10.03.1942
Neðri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (299)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Út af ummælum hv. þm: V.-Húnv. um muninn á frv., sem fyrir liggur, og því, sem afgreitt var til Ed. á þ. 1939, vil ég taka það fram, að í upphafi var gert ráð fyrir skyldutryggingum. D. afgreiddi frv., eins og hv. þm. V.- Húnv. skýrði frá. Ég tók það fyrirkomulag aftur upp í frv. 1940, að tryggingarnar skyldu vera frjálsar; til þess að framgangur málsins skyldi ekki stranda á því, sem ég taldi ekki neitt höfuðatriði. En síðan hef ég hugsað þetta mál og ráðgazt um það við marga greinargóða og athugula menn meðal útgerðarmanna og sjómanna. Að athuguðu máli hygg ég, að þó að frjálsræðið sé mjög æskilegt, ef treysta má þegnskap manna jafnt, felst í því hætta. Ég vil skýra frá þeirri hættu, sem ég álít mesta.

Við vitum, að menn eru frekir til fjárins, og ef menn væru frjálsir að því að taka hlut sinn óskertan í góðæri, yrði fjöldi manns til þess að vanrækja að tryggja hlut sinn, en tryggingin á að koma til góða þeim, sem síðar taka við og vinna að útgerðinni. Svo gæti farið, að margir bátar hefðu ekki tryggt hluti fyrir sína menn, þannig að það yrði verulegur hluti sjómanna, sem ekki nyti uppbótar í erfiðum árum, af því að fyrri eigendur hefðu gleypt allan gróða góðáranna í sinn sjóð. Það er því öruggast að gera mönnum þetta að skyldu.

Að sjálfsögðu verður það gert, eins og hv. þm. V.- Húnv. fór fram á, að taka þetta atriði til alveg sérstakrar athugunar. Hitt atriðið, að sjóðurinn skuli vera sérsjóður hvers byggðarlags eða verstöðvar eða hrepps, hefur líka verið athugað vel, bæði af mér og ýmsum mönnum, sem ég hef rætt. þetta mál við. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir, að þau hreppsfélög eða byggðarlög, sem það vilja, geti haldið sínum sjóðum alveg sérstökum, ákveðið hundraðsgjaldið annað en það almenna, aflað sínum sérsjóðum annarra tekna, en að sjóðirnir hlíti þó allir sameiginlegri stjórn. Um þetta síðastnefnda ætla ég, að flestir, sem ég hef rætt við, telji öruggast, að allir sjóðirnir séu undir einni stjórn og að allt féð sé geymt og innheimt af sömu mönnum. Ég hef talið, að þetta kæmi nokkuð í sama stað niður fyrir hin einstöku byggðarlög, en hins vegar sé nokkur hætta á, ef sveitarfélög eiga að geyma sjóðina, að til þeirra sé gripið til lána til þarflegra fyrirtækja eða miður þarflegra, og verði þá féð bundið eða tapað, þegar til þess þarf að taka, ef óforsjálir menn fara með. En vitanlega þarf fé, sem ætlað er slíkt hlutverk, alltaf að vera tiltækt, og er því tiltekið í frv., að það skuli geymt í banka. Vitanlega geta sjóðirnir tapað nokkrum vöxtum á þessu. En þetta er það eina, sem tryggir, að féð ekki tapist og sé tiltækt, þegar þarf. En aflaleysi og önnur vandræði gera ekki boð á undan sér.

Þetta atriði mun að sjálfsögðu verða rætt og rannsakað í nefndinni. Einnig það, sem hv. þm. V.-Húnv. minntist á.