og hefur þessa aðstöðu. En þetta sýnir það, að ef félagið. er sæmilega rekið, þá hefur verðlagseftirlitið í þessum vörugreinum verið miklum mun áhrifameira heldur en þeir vilja vera láta, sem skrifa í blöðin um það, og heldur en hv. þm. Ísaf. vill vera láta. Hitt er svo annað mál, að mér er ekki kunnugt um afkomu heildverzlana. Þetta félag rekur smásöluverzlun. En mér leikur grunur á því, að afkoma heildverzlana sé hlutfallslega betri og þar hafi ekki verið gengið nægilega langt í því að takmarka verðið með eftirliti. En það mál er í athugun, miðað við afkomu þá, sem menn sjá, að verður hjá þeim á árinu 1941.

Það mætti nefna ýmis dæmi um árangurinn af verðlagseftirlitinu, enda býst ég ekki við, að neinn haldi fram, að það hafi ekki borið árangur, heldur að það hafi ekki borið nægilegan árangur. Í því sambandi vit ég benda á það, að samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið, þá var álagningin á vefnaðurvörur í heildsölu, áður en farið var að skipta sér af álagningunni, 30% og komst jafnvel upp í 60%. En þessi álagning hefur verið knúin niður í 13%. Smásöluálagning á vefnaðarvörur hefur ekki verið eins gífurlega lækkuð, af því að hún var ekki eins. gífurleg eins og heildsöluálagningin, en þó mikið lækkuð. Enda vita allir, sem kaupa vefnaðarvörur, að þegar miðað er við innkaupsverð á vefnaðarvörum fyrir stríð, þá er furða, hvað útsöluverðið hefur hækkað lítið. Hins vegar, eins og innkaupsverðið er orðið á vefnaðarvöru, þá má lækka álagninguna enn meira, og er það í athugun.

Þá má nefna þann árangur af verðlagseftirlitinu, að hér var tekið til meðferðar verðlag á nýjum fiski og verð á honum lækkað um 20–30 aura hvert kg, og það munar líklega a.m.k. upp undir hálfri milljón á ári á þeim eina lið. Um kot er það að segja, að þau hafa alltaf verið undir nákvæmu álagningareftirliti. Og á þeirri vörutegund munar það hundruðum þús. kr., sem borið hefur á milli verðlagsins, sem hefði verið, og þess verðlags, sem verðlagsnefnd hefur heimilað. Sama er að segja um olíu og veiðarfæri o.fl. Það er því ekki nein spurning um það að árangurinn hefur orðið gífurlegur af verðlagseftirlitinu, hvort sem hægt hefði verið að komast lengra eða ekki. Ég tel, að það hefði verið hægt að komast lengra í ýmsum greinum heldur en verið hefur, og er verið að rannsaka það sérstaklegu. Og þar á ég við heldur meiri lækkun heildsöluálagningar en gerð hefur verið. En ég er þeirrar skoðunar, að þó að farið hefði verið að öllum greinum eins langt í takmörkun álagningarinnar og hugsanlegt hefði verið að gera, þá hefði það tölulega lítil áhrif haft á heildarverðlagið, vegna þess að það er svo skammt á milli þess, sem, gert hefur verið, og þess, sem hægt er að komast. Þeir, sem vilja skjóta sér undan því að kryfja dýrtíðarmálin til mergjar og standa að nokkrum róttækum ráðstöfunum í málinu, þeim er tamt að tala um verðlagseftirlit á erlendum vörum. Það þarf vitanlega að líta gaumgæfilega eftir því, hve álagningin á erlendu vörurnar er mikil. En það er ekki nema einn tiltölulega lítill þáttur í verðlagseftirlitinu, því að það, sem kaupfélög og kaupmenn taka upp í kostnað, er ekki nema sáralítill hluti af verði vörunnar sjálfrar, hvað þá þegar tekið er tillit til alls, sem hefur áhrif á framfærslukostnaðinn og verðvísitöluna í heild.

Eftirlitið með erlendu vörunum í þessu efni hefur verið framkvæmt þannig, að það hefur verið í höndum 5 manna nefndar. Þessi nefnd hefur ekki verið skipuð af ríkisstjórninni nema formaður hennar. Hinir 4 nefndarmenn eru skipaðir af Alþýðusambandi Íslands, Sambandi ízlenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráðinu og Landssambandi iðnaðarmanna. Þessi n. hefur haft endanlegt úrskurðarvald um álagningu og markaðsverð. En ríkisstjórnin hefur ekki haft þar neitt vald, nema það, sem hún hefur gegnum formann nefndarinnar, þannig að þó að viðskiptamálaráðuneytið hafi ekki verið í öllum greinum ánægt með gerðir n., þá hefur það ekki getað breytt þeim. Ég vildi fá þessu breytt þannig á þinginu í vetur, að ég gæti fengið verðlaginu breytt, ef ég vær í ekki ánægður með verðlagseftirlitið. En þeirri till. var komið fyrir kattarnef. Þess vegna hefur gerðardómurinn fengið vald yfir þessum málum, sumpart með l., sem sett voru í jan. s.l. og sumpart með því, að ríkisstjórnin hefur falið honum að starfa að ákvörðun verðlags samkvæmt þeim l.

Hv. þm. Ísaf. gagnrýndi mjög og gerði lítið úr starfi verðlagsn., án þess þó að færa nokkur rök fyrir máli sínu í raun og veru. Nú hef ég skýrt frá því, að Alþýðusamband Íslands á einn fulltrúa í verðlagsn. Og það hefði áreiðanlega verið mjög vel þegið af mér og form. verðlagsn., að sá fulltrúi hefði beitt sér skelegglega til þess að lækka álagningu og hámarksverð vara eða hafa áhrif á vöruverð til lækkunar. Ég segi það vegna þess, að í n. voru menn, sem vildu halda verðinu uppi, svo að það hefði verið gott að fá þann fulltrúa til þess að vega á móti til þess að gera aðstöðu formanns n., fulltrúa okkar í ríkisstjórninni, betri. En þessi fulltrúi Alþýðusambands Íslands. hefur ekki átt frumkvæðið að svo sem neinum málum í verðlagsn. eða hjálpað til þess að vega upp á móti hinum nefndarmönnunum, sem vildu toga verðlagið upp.

Ég held, að hv. þm. Ísaf. hefði verið sæmra, áður en hann fór að ráðast á mig með óbilgjarnri gagnrýni fyrir þessi mál, sem þingið hefur ekki látið mig hafa neitt vald í, að kynna sér, hvað fulltrúi Alþýðusambandsins hefur gert í þessum málum, hversu vel hann hefur staðið þar á verði, og hefur hann þó haft þar meira að segja en ég, þar sem hann hefur atkvæðisrétt í nefndinni, en ég hef ekki getað haft þar áhrif nema með viðtölum við form. n., en ég skil vel, að það muni passa betur í kramið fyrir hv. þm. Ísaf. að beina ádeilu sinni að mér en fulltrúa Alþýðusambandsins þar, og verður að virða honum það til vorkunnar, en eigi að síður eru málavextir eins og ég hef greint.

Hv. þm. Ísaf. spurði, hvort nokkur vísitala hefði verið gerð yfir verzlunarkostnaðinn. Ég hygg, að mér sé óhætt að svara því neitandi, og það af þeirri almennu ástæðu, að hún mundi ekki hafa verið að neinu gagni við verðlagseftirlitið, af því að allar kringumstæður eru svo misjafnar í hinum ýmsu verzlunargreinum, að hún hefði í raun og veru verið einskis virði. Hins vegar he fur verið unnið þannig, að reynt hefur verið, — ekki að koma upp vísitölu —, heldur hafði nefndin reikninga og kynnti sér beinlínis þann raunverulega verzlunarkostnað í hverri grein fyrir sig og reyndi þannig að komast að niðurstöðu um, hvað verzlunarkostnaðurinn raunverulega hækkaði og reyndi að miða ákvarðanir sínar við það, svo að fremur má segja, að reynt hafi verið að koma upp vísitölu fyrir hverja verzlunargrein fyrir sig.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á, að erfitt er að sanna með tölum, hvað mikla þýðingu verðlagseftirlitið hefur haft, en það er alveg ljóst, að það hefur haft gífurlega mikla þýðingu. Það má deila um, hvort farið hafi verið eins langt og hægt hefði verið að komast með því svo að segja að taka allan ágóðann úr verzluninni. Hins vegar stendur það fast að því er snertir aðalnauðsynjavörurnar í Reykjavík, að KRON, sem er langstærsti verzlunarrekandinn í þeirri grein og hefur betri aðstöðu til að reka þá verzlun ódýrt en nokkur annar, hefur ekki haft nema 5–6% ágóða af þessum verzlunarrekstri. Bendir það eindregið í þá átt, að eftirlitið hefði orðið mjög áhrifamikið á helztu nauðsynjar a.m.k. í smásölu. Nú hefur gerðardómurinn þetta með höndum, og hefur hann enn lækkað álagninguna á helztu nauðsynjar með þeim árangri, að margir halda fram, að sú álagning, sem leyfð er, sé of lág. Þannig verður tekin hver vörutegundin eftir aðra og alls staðar lækkað, þar sem möguleikar eru á að koma slíkri lækkun við. Hins vegar tala menn mikið um þennan mikla verzlunargróða. Ég hef minnzt á afkomu KRON, en vera má, að í þeim verzlunum, sem hafa minna þarfar vörur, þar sé mikill verzlunarágóði, en það er ekki óeðlilegt. Þar sem umsetning er mikil og verðið fer síhækkandi, er aldrei hægt að koma í veg fyrir, að gróði komi á birgðirnar, sem fyrir eru. Og þegar engin vanskil eiga sér stað, þá er ekki undarlegt, þó að ýmsar verzlanir, sem verða minna fyrir barðinu á eftirlitinu, geti grætt talsverðar fjárhæðir. Annars vil ég segja það, að sú tröllatrú, sem sumir menn trafa á verðlagseftirliti, sé á misskilningi byggð. Auðvitað verður að halda uppi slíku eftirliti eins og mögulegt er, en hversu vel sem það er gert, þá verður meira og minna komizt fram hjá því, og er ómögulegt að koma í veg fyrir það. Samt sem áður getur það gert mjög mikið gagn, en það eina verðlagseftirlit, sem er tryggt frá mínu sjónarmiði, er, að fólkið sjálft taki verzlunina í sínar hendur og reki svo öflug kaupfélög, að þau geti ráðið verðinu og verið óbilugt verðlagseftirlit, og það er það, sem fólkið getur framkvæmt sjálft, og þarf ekki að deila við neinn óviðkomandi um, hvernig það verki. Nú ráða kaupfélögin ekki alls staðar verðlaginu, og þess vegna verður að vera verðlagseftirlit, þó að misbrestir kunni að verða á því í framkvæmdinni, og er ástæðulaust að kippa sér upp við, þó að rökstudd gagnrýni komi á slíka starfsemi, en órökstuddar fullyrðingar verða aldrei að neinu gagni fyrir neinn.