13.04.1942
Neðri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Sigurður Kristjánsson [frh.]:

Þegar ég frestaði ræðu minni síðast, hafði ég rætt nokkuð uppruna dýrtíðarinnar og orsakir hennar, sem byrjuðu með því, að aðfluttar vörur hækkuðu í verði. Ég sýndi fram á, að þessi hækkun hefi stafað af vöruskorti í landinu að verulegu leyti. Ég vil endurtaka það, að það urðu mjög mikil átök um það í ríkisstjórninni milli flokkanna, hvort ætti að lina á innflutningshöftunum, sem ollu þessar í miklu verðhækkun. Út af því, sem hér hefur verið talað um ágreining í ríkisstjórninni í þessum málum, get ég ekki annað en borið sannleikanum vitni, og er mér kunnugt um, að ráðh. Sjálfstfl. sóttu fast, að linað væri á innflutningshöftunum og þeim létt af að verulegu leyti. En það er leitt til þess að vita, að ráðh. Alþfl. í ríkisstjórninni var sammála sjálfum dýrtíðarráðherranum um, að ekki væri hægt að létta af innflutningshöftunum og koma þannig í veg fyrir vaxandi dýrtíð. Annar þáttur þessara dýrtíðarmála var hin öra verðhækkun á innlendri framleiðslu.

Á Alþ. 1941 voru samþ. lög, sem áttu að gera stjórninni það kleift að halda dýrtiðinni niðri. Það voru samþ. lög, sem heimiluðu að halda verðlaginu niðri á öllum innfluttum vörum og ýmiss konar iðnaðarvörum, sem unnar eru úr innlendum og erlendum efnum, en ríkisstjórnin hefur gert sáralítið í þessu. Það er ekki hægt að kenna Alþ. eða almenningi um þetta, heldur hefur ríkisstj. ekki haft lag á því að halda verðinu niðri. Síðan er boðað til aukaþings í haust, til þess að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar. Það er einkennilegt, að ríkisstj. skyldi finnast því þörf á því að kalla saman þing, eftir að hún hafði fengið jafnvíðtækar heimildir til að hefta dýrtíðina. Kom þá í ljós, að hún hafði engin önnur ráð en að hefta kaupgjaldið. Ég verð að segja; að mér þótti merkilegt að heyra, hvað fyrir mínum samstarfsmönnum vakti, þegar þeir komu til þings í haust. Mér virtist þá, að allir kæmu fram með kröfur um hækkun á framleiðslu og vinnuafli, hver fyrir sína stétt. Þeir, sem báru hag bænda fyrir brjósti, sögðu, að ekki fengist nógu hátt verð fyrir landbúnaðarvörur. Þeim, sem hugsa um iðnstéttirnar; finnst stórlega gengið á rétt þeirra og krefjast kauphækkunar. Þessi hópur manna átti svo að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar á Alþ. Þá kom í ljós, að margir úr þessum hópi álitu, að dýrtíðin stafaði af of háu kaupi, og ekki laust við, að ríkisstjórnin væri sömu skoðunar. Nú var greinilega blandað saman orsök og afleiðingum. Það lá í augum uppi, að dýrtíðin stafaði af verðhækkun lífsnauðsynja, en hækkun á kaupgjaldi var afleiðing af þeirri dýrtíð. Því þingi lauk án þess að gerð væri nein lækkun á kaupi. Þá voru nokkur félög hér, sem vildu fá kauphækkun, og það virtist ekki vera svo stórvægilegt, að ástæða væri til að stofna til stórfenglegrar og nýstárlegrar löggjafar, sem var áður óþekkt hér. En rétt eftir að Alþ. var búið að láta þann vilja sinn í ljós, að það vildi ekki grípa inn í þessi mál, réðst ríkisstjórnin í að gefa út brbl., sem bönnuðu allar grunnkaupshækkanir. Ég veit ekki, hve mikið var reynt til þess að fara samningaleiðina, en mér þykir ósennilegt, að þurft hefði að fá löggjafavaldið til að taka hér í taumana, þar sem um tiltölulega fámenn félög var að ræða.

Ég vil taka það fram, að þegar aðilar deila innan þjóðfélagsins, hefur þótt sjálfsagt að leysa deiluna með dómi óvilhallra manna, í staðinn fyrir að láta hnefaréttinn ráða og þann sterka kúga þann veika. Þegar þessi deila reis upp milli verkamanna og þeirra, sem fyrirtækjunum stjórna og reka, átti að útkljá deiluna á friðsamlegan hátt að dómi manna, sem allir aðilar gátu borið traust til, en mér virðist, að gerðardómnum sé ekki þannig fyrir komið. Í fyrsta lagi er ríkisstjórnin stærsti vinnuveitandinn hér á landi og hlýtur að vera mikið riðin við vinnudeilur. Þegar ríkisstj. á svo að skipa slíkan dóm, getur ekki hjá því farið, að hann hallist á hennar sveif. Ég hef því leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 73. Aðalkjarni hennar er sá, að reynt sé að tryggja það, að þessi gerðardómur sé óvilhallur, svo að fólkið viti, að hann dæmi á þann hátt, sem öllum aðilum er fyrir beztu. Það sé litið á málið eingöngu eftir réttlætistilfinningu og samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja, en alls ekki sem ofbeldisúrskurði annars málsaðilans eða neitt í þá átt.

Fyrsta atriði brtt. er það, að hæstarétti skuli falið að nefna alla mennina í þennan gerðardóm, og þá getur hann vissulega heitið gerðardómur. Það hefur víst oftast verð venja, þegar mál eru lögð í gerð, þá tilnefna málsaðilar sinn manninn hvor, eða sína tvo mennina hvor, ef dómurinn er fimm manna dómur, og síðan er eitthvert hlutlaust vald fengið, til þess að skipa oddamanninn. Þetta tryggir það að vísu, að málsaðilar eiga kost á að skýra sín mál hvor um sig í ýtrustu æsar áður en dómsúrskurður er felldur. En sá galli er á þessu, að í raun og veru er það alltaf einn maður; sem kveður upp dóminn. Tveir menn frá hvorum málsaðila halda til hins ýtrasta fram kröfum sinna umbjóðenda, og þar er oftast nokkuð langt á milli. Það lendir þá á oddamanninum að skera úr. Þetta er því í raun og veru sama og dómsorð eins manns.

En gerðardómur, sem væri byggður upp eins og ég hef lagt til í brtt. mínum á þskj. 73. yrði allur tilnefndur af óvilhöllum aðila, hæstarétti. Kunnugleiki á málinu á að vera alveg jafntryggður fyrir því, þó að í gerðardómnum séu ekki menn, sem tilnefndir eru af málsaðilum sjálfum, vegna þess að málin verða sjálfsagt sótt og varin af aðilunum fyrir dómnum. Alla þekkingu á málunum á þess vegna dómurinn að geta öðlazt, þannig að sjónarmið beggja aðila komi skýrt fram.

Ég get nú ekki séð, og hef ekki heldur heyrt eitt einasta orð til rökstuðnings því, að betra að, að ríkisstjórnin skipi þennan dóm heldur w að hann sé skipaður af slíku óhlutdrægu og hlutlausu valdi, sem er hæstiréttur. Og ég vil þess vegna treysta því, að þó að ríkisstjórninni hafi þótt það brotaminna að nefna þessa menn sjálf í dóminn, þá muni hæstv. Alþ. líta svo á, að hin aðferðin sér réttlátari og skynsamlegri. því að sennilega er sú skoðun ríkjandi meðal hv. þm., að það sé betra, að þeir, sem dómunum eiga að hlíta frá þessum gerðardómi, séu sannfærðir um, að allt sé gert til þess að dómurinn sé réttlátur, heldur en að sá, sem dóminn kveður upp, sé umboðsmaður annars aðilans. Þar af leiðandi vænti ég, að þessi till. mín finni náð fyrir augum hæstv. Alþ., þó að n. sú, sem um málið fjallaði, hafi ekki enn þá látið í ljós, að hún muni aðhyllast hana. Getur verið, að n. geri það hér eftir, því að það getur verið, að ég láti að ósk hv. frsm. n. um að taka brtt. aftur til 3. umr.

Annað höfuðatriði þessara brtt. er að taka út úr frv. ákvæðin um verðlag og kaupgjald. get ekki séð, að það sé rökrétt hugsun, að skipa málum í gerð, en banna svo gerðardómnum að úrskurða á annan veg en þann, sem fyrirfram er fyrirskipað: Ef dómur er hafður í máli, þá á. það auðvitað að fara óskorað undir dóminn. þar af leiðandi á ekkert að vera í þessari löggjöf, sem bannar hækkun kaups eða verðlags. Ég er algerlega sannfærður um, að þessi ákvæði geta ekki staðizt, og ég vil í því sambandi spyrja hv. allshn., hvort hún hafi leitað upplýsinga hjá gerðardómnum um það, hvernig þessi l. hafi reynzt í framkvæmdinni. Því að það er komin ekki svo lítil reynsla á þau. Og það væri viðkunnanlegast a.m.k. fyrir hv. allshn., áður en lon mælir með eða móti frv., að hafa kynnt sér það, hvernig þessi lagafyrirmæli hafa reynzt í framkvæmd, og a.m.k. hvort í þeim séu atriði, sem dóminum sýnist óframkvæmanleg, eins og mér þykir mjög líklegt, að verði reynslan.

Þá er hér í þessum brtt. gert ráð fyrir því, að þegar kröfur um hækkun eða breyt. á kaupgjaldi eða kaupkjörum er að ræða, þá komi það undir gerðardóminn því aðeins, að ágreiningur sé um málið. Því að vinnuveitendur og vinnuþiggjendur geta orðið sammála um kauphækkun, sem ríkið mundi þó líta svo á, að yrði þess valdandi, að verðlag hækkaði eitthvað. En þetta er svo sjaldgæft og í svo smáum stíl, að ég sé ekki ástæðu til, að löggjafinn fari að gera sérstaklega ráð fyrir slíku. Hitt er venjan, að ágreiningur sé í slíkum tilfellum, ef menn vilja fá hækkað kaup sitt. Og eftir minni brtt. eiga breyt. á kaupgjaldi því aðeins að koma til úrskurðar gerðardóms, að ágreiningur sé um. Hins vegar tel ég sjálfsagt að binda sig við það, að þessi dómstóll fari ekki að ákveða kaup, nema ágreiningur sé um það milli þeirra, sem eiga að taka það, og þeirra, sem eiga að gjalda það.

Af þessum brtt., sem ég hef getið um, leiðir, að út úr l. eigi að taka bannið við kauphækkun og verðhækkun, en leggja þau atriði undir úrskurð gerðardómsins. Einnig, að það verði að semja skrá um þær vörutegundir, sem þykja hafa þá þýðingu fyrir dýrtíðina í landinu, að verulegu máli skipti. og að ríkisstjórnin geti skotið því undir þennan gerðardóm, hvaða verð skuli á þessum vörum vera.

Hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir því, að ég hef skipt þessu niður þannig, að sumt af ákvæð

um brtt. eru ákvæði aðeins um stundarsakir. Og hv. frsm. allshn. spurðist fyrir um það, hvaða þýðingu þetta hefði. Ég held, að það sé bersýnilegt, að það, sem meint er með þessu, er það, að fyrri hluti I. eigi eftir minni brtt. að vera eins og hver önnur venjuleg l., sem standa þangað til hæstv. Alþ. þóknast að breyta þeim, en hitt, sem eru ákvæði um stundarsakir og eingöngu bundin við stríðið, eigi einungis að standa meðan stríðið stendur og ekki lengur. hað er ekki ástæða til að ætla, að það þurfi að grípa svona harkalega inn í með verðlag á vörum, nema meðan verðlag er óeðlilegt og vöruskortur er í landinu o.s.frv. Þar af leiðandi eiga þessi ákvæði í síðari hluta brtt. minnar heima í bráðabirgðal. Hitt, fyrri hlutinn, er fyrirkomulag, sem löggjafinn á hverjum tíma á að skipa fyrir um, og á að hlíta sömu reglum og önnur l. þangað til löggjafanum þykir ástæða til að breyta því.

Í raun og veru felst ekki annað í þessum brtt., þótt þær séu í mörgum liðum, heldur en þetta tvennt, að gerðardómurinn sé skipaður allur af hæstarétti, og í öðru lagi, að ekkert bann skuli vera í l. við hækkun kaups og verðlags. Svo er hitt meira formsbreyt., hvað ætlazt er til, að sé venjuleg löggjöf og hvað ákvæði um stundarsakir.

Nú þykist ég vita, að þeir, sem eru á móti því, að nokkur l. séu sett um þetta efni, muni vera á móti þessum brtt., þ.e.a.s. móti öllu öðru en því, að löggjöfin um gerðardóminn verði afnumin. En hitt hefði ég haldið, að menn, sem vildi stuðla að því, að löggjöf um kaupgjaldsmál og verðlagsmál verði sem vægust og siðsamlegust á allan hátt, verði heldur með samþykkt þessara till., sem ég ber hér fram, heldur e n samþ. frv. í því formi — sem það er.

Það mætti náttúrlega fara um það mörgum orðum, hvort þessi löggjöf er líkleg til þess að má tilgangi sínum. Það er alveg víst, að ef sá háttur verður hafður á um verðlag, sem hingað til hefur verið, að það er eingöngu miðað við álagningu í prósentum, þá verður sífellt ólag á verðlaginu. Ég gat um það í fyrri hluta ræðu minnar fyrir nokkrum dögum, að menn hefðu gert ýmislegt til þess af ásettu ráði, að vörur yrðu sem dýrastar í innkaupi. Þetta sýnir, þó að um einstök dæmi sé að ræða, að með því að ákveða álagninguna aðeins eftir prósent-tölu miðað við innkaupsverð, þá er þar með sköpuð hvöt hjá seljendum til að gera sem óhagstæðust kaup á vörum fyrir almenning. Og slíkt er hægt að gera, þegar vöruskortur er í landinu og svo að segja allt er seljanlegt.

Um kaupgjaldið er alveg óhætt að segja það, að alveg eins og eftirspurnin eftir vörum skapar að mjög verulegu leyti verðið, hvað ítrekaðar tilraunir, sem gerðar eru til þess að halda vöruverðinu niðri, eins skapar eftirspurnin eftir vinnuaflinu að langmestu leyti kauptaxtana. Nú er ég ekki í neinum vafa um það, að þrátt fyrir þessi ákvæði, sem gerðardómurinn hefur upp kveðið, — og fer því fjarri, að ég áliti hann þýðingarlausan, ef hann er rétt byggður — þá hafi úrskurðir hans ekki komizt fullkomlega í framkvæmd. Því að ef þörfin knýr á, þá finna menn margar leiðir utan við l. Ég veit þess mörg dæmi, að menn vinna fyrir miklu hærra kaup heldur en taxta eftir úrskurðum gerðardómsins, sem stafar af því, að mönnum liggur mikið á að fá fólk, og finna þá einhverjar leiðir utan við kaupgjaldsákvæðin. Í mörgum tilfellum geta menn alls ekki hlýtt þessum ákvæðum. Ég veit, að menn, sem hafa gamla starfrækslu með fólki, sem hefur verið hjá þeim lengi, eiga á hættu að missa fólkið, ef þeir hækka ekki kaupið. Slíkum mönnum dettur ekki í hug að láta kaupa frá sér ágæta starfsmenn vegna þess að lagður hefur verið sami blindi mælikvarðinn á allt kaupinu viðkomandi, heldur hækka kaupið. En því fer þó fjarri, að ég sé á móti því, að slíkt gerðardómsfyrirkomulag geti haft nokkur áhrif í því að skapa skynsamlegt verðlag og kaupgjald. En það verður þó því aðeins, að þeir, sem eiga að beygja sig undir þetta, séu sjálfir sannfærðir um, að það sé réttlátt, sem gert er, dómstóllinn sé þannig byggður, að hann gæti réttar beggja aðila jafnt, og einnig, að löggjafinn ekki jafnframt skipi fyrir um þá hluti, sem ekki verða heftir með beinum l., heldur verða að hlíta lögmálum lífsins.

Ég skal gjarnan verða við þeim tilmælum, sem mér skildust koma fram hjá hv. frsm., að brtt. þessar yrðu teknar aftur til 3. umr., og geri ég það hér með, en vænti þess þá, að hv. allshn. taki þær til athugunar og eigi þá tal við mig um efni þeirra og fallist á þær, ef hún eftir athugun álítur, að þær bæti fyrirkomulag laganna.