24.04.1942
Neðri deild: 41. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (309)

30. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Frsm. minni hl. (Jón Ívarsson):

Frsm. meiri hl. taldi, að ég færi með órökstutt skraf um þetta mál viðvíkjandi undirbúningsleysi þess. Ég get ekki fallizt á annað en að staðreyndir þær, sem ég benti á, séu fullgildar, og þarf ekki við þær að bæta, þótt miklu sé af að taka um það, hve frv. er illa undirbúið. Þetta frv. hefur þurft svona langan tíma í þinginu vegna þess, hve illa það er undirbúið af þeim, sem báru það fram. Þeir hafa ekki, þegar þeir fluttu það, verið búnir að gera sér grein fyrir því, hvað þeir eru að biðja um, og virðast enn ekki hafa gert það. Ef málið hefði verið undirbúið, eins og æskilegt hefði verið og þurfti, væri löggjöf um það komin, og geta þeir sjálfum sér um kennt. Frsm. er dálítið reikull í þessu, þegar hann fyrsta árið vill láta þetta vera skyldu og svo næsta ár frjálst og þriðja árið skyldu. Hann segir, að félagsskapur útgerðarmanna mæli með þessu. Ég hef séð það, en sá félagsskapur hefur ekki gengið frá neinu formi fyrir því, og þar af leiðandi er enn ekki vitað um, hvernig t.d. fiskifélagsþingið vill haga því, en það vill mæla með því, að sett verði einhver tryggingaákvæði um aflahluti, og geta margir tekið undir það. En æskilegra hefði verið, að fiskifélagsþingið hefði gengið frá formi eða ákveðnum tillögum um það.

Frsm. meiri hl. spurði að því, hvað sagt mundi hafa verið um það, ef landbúnaðarmál hefðu þurft að eiga eins langa göngu gegnum þingið og þetta mál. Ég þarf ekki að svara því, vegna þess að ég er alveg viss um, að ekkert frv. um landbúnaðarmál hefði verið borið fram. fyrir þingið svona illa undirbúið. Ég er viss um, að svo hefði verið frá því gengið, að hægt hefði verið að afgreiða það sem l. á fyrsta þingi, sem fengið hefði það til meðferðar. Það er ekki neitt nýtt um þetta frv., að það sé illa undirbúið. Það var flutt bæði á þinginu 1939 og 1940, og þá ekki miklu betur undirbúið en nú. Sjútvn. reyndi að fá álit frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, en sú stofnun virtist ekki lita stærra á þetta mál en svo, að hún svaraði ekki bréfi, sem sjútvn. skrifaði henni um þetta mál. Þessi stofnun virðist álíta þetta mál svo lítilsvert, að ekki þurfi að svara bréfi sjútvn. um það.

Ég get tekið undir það með hv. 4. landsk., er hann segir, að nauðsynlegt sé að leita álits sjómannanna sjálfra um þetta mál. Ég tel sjálfsagt, að það verði gert, því að það eru þeir, sem eiga að borga í sjóðinn að jöfnu við ríkissjóðinn, og ég tel einnig sjálfsagt, að það að leita álits þeirra verði einn liðurinn í undirbúningi málsins, jafnframt því sem leitað er til annarra aðila.

Ég vil svo að lokum mæla með og leggja áherzlu á, að rökst. dagskráin frá okkur hv. þm. N.-Þ. verði samþykkt.