09.03.1942
Efri deild: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (327)

26. mál, Háskóli Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég hefði viljað svara hæstv. forsrh. nokkru, en það er dálítið leiðinlegra, að hann er ekki við. En ég verð að játa, að hv. flm. frv. á ég bágt með að svara, af því að hann kemur ekki nálægt því, sem ég ræddi.

Ég skal segja honum til huggunar, að ég hef ekki breytt einum staf í mínum ræðum um nokkur ár, svo að það kemur til kasta skrifaranna að skila því, sem ég sagði. Og ég ber a.m.k. meira traust til skrifaranna en hans. Hann sagði t.d., að ég hefði haldið því fram, að það væri miklu betri maður, sem væri alla ævi að slæpast í gegnum skóla, heldur en sá, sem hefði tekið próf. g ætla að vonast til, að það hafi ekki komið fram í minni ræðu. En hver einasti maður sér, að það er meginatriði að geta fylgzt með námsferli nemendanna. Þess vegna er, að þeir, sem eru utanskólamenn, eru teknir upp og prófaðir á miklu fleiri stöðum. Þetta er afar eðlilegt. Kennararnir eru þar að bæta úr því, að hafa ekki getað fylgzt með náminu. Ég býst við, að allir hv. þm. skilji, að það er nokkuð annað með mann, sem fyrst tekur inntökupróf og síðan bekkjarpróf í námsefninu hvern vetur. Það hlýtur að vera meiri vitneskja, sem fæst um slíkan mann, en þann, sem kemur einhvers staðar utan úr buskanum. Hins vegar hafa ýmsir afbragðsmenn tekið stúdentspróf utanskóla. En ég get sagt hv. þm. það, að ég þekki nemendur guðfræðideildar svo, að ég er sannfærður um, að ég get gefið þeim sanngjarnari einkunnir heldur en þeir oft fá við próf.

Þá beindi hv. þm. ógurlegum ásökunum að mér fyrir það, að viða á landinu væru óveitt læknishéruð. Ég veit ekki, hvað ég get gert við þessu. Ég veit ekki, hvort hv. þm. ætlar að innblása sínum anda svo í þetta frv., að það breyti öllu í þessu efni. En ég býst við, að hugsunarhætti manna verði erfitt að breyta með l. Ef til vill væri þó hægt að fara aðrar leiðir, t.d. með því að bæta kjör þessara lækna, því að oft er það svo, að þeir fá betri kjör hér. heldur en í erfiðum læknishéruðum. Og svo er annað, að þar fá læknar ekki alltaf þá æfingu, sem þeir þurfa til þess að geta haldið sinni fræðigrein við. Þeir forpokast. Og það er einmitt það, sem læknar finna hvað mest til. Annars er þetta óviðkomandi frv., svo að ég skil ekki þessa ádrepu hv. þm.

Hv. þm. talaði um, að til væru miklu fleiri trúhneigðir kennarar heldur en prestar. Mér hætti vænt um, ef hann gæti lagt fram einhverjar tölur um þetta. Það er þá leyndardómur, sem aðrir, hafa ekki fundið. En ég get sagt honum það, að kennarar, sem hefur langað til að verða prestar, hafa gert það, sem hann ætlar að opna leiðina fyrir. Að loknu námi hafa þeir komið í guðfræðideild og lokið þar prófi. Og það má hv. þm. vita, að hann léttir ekkert undir með þessum mönnum með þessu frv.

Mig langar til að svara hæstv. forsrh. ofurlitlu. Hann sagði, að fyrir lægju grunsemdir um, að kennslan í háskólanum væri ekki vel rækt, og tók þar sérstaklega læknadeild til. En mér fannst hann gefa okkur í guðfræðideild dálítinn selbita. Hann talaði um, að það þyrfti að breyta stórkostlega til um menntun presta, ef vel ætti að fara, og hún væri ófullkomnar í en áður. Prestarnir væru komnir svo út úr sveitalífinu, að þeir vildu ekki búa, þegar þeir kæmu í sveit. Hann getur ómögulega búizt við því, að við förum að kenna kvikfjárrækt og landbúnað í guðfræðideild háskólans. Og um menntunina í guðfræðideildinni vil ég segja það, að það er meiri og betri fræðsla, sem. menn fá þar núna, heldur en t.d., þegar ég var í prestaskóla, og voru þar þó ágætustu kennarar. En það, sem þessu veldur, er, að fyrirkomulagið á kennslunni er í senn hagnýtara og vísindalegra en áður var. Og það hemur m.a. til af því, að nú höfum við betra húsnæði. Það er t.d. ekki svo lítils virði að hafa kapellu, en með því er hægt að gera námið „praktískara“ en ella. Þannig er það t.d. ekki fyrsta skiptið á sinni ævi, sem þeir þjóna fyrir altari, þegar þeir eiga að taka við embætti. Og ég get talið upp margt, sem rennir stoðum undir það, að kennslan er núna bæði hagnýtari og vísindalegri en áður. Það er því alveg út í bláinn, þegar því er slegið fram, að menntun presta sé lakari nú en áður. Ég ætla ekki að rekja það hér, af hverju margir prestar forðast búskapinn. En það er alger misskilningur hjá hæstv. forsrh., ef hann heldur, að þetta hafi ekki verið alveg eins áður. Ég veit ekki, hvað hélt þeim fastara við sveitirnar þá en nú. En ég skal nefna dæmi, sem nú gæti valdið nokkru, en það er, að nú eru prestaköllin yfirleitt miklu stærri, og það verður til þess, að prestar geta ekki gefið sig eins mikið að búskap. Hið slæma árferði og hinir stórkostlegu örðugleikar, sem landbúnaðurinn átti við að búa, hröktu líka marga unga presta frá búskap. En ég held, að við leggjum allmikla áherzlu á, að þeir verði betri prestar, ef þeir leggi sig fram við búskapinn og lifi við sem svipuðust kjör og sóknarbörnin. Og það þarf ekki að blása nýjum anda inn í guðfræðideildina að því leyti. Mér dettur ekki í hug að halda hér neina varnarræðu fyrir mig eða samkennara mína, en ég vil bara segja það, að við rækjum þetta starf eins vel og við frekast höfum möguleika til. Og ég fullyrði það, að kandídatar, sem við höfum sent til útlanda, hafa fengið orð fyrir að vera mjög vel að sér. Ég veit, að þannig er það með þá, sem fara á prestaskólann í Kaupmannahöfn. Sömu sögu er að segja frá enskum háskólum. Og jafnvel í Þýzkalandi, þessu vísindalandi í guðfræði, er sízt meira kennt. Almennt talað tek ég því ekki við nokkrum ákúrum til guðfræðideildar um það, að prestar séu verr menntaðir en áður. Enda veit ég ekki, hvort það var meiningin hjá hæstv. forsrh., þó hann slægi þessu fram. Kannske honum finnist þeir ekki hafa rétta skoðun.

Hæstv. forsrh. sagði, að ekki væri búið að finna það fyrirkomulag á háskólanum, sem svaraði þeim kröfum, er þjóðin gerir til hans. Það má alltaf slá þessu fram. En hvaða kröfur gerir bara þjóðin til hans? Eftir hverju eigum við að sníða hann? Þegar háskólinn var stofnaður, þá var hann miðaður við að geta fullnægt embættaþörf í landinu og ekkert annað. Og ég verð að segja öllum hv. þdm. það, að mér finnst þetta, út af fyrir sig, alls ekki lítil krafa. Mér finnst, að sumir telji ekkert á það lítandi, þó að þessi stofnun eigi að mennta alla embættismenn þjóðarinnar, hvern með sinni sérmenntun, og undirbúa þá undir margvísleg og vandasöm störf. Annars skulum við bara sjá, hvaða kröfur þjóðin gerir, og ég býst við, að ekki muni standa á háskólanum að fullnægja þeim.

Hæstv. forsrh. minntist t.d. á undirbúningsfræðslu. Það er hugmynd, sem mér þykir afar vænleg. Það er eitt af því, sem ég tel allra nauðsynlegast við háskólann, að hann, geti veitt stúdentum svona tveggja ára fræðslu í mörgum vísindagreinum, svo að þeir geti síðan farið til útlanda og haldið áfram. Stríðið tók nú fyrir þetta, því að það þarf að ger a samninga um það við erlenda háskóla, að þeir taki við þessum mönnum, svo að þeir geti haldið áfram. Ég held, að einmitt þetta sé afar mikilvægt verkefni fyrir háskólann, ekki sízt til þess að fá nokkra reynslu um menn, áður en þeir eru sendir út og styrktir til framhaldsnáms. Og mér þykir vænt um, að hæstv. forsrh. talaði um, að veita þyrfti þessu nána athygli. Það er sjálfsagt að láta fara fram rannsókn á þessu. Það er vissulega betra heldur en alltaf að vera að nöldra um, að þessi stofnun svari ekki kröfum tímans og þess konar. lað er alveg vita gagnslaust. Þetta er sagt um allt um hverja ríkisstofnun, um ríkisstj. og hverja bæjarstj., um kirkjuna og heilbrigðismál. Það getur hver nöldrari staðið upp og sagt, að háskólinn svari ekki þeim kröfum, sem gerðar eru til hans. En það er ekki nóg. Það þarf að gera sér ljóst, hverjar þær eru og hvernig eigi að bæta úr.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á stúdentsprófin. Hann sýndi réttilega fram á, að nú væri hægt að taka þessi próf á 2 stöðum á landinu. Og eftir því, sem hann segir, er vandað mjög til þeirra. Þá var hann líka sammála mér um það, að það þyrfti að prófa menn betur, sem kæmu einhvers staðar að. En ég vil nú spyrja, úr því að hægt er nú frá 2 stöðum á landinu að komast inn í háskólann með prófi: Hvað á þá að gera með 3. prófið upp í háskólann? Það er upplýst, að hver maður getur komizt inn í háskóladeild með prófi frá 2 stöðum á landinu, en svo kemur hv. þm. N.- M. og talar um það af fjálgleik, að innleitt sé 3. prófið. Og mér skildist, að hann mæltist til, að þeir, sem ættu að kenna þeim, réðu, hvernig prófað væri. Þvílík dæmalaus della. Það eru einmitt menntaskólakennararnir, þeir sem veittu fræðsluna undir þetta próf, sem eiga að ráða því. Þeir fylgjast miklu betur með því en háskólakennararnir, og það yrði auðvitað farið til þeirra og þeir beðnir að prófa.

Hv. þm. talaði um, að þess væri dæmi, að maður með kennaramenntun hefði orðið prestur. Þetta er alveg rétt. Við gætum úr þeirri stétt fengið ágæta presta. En afleiðingin af því yrði bara sú, að við heimtuðum ekki lengur þessa menntun. Kannske það væri betra, að við fengjum leikmannakirkjur? Það er svo sem margt gott við þær. En hingað til hefur það samt verið svo, að þjóðfélagið hefur talið það mikla nauðsyn og lagt áherzlu á það að vanda sem mest almenna undirbúningsmenntun sinna presta. Enda eru það þeir menn, sem koma með einhverja kjölfestu út í lífið og fara ekki út í þær öfgar, sem oft þykja fylgja trúarhita og krafti leikmannastarfseminnar. Og þess vegna segi ég, að hér er alveg um stefnubreyt. að ræða, ef þetta er meiningin hjá hv. þm. Mér skilst þetta eigi að vera fullgilt stúdentspróf og fáist svo að taka það á 3 stöðum. Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta, sérstaklega af því að hæstv. forsrh. er ekki við, en tækifæri verða sjálfsagt síðar, ef ýtarlegar till. koma fram. En ég verð að vera honum sammála um, að það liggur ekki á afgreiðslu þessa frv., úr því að komið er upp úr kafina, að það, sem er aðalmarkmið frv., stendur opið þeim, sem vilja, þ.e. að komast inn í háskólann án þess að hafa þennan langa skólaferil að baki sér. Því að ég býst ekki við, að þm. geti álitið, að það taki því fyrir þingið að samþ. till. um það, hvort eigi að telja hagfræðideildina sérstaka deild við háskólann, sérstaklega eftir að þingið hefur samþ., að ein deild annist lögfræði og hagfræði fyrst um sinn.