26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (356)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Það voru tvö atriði í ræðu hv. þm. Seyðf., sem mér þykir rétt að gera aths. við. Hann vísaði til þess í svari hv. 4. þm. Reykv., að ég hefði gert ráð fyrir því, að hægt hefði verið fyrir Sjálfstfl. að koma út blöðum, þrátt fyrir verkfallið, til jafns við Alþfl. Með þessari yfirlýsingu hafi ég svo játað, að ekki sé rétt, sem stendur í grg. um ástæðuna fyrir brbl. Nú stendur í grg., að í Reykjavík sé vinnustöðvun í prentsmiðjum og aðeins einn stjórnmálaflokkur geti komið blöðum út með venjulegum hætti. Þó að hægt hefði verið fyrir Sjálfstfl. að koma út blöðum til jafns við Alþfl., væri það ekki með venjulegum hætti. Hv. þm. þarf ekki annað en bera saman það vinnuafl, sem er starfandi í Alþýðuprentsmiðjunni, og það vinnuafl, sem venjulega starfar í hinum prentsmiðjunum. Ég er ekki kunnugur í Alþýðuprentsmiðjunni, en ég hygg, að þarna verði allstór mismunur. Prentsmiðjurnar gátu ekki starfað með venjulegum hætti, þar sem lærlingar voru eingöngu við verkið. Prentsmiðjustjórar hafa venjulega annað starf á hendi en vinna í prentsmiðjunum sjálfum og geta því eigi verið fullkomnir til þess starfs. Þess vegna hefði þurft að grípa til alveg óvenjulegra aðgerða til að geta komið út blaðakosti til jafns við Alþýðublaðið. Það hefði kannske verið hægt, en álitamál er, hvort rétt hafi verið að grípa til einhverra örþrifaráða, og prentsmiðjustjórar voru þess ekki hvetjandi. Þess vegna er það rangt hjá hv. þm. Seyðf., að ég hafi játað, að hægt hafi verið að gefa út blöð Sjálfstfl. í fullri stærð. Þó að ef til vill hefði verið hægt að koma út einu og einu blaði, gat það að minnsta kosti ekki orðið með venjulegum hætti.

Þá sagði hv. þm., að það væri rangt hjá mér, að Stefán Jóh. Stefánsson hafi átt þess kost að svara fyrir sig í útvarp. Það voru ekki mín orð. En ég sagði, að ef hann hefði viljað fá tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér, eins og Ingimar Jónsson og Jón Blöndal, þá hefði hann fengið birta yfirlýsingu frá sér í útvarpinu. En hann treysti sér ekki til að bera af sér þær sakir, sem ég hafði borið á hann. Hæstv. fyrrv. félmrh. kærði sig ekki um að fá áheyrn í útvarpinu til þess að bera af sér sakirnar, af því að allir vissu, að þær voru réttar.

Þá er eitt atriði, sem ég vil benda hv. þm. Seyðf. á og kom fram í orðaskiptum hans við hæstv. forsrh. Hann talaði um, að gerðardómslöggjöfin væri til þess fallin að afla ríkisstjórninni vinsælda meðal vissrar stéttar, og hann átti þar við bændurna. Sannleikurinn er sá; að löggjöfin um gerðardóm hefur sama gildi fyrir bændur eins og fyrir verkamenn, að halda verðlaginu niðri. Hvers vegna skyldi þessi löggjöf vera til þess fallin að afla ríkisstjórninni vinsælda meðal bænda, sem verða fyrir barðinu á henni, en óvinsælda meðal verkamanna? Það get ég ekki skilið. Í báðum tilfellum eru settar hömlur við því, að vinnandi stéttir geti selt vinnu sína því verði, sem þeim líkar á hverjum tíma. Ég finn ekki muninn. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. Seyðf. hafi aðeins átt við bændastéttina, þetta hafi líka. verið þægt verk fyrir atvinnurekendur, sem hafa verkamenn í vinnú og borga þeim kaup. Þannig var það túlkað; en meiningin með þessari löggjöf er að taka stríðsgróðann úr höndum þessara manna.

Hv. þm. Seyðf. var að tala um í einni af ræðum sínum, að ríkisstj. hefði verið að spilla samkomulaginu milli atvinnurekenda og verkamanna með þessari löggjöf. Hann gekk út frá því, að ágætt samkomulag um kauphækkun hefði verið milli atvinnurekenda og verkamanna, en svo hafi ríkisstj. gert allt til að spilla því. Mér skilst, að þessi löggjöf sé því jafnt til þess fallin að afla vinsælda og óvinsælda. Sannleikurinn er líka sá, að ef löggjöf þessi hefði ekki komið, höfðu atvinnurekendur ástæðu til að græða því meira sem kaupið var hærra, en með þessum l. eru einmitt lagðar hömlur á þetta. Þessi löggjöf er ekki til þess fallin að afla vinsælda eða óvinsælda meðal einnar eða annarrar stéttar, nema ef hún verður vinsæl meðal þeirra manna, sem mest eiga á hættu með það, að peningarnir verði verðlausir. Hverjir eru það, sem eiga mest á hættu með, að peningar verði verðlausir? Eru það þeir, sem hafa mikið milli handanna og eiga fasteignir eða farartæki, eða þeir, sem verða að lifa af handafli sínu? Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessi löggjöf á að vera til þess fallin að afla sér vinsælda meðal verkamanna og launastétta, vegna þess að hún er sett til að tryggja hag þeirra. Hv. þm. Seyðf. reiknar hér með fáfræði kjósenda sinna, þegar hann er að útlista fyrir þeim, að verið sé að vinna gegn þeim með þessari löggjöf.