24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (308)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Ísleifur Högnason:

Ég get lýst yfir því, að ég er samþykkur þeirri dagskrártill., sem fram kom frá minni hl. n. þeirrar, sem um málið fjallaði. Þegar málið var áður afgr. hér í Nd., var ákveðið, að sjómenn og útgerðarmenn skyldu sjálfráðir, hvort þeir stofnuðu þessa sjóði eða ekki. Maður gat greitt frv. atkvæði úr þinginu með þessu; en með því að lögþvinga þetta, get ég ekki verið því samþykkur. Sjómenn úti um land hafa enn ekki fengið að láta uppi álit sitt um þetta, og ég veit, að fáir þeirra treysta opinberum skrifstofum svo vel, að þeir vilji láta til þeirra eina einustu krónu af launum sínum. Þetta hefur ekki verið borið upp í neinu sjómannafélagi, og undirbúningur þess vegna algerlega ófullnægjandi. Auk þess ber frv. með sér, að ríkissjóði er ætlað að tryggja allar greiðslur til sjóðsins, og er það mikill sparnaður fyrir útgerðarmenn, ef ríkissjóður ætlar að bera allar tryggingarnar á móti þeim. En það er mitt álit, að útgerðarmenn eigi sjálfir að tryggja sjómönnum lífvænlega afkomu: Það er líka óneitanlega undarlegt. að flutningsmenn skyldu ekki vilja halda því ákvæði, sem var í frv. í fyrra, að sjómönnum sé í sjálfsvald sett, hvort þeir vilji stofna tryggingarfélög eða ekki. Það ber með sér grun um, að það mundi ekki fá góðar viðtökur, ef það kæmi til þeirra, sem eiga að hafa með það að gera. Ég mun því greiða atkvæði með dagskrártill. minni hl.