24.02.1942
Neðri deild: 4. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (340)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu sinni í gær, að sízt væri ofmælt, að Alþfl. hefði sýnt mikla fyrirhyggju í undirbúningi þess að komast að niðurstöðu í prentaraverkfallinu til læss að bæta aðstöðu sína í bæjarstj., að vísu með þeirri viðbót, að ráðh. Alþfl. hefði blekkt samstarfsmenn sína í ríkisstj. Ég tók svo eftir, að hann segði, að ráðh. Alþfl. hefði fullyrt, að engin þeirra. félaga, sem í. Alþýðusambandinu væru, mundu gera neinar kröfur um verulega kauphækkun, og í útvarpsræðu sinni segir hæstv. fjmrh. svo: „Ráðh. Alþfl. þóttist geta staðhæft, að engar slíkar kröfur yrðu gerðar af félögum þeim, sem í Alþýðusambandinu væru, nema þá til leiðréttingar á ósamræmi.“

Mér er kunnugt um, að þetta er rangt. Ég var á fundi með ríkisstj., þegar rætt var um frv. Framsfl. um kaupbindingu, og ég man vel ummæli Stefáns Jóh. Stefánssonar. Til að taka af öll tvímæli, ætla ég með leyfi hæstv. forseta að lesa upp kafla úr þingræðu hans á. aukaþ. í nóv., sem engum mótmælum var hreyft við. Hann hljóðar svona: „Milli 10 og 20 sveitarfélög víðs vegar um land, sem gátu sagt upp kaupsamningum fyrir nokkru síðan, hafa ekki talið rétt. að gera það. Og mér er kunnugt um það, að það er engin sérstök hreyfing í þá átt að segja upp kaupsamningum með það fyrir augum að hækka grunnkaupið. Eru engar líkur til þess, að kaupgjald launastéttanna í landinu orkaði svo á dýrtíðina, að hún færi hraðvaxandi fyrir þær sakir. Þó að nokkur félög segi upp samningum af ýmsum ástæðum, þá hefur það engin veruleg áhrif á dýrtíðina. Ég get ekki séð, að þótt nokkur tilhnikun fengist fyrir stéttarfélögin, þyrfti það að hafa þau áhrif, að dýrtiðin færi fyrir þær sakir upp úr öllu valdi.“

Ég minnist þess ekki, að á þeim fundi hafi andmæli komið fram gegn því, að þessi ummæli væru í samræmi við það, sem haldið hafði verið fram í ríkisstj.

Ég verð nú að segja, að mig furðar ákaflega, að hæstv. ráðh. skuli taka þetta hér upp á ný á þennan hátt. Í fyrsta lagi verð ég að segja, að mig undrar, að í grg., sem flutt var í útvarpinu, skyldi hann ekki skýra frá sérstöðu Alþýðuprentsmiðjunnar. Þar sem hann var einn um orðið þar, þá var það sjálfsögð drengskaparregla. Hann afsakar sig með því, að athugasemd var birt í útvarpinu síðar.

Ég ætla því, að það sé af þessu ljóst, að það er fjarri öllum sanni, — eins og hæstv. ráðh. og þingheimur veit —, að af hálfu Alþýðuprentsmiðjunnar og Alþfl. hafi verið beitt nokkrum öðrum aðferðum en þeim, sem sjálfsagðar eru og réttmætar. Hæstv. ráðh. sagði, að samkv. réttum lýðræðisreglum hefði verið sjálfsagt að fresta, en hefur hins vegar líka haldið því fram, að kosningafrestunin hafi verið til hagsbóta fyrir Sjálfstfl. (Fjmrh.: Þm. snýr við því, sem ég sagði.) Það gleður mig, enda þótti mér næsta ólíklegt, að hæstv. ráðh. hefði virkilega látið sér þetta um munn fara. Það er alveg fjarri því, að ég vilji nokkru um það spá, hvort Sjálfstfl. fær betri eða verri kosningaútkomu 15. marz en 25. janúar. En hitt vil ég fullyrða, og það hygg ég við séum sammála um, að ástæðan til þess, að kosningunum var frestað, er sú ein, að ráðamenn Sjálfstfl. óttuðust, að útkoman 25. jan. mundi verða óhagstæðari en þeir gerðu sér vonir um síðar. Þess vegna er það yfirskin, þegar hæstv. ráðh. heldur fram, að ráðstöfun þessi hafi verið gerð til þess að varðveita lýðræðisregluna í þjóðfélaginu. Það skiptir ekki í sjálfu sér neinu máli, hvaða dag kosningarnar fara fram, heldur hitt, hvort hlýtt er lögum landsins, hvort farið er eftir skýrum og ótvíræðum ákvæðum laganna eða hvort það er annað, sem ræður, geðþótti einstakra ráðherra og þess konar. Aðalatriðið í þessu máli er það, hvort það er á valdi ríkisstj. að segja til um það, þvert ofan í skýlaus lagaboð, hvenær kosningar fara fram, og ákveði þær, þegar hún telur, að bezt henti. Það er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, og það er það, sem hún hefur fengið ámæli fyrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að þeir, sem í ríkisstj. sætu nú, væru einarðir og kjarkmiklir menn, en það væri annað en það, sem hægt væri að segja um ráðherra Alþfl., því að hann hefði farið af eintómum ótta við ráðstafanir ríkisstj. Skörulega er þetta mælt, enda er það svo, að hæstv: fjmrh., og ég held hæstv. forsrh. líka, opna varla sinn munn í útvarpinu eða deildinni án þess að hrósa sér fyrir það að þora að baka sér óvild kjósenda fyrir það, sem þeir gera fyrir land og lýð.

Hæstv. ráðh. hefur fullyrt, að þessi umdeilda lagasetning sé einhver sú nauðsynlegasta, sem nokkurn tíma hefur verið sett á Íslandi, en fjórir ráðh. hafa hver eftir annan staðið upp til að útmála hennar ágæti og nauðsyn. Þetta eru allt prýðilega gefnir menn, þekktir ræðuskörungar og fylgja vel fram máli sínu. Og málstaðurinn er eins og þeir hafa lýst. Hvernig í lifand ósköpunum stendur á því, að þeir óttast afleiðingarnar af þessu, svo að það leiðir til frestunar á kosningum? Hvers vegna hóta sjálfstæðismenn verkfalli, að slíta samvinnu og hverfa frá þessu nauðsynjamáli, ef frestunin fengist ekki? Nei, það er ekki hægt að snúa sig svona frá þessu. Og þó að hæstv. fjmrh. segist hafa gert svo rétt í þessu máli, er nokkur ótti augljós í útvarpsræðu hans. Hún á að heita grg. fyrir frv., en var síðan sérprentuð með nafninu „Alþýðuflokkurinn afhjúpaður“ Þar segir hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta: „Hvor tveggja lögin snerta viðkvæma strengi, og má að því leyti telja eðlilegt, að þau hafi vakið nokkra hugarhræringu“, o.s.frv. Jú, það er auðséð, að það er hugarástandið og „hugarhræringarnar“, sem hafa vakað fyrir ráðh. Mér þykir allt of lítið gert úr sínum eigin málflutningi og væntanlegu ágæti þeirra l., sem hæstv. ráðh. hafa sett, að gera endilega ráð fyrir, að fylgi kjósenda hafi snúizt frá þeim vegna þessarar ágætu lagasetningar. Þá vil ég enn lesa klausu nokkra úr nefndum pésa, þó að, þessi hæstv. ráðh. hafi langt frá því hagað sér verst í útvarpinu. Klausan er um brbl. um gerðardóm: „Hér á Íslandi tók þá einnig hagfræðingur Alþýðuflokksins, Jón Blöndal, að skrifa greinar í Alþýðublaðið gegn þeim kröfum, að greidd yrði full dýrtíðaruppbót, og taldi það vísan veg til fjárhagslegs öngþveitis og glötunar að hverfa að því ráði.“

Nú veit þessi hæstv. ráðh., og vissi, þegar hann hélt ræðu sína, að þetta er tilbúningur einn, eins og öllum er ljóst, sem greinar Jóns Blöndals hafa lesið. (Fjmrh.: Vill ekki þm. lesa tilvitnunina á kápunni?) Mér finnst rétt að verða við þeim tilmælum, þó að þetta sé nokkuð langt. Jón Blöndal segir í Alþbl. í okt. til nóv.:

„Það er ekki ætlun mín að fara að prédika neina bölsýni fyrir lesendum blaðsins, en ég get þó ekki neitað því, að mér finnst sterkar líkur benda til þess, — svo framarlega sem fylgt verður áfram þeirri stefnu, sem nú virðist ráðandi í viðskipta- o,g fjármálum þjóðarinnar —, að innan skamms vöknum við óþægilega af velmegunar- og gróðadraumum hinnar líðandi stundar, vöknum og sjáum, að gróðinn og velmegunin hafa verið blekking — fata morgana —, sem horfin er fyrir þeim bitra veruleika, að þjóðin sé orðin enn fátækari en áður, enn skuldugri, og örðugleikarnir steðja að úr öllum áttum.

Þetta kunna að virðast hrakspár, og er betur, að svo fari, en ég er hræddur um, að niðurstaðan geti orðið þessi, — ef ekki er snúið við áður en það er orðið of seint.“

En í grein þessari markar hann þá stefnu, sem hann vill taka upp: Að greiða 27% á kaup og banna með lögum að greiða meira, en vísitalan þá var orðin 40–50, og landbúnaðarafurðir í 70. Það er það, sem hagfræðingurinn vísar til í grein sinni, þegar hann segir, að innan skamms muni þjóðin vakna við blekkingarnar og örðugleikarnir steðja að úr öllum áttum, o.s.frv.

Síðan þetta er skrifað í okt. 1940, eru liðnir 16 mánuðir. Vísitalan hefur haldið áfram að stíga, og engar, bókstaflega engar, aðgerðir hafa verið framkvæmdar, þangað til þessi sælu brbl. komu. (Rödd frá ráðh.: Og ekki heldur ráðherra Alþfl.) Till. hans náðu ekki fram. (Viðskmrh.: Hann gerði aldrei neinar till.) Annars væri æskilegt, að hæstv. ráðh. vildu ofurlítið sitja á skapi sínu, svo að ég gæti fengið að hafa orðið. (Viðskmrh.: Það þarf að leiðrétta þetta jafnharðan.) (Forseti: Ekki samtal.) Ég bið menn minnast þess, að það er eftir till. hæstv. fjmrh., að ég les þetta upp.

Ég skal nú leyfa mér að rifja upp, hvernig sambandið var milli kaupgjalds og verðlags í síðasta stríði. Þá hækkaði kaupgjaldið ekki fyrr en löngu, löngu á eftir dýrtíðinni. Ég ætla, að þegar dýrtíðin var orðin 340 árið 1918, þá hafi vísitalan fyrir kaupinu ver ið undir 200. Og það var ekki fyrr en 1921, 3 árum eftir stríð, sem kaupgjaldið náði dýrtíðarvísitölunni. Og það var bara af því, að dýrtíðin var farin að lækka. Og svo komu þessir hæstv. ráðh. hér og segja, að þessi kaupbinding sé nauðsynjamál, til þess að halda niðri dýrtíðinni. Dýrtíðin fór upp í 440, og allan tín1ann var kaupgjaldið langt á eftir. Allan tímann voru goldnar hálfar bætur og ekki það, með hækkuðu kaupi. Þetta sannar, að það er blekking og tómur tilbúningur, að það sé hækkun á grunnkaupinu, sem skapar dýrtíðina. Þetta, sem ég hef nú sagt um dýrtíðina og kaupgjaldið á síðasta stríðstíma, sannar greinilegast, að það er argasta rakafals, sem reynt er að nota fyrir aðgerðum ríkisstj. nú.

Ég geri það fyrir ráðh. að halda áfram að lesa. „Ég verð að halda fram,“ segir Jón Blöndal 24. okt. 1940, „að engin stétt geti til lengdar grætt á því verðhækkunarkaupphlaupi, sem hér hefur verið háð undanfarið. Máske getur sá gróði enzt fram yfir næstu kosningar, en óvíst, að það verði miklu lengur. Haldi verðhækkunarskrúfan áfram, leiðir hún óhjákvæmilega til þess, að framleiðslu kostnaðurinn hækkar, atvinnuvegirnir hætta á ný að bera sig, þeir, sem nú græða, fara að tapa, og hrunið blasir við. fyrr en menn kann að óra fyrir nú. Ég hef reynt að ræða þetta mál almennt, frá sjónarmiði allrar þjóðarinnar. Hinir raunverulegu hagsmunir allra stétta þjóðarinnar eru þeir, að vöxtur dýrtíðarinnar sé stöðvaður áður en verðgildi peninganna er að engu orðið, og þess vegna má tala um þjóðarhagsmuni í þessu sambandi.“ (Fjmrh.: Ætlar þm. ekki að brýna raustina?) Ég þarf ekki leyfi fjmrh., hvort ég brýni raustina.

Ég vil minna á það, að haustið 1940, einmitt þegar þessi grein er skrifuð, birti Alþfl. og lagði fram till. um það, að tekið yrði útflutningsgjald af ísfiski til Englands, og yrði það notað til að verðbæta íslenzkar afurðir innanlands. Það var, þegar ísfiskssalan var komin mjög hátt. Þá var vísitalan ekki komin nema í 140 stig, svo að tiltölulega auðvelt var að koma stöðvun við. É g man ekki betur en Tíminn tæki eitthvað líklega undir þetta og teldi ýmislegt mæla með því. En á sama tíma var uppi deila um það milli blaðanna, hvort ætti að halda skattfrelsi útgerðarinnar eða fella það niður. Og þessar umr. allar munu hafa blandazt saman. En þess minnist ég, að blöð Framsfl. töldu sig eindregið fylgjandi því að nema skattfrelsi úr lögum, meðal annars til þess að fá útflutningsgjald á þessar afurðir. En sjálfstæðisráðh. settu sig á móti, og þá var ekki fært talið að gefa út brbl. nema allir ráðh. væru samþykkir, þó að síðan hafi slíkt þótt viðeigandi. Það er til þessara atriða, sem vísað er í síðustu greininni, sem ég las eftir Jón Blöndal, þar sem hann bendir á hættuna, sem af verðhækkun stafar. En honum er ljóst, að verðhækkunin, dýrtíðin, er ekki og hefur ekki verið, hvorki það sem af er þessu stríði né í síðasta stríði, afleiðing af hækkun kaupsins. Kaupgjaldið kemur með sína hækkun á eftir og verður sem afleiðing, en ekki sem orsök.

Ég hef haft þetta lengra mál en ég hugsaði mér, en þótti skylt að verða við tilmælum hæstv. ráðh. um að lesa upp þessar greinar. En við hæstv. forsrh. þurfti ég að tala út af ræðu hans í gær. Ég talaði ekki mikið um lýðræði í ræðu minni, svo að óþarft var að teikna skrípamynd af því. Í upphafi máls síns kvaðst hann frá fyrstu hafa talið sjálfsagt að fresta bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík, — að mér skildist vegna þess, að rétt væri að láta þessar hugarhræringar, sem hæstv. fjmrh. talaði um í pésa sínum, stillast nokkuð, svo að hin kalda yfirvegun fengi yfirráð áður en kosið yrði. Hann hefði þess vegna frá fyrstu byrjun verið ráðinn í að fresta kosningum í Reykjavík. Það er talsverður fróðleikur í þessum upplýsingum. En dálítið undarlega bregður við, þegar þess er gætt. hve mikið gekk á út af frestuninni í Reykjavík, að báðir ráðh. Sjálfstfl. urðu að leggja það við að hóta brottför úr stj. Úr því að hæstv. ráðh. var svo ráðinn í þessari frestun strax, þá hafa það kannske verið stimpingarnar við aðra flokksmenn hans, sem orsökuðu átökin innan stj.

Engu vil ég spá um það, hvort eða hver breyting verður á kosningaaðstöðu frá 25. jan. til 15. marz. En ég endurtek það við hæstv. forsrh., af því að hann er kominn í deildina, að það, sem máli skiptir í þessu sambandi, er þetta: Eiga kosningar í Reykjavík að fara fram á þeim tíma, sem I. ákveða, eða á ríkisstj. að ákveða kosningarnar, þegar henni hentar bezt? Það er þetta og annað ekki, sem um er að ræða. Ríkisstj. hefur tekið sér vald til að breyta kosningadeginum, og það er alveg ósmboðið ríkisstj. í landi, sem hefur þingræðisstj. Með þessu er ríkisstj. komin inn á hættulega braut, sem enginn veit hvar endar.

Hæstv. ráðh. virtist tala í þeim tón um misnotkun útvarpsins, að þetta væri aðeins mitt orðatiltæki. En ég get fullvissað hæstv. ráðh. um, að það eru miklu grófari orð notuð um þetta um land allt. En hæstv. ráðh. kvað það eitt aðfinnsluvert við sig, að hann hefði ekki nógu oft farið í útvarpið af stj. hálfu til þess að hnekkja skrifum Alþbl. (Forsrh.: Alveg rétt.) Það er glöggt, að hann telur útvarpið eiga að vera opið og reiðubúið til að flytja þau sjónarmið, sem ríkisstj. á hverjum tíma óskar að birta þjóðinni, án þess á sama tíma að sjá um eða leyfa; að nokkur önnur sjónarmið geti komið fram. Þótt ríkisstj. færi daglega í útvarpið, væri ekkert um það að segja, ef öðrum sjónarmiðum væri líka leyft að komast að.

Ég minnist þess nú, að í bók, sem heitir Helgakver, er grein um hið versta sálarástand, þegar menn eru komnir á mjög slæmt stig og sýna enga viðleitni til iðrunar og þykir sómi að skömmunum. Þá eru þeir kallaðir forhertir, og þá er ástand þeirra hið háskalegasta, sem orðið getur. Ég vildi ráðleggja hæstv. forsrh. að taka sér í hönd sinn barnalærdóm og lesa þessa grein, — en með því rétta hugarfari, það brýni ég fyrir honum. Ég get fullvissað hann um, að honum veitir ekki af því. (Atvmrh.: Er þetta talað af reynslu?) Það þarf ekki.

Þá kvað hæstv. ráðh. það óviðurkvæmilegt af alþfl. að gefa einn út blað í janúar s.l. Ekki hefðu dönsku prentararnir farið svona að. Ég sé ekki, hvað það kemur málinu við, hvað danskir prentarar hafa gefið út eða ekki gefið út í dönsku verkfalli og að vísa þurfi til Danmerkur í öllu. Mér er ekki kunnugt, að þeir hafi nokkurn tíma átt við sams konar aðstæður að búa. En nú eru sumir að segja, að Alþfl. hafi tapað á þessu: En það er þeim ekki nóg, heldur þurfa þeir að vera að sýsla um siðferði Alþfl.

Hann undirstrikaði það og tvítók, hversu ósiðlegt það háttalag alþfl. hefði verið að gefa út blað. Það hefði verið brot á réttum lýðræðisreglum. Það er formaður Framsfl., sem mest hefur prédikað siðferði, pólitískt siðferði, og er nú svo komið, að þessum hæstv. ráðh. flokksins þyki sér fara það vel að keppa þar við hann? En þegar þeir tveir ráðh. flytja hvor af hálfu sins flokks grg. í útvarpi fyrir gerðardómsl. sínum, leggja þeir blátt bann við því, að ráðh. samstarfsflokks þeirra fái að skýra á sama vettvangi afstöðu sína gegn setningu þeirra brbl.

Hvað er brot á réttum leikreglum, ef ekki þetta? Hvað er þar brot, ef ekki sá ódrengskapur að bægja samstarfsmanni sínum frá, neita honum um málfrelsi á þeim stað, sem beinar árásir eru gerðar á hann í skjóli þess, að hann geti ekki svarað? Þeim mönnum, sem þannig leika, er bezt að tala sem minnst um réttar leikreglur og sem minnst um siðgæði í þessum efnum.***

Hæstv. ráðh. segir, að tilmæli sín um, að hætt. yrði útgáfu Alþbl., hafi verið tekin fyrir á fundi miðstjórnar Alþfl. Það er á þann veg rétt, að fyrirspurn, sem í mun hafa legið ósk um, að svo yrði gert, barst fundinum og var rædd. En flokkurinn gat ekki hætt að gefa út blaðið, meðan ráðh. hvorki gaf né hefði getað gefið trygging fyrir því, að ekki kæmu þá út önnur blöð, og í öðru lagi var það, sem meiru skipti frá mínum bæjardyrum séð, að miðstjórn Alþfl. gat ekki vitað, nema svo kynni að fara, að ríkisstjórnin fyndi upp á því að gefa út önnur brbl. og neyta þess tækifæris til að koma í eyru alþjóðar áróðri frá sér gegn fyrri samstarfsflokki sínum varnarlausum. Hæstv. ráðh. finnst það ef til vill ljótt og ómaklegt að láta sér detta aðrar eins getsakir í hug?

En hvað gerði hann og stjórnin síðan? (Viðskmrh.: Það hefði mátt ýta af stað blaðsútgáfu aftur, svo að áhætta Alþfl. var engin.) Það er svo! Við erum vanir að halda það, sem við lofum). (Viðskmrh.: Alþfl. gat sett það að skilyrði, að önnur blöð kæmu ekki út.) Slík skilyrði orka jafnan tvímælis og hæpin framkvæmdin.

Hæstv. forsrh. flutti langan ræðukafla um það, hve frábitin stjórnin væri öllum einræðistilhneigingum, hún væri svo fjarlæg öllu slíku, að hún léti jafnvel andstæðingablöð koma út. (Forsrh.: Er þetta nú ekki eitthvað ofurlítið stytt?). Hann sagðist hafa verið að hugsa um, hvort ekki væri hægt að banna Alþbl., en taldi það samt ekki rétt, þar sem hægt væri að fara aðrar leiðir í sama tilgangi. Hann var mjög drjúgur af hyggindum sínum í þessu máli, sem von var. Hann hafði því leyft Alþbl. að koma út þrátt fyrir stórkostlegar lygar, sem hefðu verið í því. Hann vildi ég léti sig heyra aftur sem mest af ræðu sinni, og ég furða mig á, að hann skuli hafa látið sér allt þetta um munn fara. Alþfl. hefur aldrei sótt um leyfi til hans um að fá að gefa út blað, og hann hefur hvorki leyft það né bannað, að kemur út samkvæmt ritfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar, en ekki leyfi hans. Ef Alþfl. brýtur af sér þann rétt, er það dómstólanna að kveða á um viðurlög. Það er að vissu leyti ískyggilegt tímamark, að forsrh. landsins skuli leyfa sér að tala á þennan veg, að það sé hans að leyfa og banna, að blöð komi út. Það er eins og honum gleymist, að það er aðeins framkæmdarvaldið, einn af þrem þáttum stjórnarvaldsins, sem er í ráðherra höndum. Ilann talar stundum eins og hann réði líka öllu dómsvaldi og löggjafarvaldi ríkisins, hefði það í hendi sinni. Ég vil vona, að það sé aðeins af augnabliksbarnaskap og fljótfærni, sem slík orð falla, — nógu ískyggilegt er það, þótt ekki sé meira úr því gert.