23.02.1942
Neðri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (337)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er rætt um lýðræði í sambandi við þetta mál. Ég held, að það sé ekki hægt að lýsa eða bregða upp meiri skrípamynd af lýðræði en með því að halda fram, að það eigi að hafa einhverja úrslitaþýðingu fyrir bæjarsjórnarkosningarnar í Reykjavík, hvort þær fara fram 15. marz eða nokkrum vikum fyrr, vegna þess að það skipti öllu máli, að hægt hefði verið að halda kjósendunum í einhverjum taugaóstyrk fyrir nokkrum vikum, sem væri ekki hægt 15. marz, og þess vegna hefði kosningunum verið frestað. Er það álit þessara hv. þm., að hægt sé að halda fólki þannig í taugaæsingi nokkra daga, en sé kosningum frestað um nokkrar vikur, þá sé það kosningatækifæri, sem þeir höfðu, tapað þeim? Allt það fólk, sem átti að hafa verið á móti gerðardómsl. 25. janúar, átti þá að vera við að skipta um skoðun og sigurvonir allar farnar út um þúfur 15. marz. Ef það er rétt, að kosningafrestunin hafi einhverju breytt, sem mér þykir ekki líklegt, því að ég geri ekki ráð fyrir, að kjósendur skipti almennt svo fljótt um skoðun, þá væri það aðallega á þann veg, að kjósendur ættu 15. marz að geta dæmt um málin með rólegri íhugun miklu fremur en 25. janúar. En sú lýsing á lýðræðinu. að það skipti svo óskaplega miklu máli, að ekki sé kosið 25. janúar, heldur 15. marz, vegna sérstaks sálarástands kjósenda vissan dag, sem var ekki í fáeinar vikur, það er sú einkennilegasta skrípamynd, sem ég hef séð dregna upp af því, sem er kallað lýðræði.

Ég hef ekki tíma til þess, af því að ég þarf að fara á fund eftir fáeinar mínútur, að minnast á ýmsa þætti þessa máls, en ég fæ sennilega tíma til þess síðar. Það er þó eitt, sem mér ber sérstaklega að svara fyrir, en það er það, sem hér hefur verið kallað misnotkun útvarpsins. Satt að segja áleit ég, að þetta tiltæki Alþfl., að gefa út blað einn allra flokka, hafi verið þannig og sé þannig, að slík vinnubrögð borgi sig ekki undir neinum kringumstæðum, og það er af þeirri einföldu ástæðu, að fólk þessa lands hefur talsvert næma tilfinningu fyrir, hvað er ósiðlegt og hvað er misnotkun. Og þetta tiltæki hjá Alþfl., að reyna að koma þannig ár sinni fyrir borð með því að gefa út blað, án þess að aðrir ættu kost á því, það er nærri því einsdæmi hjá lýðræðisþjóð. Árið 1921 var prentaraverkfall í Danmörku, en það náði ekki til blaðanna. Þá var mikið um það rætt, — einn duglegasti fagmaðurinn í prentarastéttinni skýrði mér frá því, — hvort ekki ætti að stækka verkfallið og láta það ná til dagblaðanna, en það þótti of víðtækt; það þótti valda of mikilli röskun á gangi þjóðfélagsins, svo að þeir vildu ekki leggja út í það. En að stöðva allar prentsmiðjur nema eina og láta prenturum haldast uppi að prenta aðeins eitt blað, það hygg ég, að mönnum hafi hvergi hugkvæmzt nema hér á Íslandi. Ég efast um, að það hefði nokkurs staðar verið þolað af stjórnarvöldunum, þegar nýbúið var að gefa út brbl., Sem möguleikar voru í svipinn til að æsa menn á móti, að aðeins eitt einasta blað hefði verið gefið út, sem á allan hátt reyndi að ráðast á útgáfu þeirra og á ríkisstj. En þetta er það, sem hér hefur átt sér stað, og svo er verið að ráðast á stj. fyrir það, að hún sé einræðisstj., þó að hún láti viðgangast, að aðeins eitt blað komi út, sem á allan hátt skrifar á móti gerðum stj., rógber hana og skrökvar á hana. Alþýðublaðið var svo áberandi borubratt þessa daga, og ég hef aldrei séð blað skrökva eins frjálsmannlega og það gerði þá, af því að þá var enginn til að taka ofan í bakið á þeim fyrir ósannindin, og er hægt að nefna mörg dæmi þessu til sönnunar. Þetta er kallað einræði hér á Íslandi, þegar stj., sem ekkert blað hefur, leyfir blaði að koma út um langan tíma, sem gerir ekkert annað en að skamma stj., þegar dulbúið verkfall er yfirstandandi. Og svo eru þessir herrar að tala um þessa dæmalausu ósvífni ríkisstj. í misnotkun útsvarsins, að þessir „einræðisherrar“ skyldu fara í útvarpið tvö kvöld og gera þar grein fyrir brbl., sem hún hafði gefið út, aðeins sömu kvöldin og l. voru gefin út. Nei, sannleikurinn er sá, að vegna þess, að stöðvunin var svo alger, og vegna þeirrar eindæma misbeitingar að gefa út eitt blað, án þess að nokkur kostur væri að svara því, hefði stj. átt að svara miklu oftar en hún gerði. Hún hefði átt að leyfa borgurunum að gera fyrirspurnir, sem svo hefði verið svarað. Það eina, sem aðfinnsluvert var, var það, að stj. gerði ekki nægilega mikið af því í gegnum útvarpið að gera almenningi grein fyrir, hvað mikið af því, sem sagt var í þessu blaði um stj., var ósatt, og leiðrétta ósannindin jafnóðum. Það er því svo langt frá því, að útvarpið hafi verið misnotað í þessu sambandi, að slík ádeila er blátt áfram hlægileg og nær engri átt. Þeir, sem eiga ákúrur skilið í þessu máli, eru vitanlega þeir menn og sá flokkur, sem braut þær almennu reglur með því að gefa út blað, sem var sérstaklega ósvífið og dónalega skrifað, þennan tíma, sem aðrir gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Þetta er það, sem sérstaklega verður að undirstrika, vegna þess að hér var um að ræða álygar, sem var svo sérstaklega auðvelt að hrekja, að þær hefðu aldrei verið bornar fram, nema þegar á stóð eins og þarna, að ekki var hægt að svara þeim. Þetta er mjög auðvelt að sanna við síðari umr. þessa máls. Hér er um að ræða baráttu innan þeirra lýðræðislegu takmarkana, sem ætti ekki að eiga sér stað, svo að þeir, sem hafa látið sér sæma slíkt, ættu sízt að reisa sig upp og vera að vanda um við aðra. Ég get bent á bein ósannindi, sem þarna voru borin fram og hefði verið hægt að afsanna með fáeinum pennastrikum, en voru borin fram beinlinis af því, að ekki var hægt að svara þeim daginn eftir. En þeir um það. Margir álitu, að réttast hefði verið að banna Alþýðublaðið, og flestar stj. hefðu gert það undir þessum kringumstæðum, en ég áleit það ekki rétt af þeirri einföldu ástæðu, að ef hægt er að finna hentugri leiðir og ná betri árangri, þá sé rétt að komast hjá banni og að beita valdi. Réttlætistilfinning margra sagði, að réttara hefði verið að banna Alþýðublaðið, en ég áleit, að sú misbeiting, sem þarna átti sér stað, mundi mest hefna sín sjálf. Ég sé ekki, að við þær nýafstöðnu bæjarstjórnarkosningar hafi komið í ljós mikill árangur af því, að Alþýðublaðið kom út eitt blaða um langan tíma. Þeir sendu það, að því er þeir segja sjálfir, upp á Akranes, suður í Nafnarfjörð og Keflavík, austur um sveitir, upp í Borgarnes. Hver er svo uppskeran? Flokkurinn fær sæmilega útkomu aðeins á tveimur stöðum þrátt fyrir allan þennan gauragang, öll þessi skrif, sem ég lýsti áðan. Auðvitað ætti ég að vera dálítið argur yfir þessu, því að það er sagt, að ég hafi verið með laumuspil við Sjálfstfl. að koma því svo fyrir, að Alþfl. gæti dregið sinn ráðh. út úr stj., svo að hann gæti slegið sér upp við kosningarnar á eftir, láta hann einan hafa blað, sem hann gæti sent út um allt. En ég hef þá sýnilega reiknað allt þetta rangt, því að flokkurinn hefur alls ekkert stækkað, svo að þessi grikkur, sem ég átti þarna að gera Sjálfstfl., og þetta gagn, sem ég átti að veita Alþfl., hefur þá ekki verið neitt nema misreikningur. En það er annað, sem hefur líka gerzt með enn einkennilegri hætti, að einmitt þennan sama dag, sem kjósendurnir áttu að vera sem allra æstastir á móti þessari löggjöf, þá bætti Framsfl. við sig fylgi í öllum stöðum á landinu nema einum einasta og hafði þó víða ekkert blað til þess, að bera hönd fyrir höfuð sér.

Nei, ég held satt að segja, að það beri ekki vott um, að við komum auga á, hvað við þurfum að ræða margt hér á þingi, ef við förum að eyða verulegum tíma til þess að deila um, hvort rétt hafi verið og eðlilegt að fresta bæjarstjórnarkosningunum hér í Reykjavík, þegar aðeins einn flokkurinn gat gefið út blað, en málaflutningurinn í bænum fer fyrst og fremst fram í dagblöðunum. Því er blandað hér saman við, að blaðakosturinn sé ekki jafn, þegar útgáfan er frjáls, en það er mál, sem þarna kemur ekki til samanburðar. Það er ekki ríkisins að sjá öllum flokkum fyrir jöfnum blaðakosti fremur en hægt er að sjá öllum fyrir sömu eiginleikum til þess að berjast fyrir sínum málstað.

Hvað er það þá, sem hefur breytzt á þessum tíma? Flokkarnir hafa sömu aðstöðu og þeir hefðu haft, ef ekkert prentaraverkfall hefði staðið yfir. Og ég verð að segja, að þótt einhver röskun hefði orðið, þannig að Alþfl. hefði eitthvað unnið á því, að kosið hefði verið 25. jan., þá skil ég ekki þann hugsunarhátt, ef flokkurinn hefði haft ánægju af því að vinna kosningasigur á því að hafa einn haft aðstöðu til að gefa út blað. Þá hefði áreiðanlega verið sagt, að sá kosningasigur væri ranglega fenginn, og mátti með miklum rétti segja, að. það væri rétt. Frá mínu sjónarmiði var alveg rétt að fresta kosningunum, og ég hef aldrei látið orð falla á annan veg, hvorki á flokksfundum né annars staðar, en að það væri réttlátt. Þetta sýnir þennan eilífa skopleik, þar sem verið er að kasta á milli okkar orði, sem heitir réttlæti. Það er enginn vafi, að ef Sjálfstfl. hefði haft aðstöðu til að gefa út Morgunblaðið frá áramótum, en öllum öðrum flokkum hefði verið varnað að gefa út sín blöð, þá hefði Alþfl. talið það heilagt réttlætismál að fresta kosningunum í Reykjavík. Þannig sjá menn réttlætið aðeins frá sínum eigin bæjardyrum oft og einatt.

Ég get því ekki séð neitt nema eðlilegt við að fresta kosningum þangað til 15. næsta mánaðar, eftir að menn öðluðust aðstöðu til að athuga málin frá öllum hliðum, sem þeir gátu ekki 25. janúar.

Þetta bréf, sem lesið var hér upp, hef ég ekki haft tækifæri til að athuga, hvort það er til og hvort það er eins og það var lesið upp, en ég hef aðstöðu til að dæma um það, sem hv. þm. las upp, og það var allt vitlaust túlkað og skýrt, því að það er hann, sem setur þessi tvö mál í samband, en það er ekki gert í bréfinu sjálfu. Hann les það upp með sérstökum hnykkjum og áherzlum, að Framsfl. hafi talið, að Sjálfstfl. hefði haft nokkurn rétt til að fá kosningafrestun, og svo kemur hann með það eins og eitthvert óskaplegt leyndarmál, að þessir flokkar hafi samið um að leggja fram peninga til að halda niðri dýrtíðinni. Ég held, að það hafi komið í öllum blöðum í bænum, jafnvel í öllum dagblöðum landsins. Sem sagt, það er ekkert í bréfinu, ef ekki er reynt að lesa með einhverjum hnykkjum og áherzlum til þess að færa meiningu úr skorðum, sem ekki hvert manns barn veit í landinu. Ég það er hvergi sagt með einu einasta orði, að fyrir kosningafrestun í Reykjavík höfum við fengið þessi mál. Það er ekki heldur minnsta ástæða til þess að skilja bréfið á þann veg. Það tíðkast í slíkum trúnaðarbréfum, sem send eru til flokksmanna úti um land, að telja aðeins nokkuð sundurlaust þau mál, sem borið hafa á góma og hafa verið afgreidd eða verið er að búa undir afgreiðslu, til þess að flokksmenn geti fylgzt nægilega með. Sannast að segja er það þannig, að ég hef talið. að kosningafrestunin í Reykjavík væri réttlát. Ég álít, að kosningum hefði átt að fresta, ef Morgunblaðið hefði komið út í mánuð og engin önnur blöð. Ég álít, að ef Tíminn einn gæti komið út í þrjá mánuði og haldið uppi áróðri um land allt, þá væri það mjög vafasamt réttlæti að láta þá kosningar fara fram. Mundi ég ekki ráðast á andstæðingana fyrir að telja rétt að fresta þeim. Ég átti nú beinlínis tal við þá menn úr alþfl., sem mikils eru ráðandi, og sagði við þá: „Þetta er rangt, og þið eigið að hætta að gefa út blaðið. Farðu í þína flokksstjórn, og reyndu að fá hana til að hætta við það.“ En flokkurinn fékkst ekki til þess, þó að það væri rætt í stjórn flokksins. En ég veit, að margir Alþfl.-menn voru með því að gefa blaðið ekki út, og álít ég það heilbrigða réttlætistilfinningu. En svona er nú ýmsum mönnum einu sinni háttað. Það, sem þeim finnst ranglæti, ef það kemur fram við sjálfa þá, það finnst þeim réttlæti, þegar það snýr frá þeim, en að öðrum. Þannig er það með þessa kosningafrestun, að Alþfl. finnst ranglætið snúa gagnvart sér, vegna aðstöðu sinnar að geta einn allra gefið út blað til að túlka afstöðu sína og mál. En honum mundi hafa þótt það hið fullkomnasta réttlæti að þurfa ekki að þola kosningar, meðan Morgunblaðið eitt hefði komið út. Það sér hver maður, að svona er hugsað í þessu máli, og það þýðir ekkert með svona málflutningi að vera um leið að hafa orðin „réttlæti“ og „lýðræði“ á vörunum.