23.02.1942
Neðri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (336)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Einar Olgeirsson:

Hæstv. fjmrh. sagði í framsöguræðu sinni, að stj. hefði álitið, að ekki væri stjórnarfarslegur grundvöllur fyrir hendi til þess, að bæjarstjórnarkosningar gætu farið fram. Hann vill gefa í skyn, að tillit til lýðræðis og réttar kjósendanna til að gefa út blöð og halda fundi hafi valdið frestuninni. Og helztu lögfræðingar íhaldsins eru sendir út á ritvöllinn, eftir að blöðin eru byrjuð að koma út með fullum krafti, til þess að sýna eftir á fram á það sama. Nú vitum við hins vegar af reynslunni, að ríkisstj. hefur ekki verið sérstaklega mikið að hugsa um það, þó að þessum skilyrðum til fundarhalda og útgáfu blaða og annars sé ekki fullnægt. Það hefur verið svo í Reykjavík langalengi, að ómögulegt er að fá virkilega stór hús til að halda í fundi fyrir kosningar. Tvö stærstu húsin í bænum, bíóin, eru eign íhaldsmanna og fást ekki, a.m.k. fyrir aðra en Sjálfstfl. Hef ég ekki orðið var við neinar ráðstafanir til þess, að fólkið í landinu hafi það fundafrelsi, sem stjórnarskráin heimilar. Það hefur líka sýnt sig í blaðaútgáfu, að ríkisstj. hefur svo langt frá því reynt að stuðla að því, að menn almennt hefðu prentfrelsi og möguleika til að gefa út blöð, heldur hefur hún reynt sérstaklega að leggja fjárhagslegar hömlur á þá flokka, sem eru henni andstæðir, svo að þeir hefðu ekki sama rétt til að gefa út blöð og yfirleitt fjárhagslega möguleika og stjórnarflokkarnir, t.d. með opinberum auglýsingum, sem ekki eru birtar í blaði andstæðinga. Þetta er tilraun til að leggja fjárhagslega hindrun fyrir útkomu blaðs.

— Það er ekki heldur kvartað yfir því við kosningar, að blöðin séu mismunandi stór og fjárhagurinn á bak við mismunandi sterkur. Þvert á móti virðist hæstv. ríkisstj. þurfa að sjá um, að blaðakostur Sjálfstfl. við bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík sé margfalt meiri en nokkurs annars, til þess að sá flokkur geti notað fjármagn sitt og það misrétti, sem hann beitir, til fullnustu í baráttu sinni við verkalýðinn.

Þessi ástæða um blaðaleysi, sem var fundin upp í sambandi við bæjarstjórnarkosningarnar, var samt ekki notuð gagnvart öðrum kosningum allveigamiklum, sem fóru fram nýlega. Þá lögðust íhaldsblöðin svo lágt að eyða miklu meira rúmi til undirróðurs fyrir lista sinn í Dagsbrún heldur en hægt var að nota til áróðurs á móti íhaldinu. Dag eftir dag komu íhaldsblöðin full af áróðri fyrir lista sínum í Dagsbrúnarkosningunum. Þess vegna er alveg út í hött. þegar í forsendum brbl. er verið að halda því fram, að vegna lýðræðis og jafnréttis hafi bæja:stjórnarkosningunum verið frestað. Það var önnur ástæða, — sú, að Sjálfstfl., sem er annar stuðningsflokkur stj., hafði misst fylgi. Það eru ekki aðeins við hv. þm. Seyðf., sem höldum þessu fram. Ég get upplýst., að sömu skoðunar eru hæstv. viðskmrh. og formaður Framsfl. Ég get um leið upplýst, á hvern hátt þessir tveir flokkar hafa komið sér saman og hvað Sjálfstfl. hefur látið koma á móti. Það er í plaggi, sem stj. Framsfl. hefur sent út til trúnaðarmanna sinna um land allt og undirskrifað er af hæstv. viðskmrh., og ætla ég þess vegna, að marka megi það, sem í plagginu stendur. Að vísu er það líka undirskrifað af hv.- þm. S.-Þ., formanni flokksins, en það nafn væri kannske ekki eins mikið að marka út af fyrir sig. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr þessu bréfi, sem er um dýrtíðarsjóð og skattalög. Hann hljóðar svo:

„Lagði Sjálfstfl. svo mikla áherzlu á kosningafrestunina, að hann ætlaði að láta sína ráðherra fara úr stj., ef ekki yrði á fallizt. Framsóknarmenn viðurkenndu, að þessi krafa Sjálfstfl. byggðist á nokkrum rétti. Urðu miklar viðræður milli flokkanna um þessi mál, og lauk þeim þann veg, að kosningafrestur var ákveðinn í Reykjavík einni, en Sjálfstfl. skuldbatt sig til að tryggja lausn skattamálanna á þessu þingi í aðalatriðum í samræmi við tillögur Framsókuarfl. á haustþinginu og að samþykkja, að lagt yrði fram hæfilegt fé úr dýrtíðarsjóði til þess að halda dýrtíðinni niðri. Enn fremur náðist samkomulag milli. núverandi stjórnarflokka að gera, eftir því sem frekast væri unnt, ráðstafanir til þess að hindra, að framkvæmdir setuliðsins gerðu atvinnuvegunum erfitt fyrir með starfsfólk til nauðsynlegrar vinnu:

Svona hljóðar þessi kafli bréfsins, þar sem formaður Framsfl. og hæstv. viðskmrh. túlka fyrir trúnaðarmönnum sínum það, sem gerzt hefur. Ástæðan til frestunarinnar er ekki hin lýðræðislega nauðsyn, heldur hitt, að Sjálfstfl. setur hnefann í borðið. Enn fremur, að niðurstaðan hjá þessum vörðum laga og réttar í landinu fæst ekki með sannfæringu um það, að frestunina verði að hafa út frá sjónarmiði lýðræðis og réttlætis í landinu, heldur eftir að „miklar viðræður“ urðu um málið og lengi hafði verið setið á samningafundum til þess að veita Framsfl. atkvæðamagn á þingi til að koma fram málum, sem Sjálfstfl. fram að þessu hefur verið á móti. Það, sem því í brbl. og ræðu hæstv. fjmrh. er talið grundvallað á lýðræði og jafnrétti, það viðurkenna hinir, að sé árangur af löngum og erfiðum hrossakaupum, þar sem hvor um sig hefur orðið að slá af á ýmsan hátt og veita hinum fríðindi. Þetta viðurkenna nú aðalmenn stjórnarflokkanna sjálfir, þegar þeir tala innbyrðis við trúnaðarmenn sína um, hvernig þeir hafi nú teflt taflið. Stj. Framsfl. dettur ekki í hug að segja: „Vegna lýðræðis og réttlætis ákváðum við að fresta bæjarstjórnarkosningum. Nei. við keyptum Sjálfstfl., sem var að missa fylgi, og við höfum fengið mjög svo mikið í staðinn: Og svo koma menn á Alþingi Íslendinga fram og segja, eins og hæstv. fjmrh.: „Stj. áleit, að sá stjórnarfarslegi grundvöllur væri ekki fyrir hendi til þess að láta bæjarstjórnarkosningar fara fram: En það er vanalegt, að þar, sem grundvöllurinn er mjög rotinn, þar sprettur gerræðið upp af, og svo er hér. Annars væri nógu gaman að vita, hvað margir þeir voru úr miðstjórn Framsfl., sem voru með því að fresta, þegar Sjálfstfl. fyrst bað um frest. Mér er nær að halda, að það hafi verið fellt í miðstj. flokksins, og þegar það kannske að lokum var samþ., hafi þess verið vandlega gætt að kveðja ekki aðra á fund en þá, sem voru með því. Það væri gott fyrir þá, sem hér eru, til varnaðar, að fá það upplýst, hvernig þessir samningar, sem gerðir hafa verið, gengu fyrir sig. Mér finnst þingheimur eiga kröfu á að fá að vita satt og rétt um ástæðurnar fyrir því, að gefin eru út brbl. um að fresta kosningunum. Og það er ekki nema eðlilegt, að bæði þm. Framsfl. og Sjálfstfl. létu í ljós, hvaða þátt þeir áttu í þessu. Mér þætti sérstaklega gaman að heyra, hvort það er alveg rétt, að þm. Sjálfstfl, hafi allir þegar samþ. að greiða atkv. frv. framsóknarmanna eða að bera þau fram sameiginlega, sem fjalla um skattamál svipað og á haustþinginu. Við sæjum á því, að milljónamæringarnir væru til með að borga eitthvað til þess að fresta kosningunum. Af hverju? Bæjarstjórnarmeirihlutinn er peninga virði, og á peninganna mælikvarða er allt metið hjá þeim. Gaman væri líka að vita, hvort stj. Framsfl. vildi skýra frá því, hvort þeir hafi samþ. þessar aðfarir eða hvort það kæmi máske upp úr dúrnum, að ríkisstj. sjálf mundi fara sínu fram, rétt eins og henni þóknaðist, og án þess að spyrja þingflokkana, sem styðja hana, nema fáa menn, sem öruggt er, að fylgi ríkisstj. spakast. Ef menn vilja pera umhyggju fyrir því, að virðingu þingsins sé ekki misboðið og það sjáist, að það sé nokkurn veginn vilji þingsins, sem fram kemur, þá væri mjög ánægjulegt, að sem flestir þingmenn vildu láta skoðun sína í ljós, — sína eigin skoðun, en ekki bara skoðun stj. Ég hef þegar upplýst, hver er skoðun hæstv., viðskmrh. á þessu máli. Einnig að nokkru leyti það, sem formaður Framsfl. hefur skrifað til sinna flokksmanna um málið. En ég býst við, að ýmsir innan Sjálfstfl. og Framsfl. og innan veggja hér, séu á eitthvað annarri skoðun.

En viðvíkjandi því, sem rætt var um prentaraverkfallið í sambandi við kosningafrestunina, vildi ég segja það, að það er vitað mál, að prentsmiðjueigendur og prentarar hefðu samið, að öllum líkindum um miðjan janúar, svo framarlega sem þeir samningar hefðu verið látnir afskiptalausir af ríkisstj. Þetta var í rauninni staðfest af hæstv. atvmrh. í útvarpsræðu þeirri, sem hann hélt í sambandi við gerðardómsl., þar sem hann segir beinlínis, að atvinnurekendur og verkamenn ættu hægt með að koma sér saman um þessi mál. Atvinnurekendur gætu gengið inn á að hækka kaupið, þeir hækkuðu bara verðlag á vörunum, en einmitt þetta þurfi að koma í veg fyrir. Það er sem sé vitanlegt, að það, sem stóð í vegi fyrir, að prentaraverkfallinu yrði lokið, voru gerðardómsl., sem ríkisstj. setti. Og það er þetta, sem ríkisstj. gefur í skyn með ræðu forsrh. á gamlaárskvöld: Við setjum gerðardómsl. og leyfum ekki kauphækkun. Og því drógu prentsmiðjueigendur á langinn að ganga að kauphækkun. Það er því beinlínis ríkisstj., sem veldur stöðvun blaðanna, að svo miklu leyti sem þau stöðvuðust. Og það er undarlegt, að sama stjórnin, sem hindraði útgáfu blaðanna með þessum l. og afskiptum af samningum, skuli finna upp á því að fresta kosningum og bera það fyrir sig, að blöðin komi ekki út í Reykjavík ! Hvernig sem á þetta mál er litið, er auðséð, að hér er ekki um neitt mál að ræða, sem lýðræðis og réttlætis vegna er nauðsynlegt. Lýðræðið var notað sem yfirskin til þess að dylja gerræðið og hrossakaupin, sem þarna fóru fram. Þess vegna verð ég að segja, að þótt þetta frv. hafi ekki áhrif á hina praktísku framkvæmd bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík, þá er það að öllu leyti svo leiðinlega til komið, að sóma síns vegna á Alþ. að fella það.