26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (352)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er nú óþarfi að teygja umr. um þetta. Hv. þm. Seyðf. veit vel, að ríkisstj. hefur rétt og skyldu til að setja brbl. um hvað eina, sem þörf er , og að þær ráðstafanir, sem ég hef talað um, að til mála kæmu gagnvart blöðum, hafa verið framkvæmdar í löndum; sem hafa alveg sams konar stjórnarskrá og við, segjum t.d. í Danmörku. Þó að hv. þm. Seyðf. fallist á, að þær ráðstafanir eigi rétt á sér, eins og hann hlýtur að gera og hefur gert, og má minna á þær athuganir, sem gerðar voru, þegar skrif Þjóðviljans voru álitin hættuleg í sambandi við setuliðið og fyrir okkar sjálfstæði og málinu var hreyft jafnsnemma af mér og St. Jóh. St. í ríkisstjórninni, þá virðist þn). svo blindur í sjálfs sök, að hann gæti ekki viðurkennt rétta ráðstöfun gagnvart hans flokksblaði.

Engin leið er að þegja við þeirri ásökun, að ég hafi reynt að afla flokki mínum fylgis með því að hækka landbúnaðarvörur úr hófi fram. Slíkar firrur þarf að hrekja, hversu oft sem þær heyrast. Vegna þeirrar stórfelldu hækkunar, sem orðin er á kaupi og mörgu öðru, sem bændur greiða, er enginn afgangur af því, að búrekstur beri sig viðunanlega, svo sem raun ber vitni; að fjöldi bænda leitar daglaunavinnu við sjó í stað búskaparins; og er við stórhættu búið, að hann dragist mjög saman af þeim sökum, nema rönd sé við reist. Það er eftirtektarvert á tímum, þegar bændur ættu að áliti þm. Seyðf. að stórgræða á búskapnum, að sjaldan hafa verið auglýstar eins margar jarðir til sölu og nú. Því fer ákaflega fjarri, að Framsfl. hafi á nokkurn hátt gengið of langt í því að veita bændum hina óhjákvæmilegu hækkun verðlags á afurðum þeirra. En hv. þm. Seyðf. virðist nota hvert tækifæri til þess í seinni tíð að hnýta í bændur, virðist hafa það fyrir sitt sérmál að reyna að skerða þeirra hlut. Það er í samræmi við hinar einstöku tillögur flokks hans í dýrtíðarmálum á s.l. ári að setja verðlagseftirlit á allt nema kaupgjaldið í landinu. Þó vita það allir menn, að verðlagsákvörðun á afurðum bænda er ekker t annað en ákvörðun á kaupi þeirra, — og hví á að misjafna svo með hinum vinnandi stéttum? Við framsóknarmenn höfum aldrei farið fram á annað en hvoru tveggja yrði haldið niðri, kaupgjaldi og afurðasöluverði innanlands. Hvarvetna þar, sem barist er gegn dýrtíðinni erlendis með slíkum ráðstöfunum, er þetta látið fylgjast að, t.d. í Ástralíu, þar sem við völd eru verklýðssinnaðar stjórnir. En síðasta hálfa árið hefur málgagn íslenzka Alþfl. aldrei af því látið að rægja saman verkamenn og bændur út af þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið til að festa kaup og verðlag í heilbrigðu jafnvægi. Áður en þessi hv. þm. Alþfl. ber það á aðra, að þeir dekri við kjósendafylgið, væri bezt fyrir Alþfl. og flokkinn að leggja þann söng niður.