26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (359)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Mig furðar ekkert á því, þótt hv. þm. Ísaf. vilji halda um sitt og ekki láta hafa neitt það af sér, sem hann á, en það var, þegar hann benti mér á, að það væri sín uppfinning, en ekki þm. Seyðf., að spilla samkomulaginu, en hv. þm. Ísaf. tyggur nú flest upp eftir þm. Seyðf. Ég segi þetta þó ekki til þess að hafa neitt það af hv. þm., er hann telur sér fremd í.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að hann gæti sannað, að það, sem fyrir Sjálfstfl. hefði vakað, hefði verið, að hann vildi fá sexfaldan blaðakost á við Alþfl, Það, sem hv. þm. sagði þarna, var allt tuggið upp eftir hv. 4. þm. Reykv., og hefur það þegar verið hrakið, og mun ekki frekar að því vikið. Ég sagði hv. þm. Seyðf., að Sjálfstfl. hefði getað komið út blaði, en ekki með venjulegum hætti. Ég benti á það, að Alþýðuprentsmiðjan réði yfir meira vinnuafli en því, sem sjálfstæðismenn gátu fengið. — Það, sem ég sagði því í grg. minni, var samkvæmt staðreyndum. Sjálfstfl. átti ekki kost á blaðaútgáfu í samanburði við Alþfl.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að gerðardómsl. hefðu aðeins spillt samkomulaginu. Þetta er upptugga eins og flest, sem þessi hv. þm. segir. Hann sagði enn fremur, að Stefáni Jóh. Stefánssyni hefði ekki verið gefið tækifæri til þess að bera hönd fyrir höfuð sér í útvarpinu, en það var ekkert um það að ræða, því að í l. var engin árás á Stefán Jóh. Stefánsson. — Vinnubrögðin voru eins og hér á Alþ., aðeins sá munurinn, að grg. fyrir l. var þarna lesin í útvarpið. Stefán Jóh. Stefánsson neitaði að flytja frv., og því stóð ekki til, að grg. væri að vænta frá honum. Hitt er annað mál, að ef um hefði verið að ræða árás á hann. í frv., þá hefði honum verið gefinn kostur á að verja sig, eins og þeim Jóni Blöndal og Ingimar Jónssyni. — Hv. þm. Ísaf. hefur án efa fundizt þetta eitthvað þunnt hjá sér, því að hann bætti við, að Jón Blöndal og Ingimar Jónsson hefðu eftir langa mæðu fengið að gera athugasemd. Hvað viðvíkur þessari löngu mæðu, þá var hún ekki löng, því að þeir gerðu sínur athugasemdir í sömu vikunni og lögin komu, og mæða var það, hvernig fyrir þeim fór. — Svo var það viðvíkjandi hreyfingunni, hvort um var að ræða, eins og hv. þm. Ísaf. komst að orði, almenna hreyfingu og sérstaka hreyfingu (FJ: Og enga hreyfingu.), já, og enga hreyfingu. Í þessu tala staðreyndirnar, því að þegar til kon, þá var krafizt 20–30% grunnkaupshækkunar af mörgum aðilum, og svo leit út fyrir, að þessi krafa yrði almenn. — Stefán Jóh. Stefánsson sagði, að sér væri ókunnugt um nokkra hreyfingu í þessa átt. Annaðhvort hefur Stefán Jóh. Stefánsson ekki kynnt sér þetta sem skyldi, og hefur hann þá brugðizt trúnaði sínum, eða fullyrðing hans hefur verið út í loftið, og hvort tveggja er illt. Staðreyndin er, að hreyfing var hafin í þá átt að krefjast 20–30% grunnkaupshækkunar.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að aðferðir ríkisstj. í dýrtíðarmálunum hefðu verið mjög vítaverðar, því að alltaf hefði dýrtíðin hækkað. Þetta lendir jafnt á öllum, sem í ríkisstj. voru fyrir áramót, því að allar hækkanir fóru fram fyrir þann tíma, svo að Stefán Jóh. Stefánsson er jafnt ábyrgur fyrir öllu og við hinir. Sannleikurinn er, að grundvöllurinn fyrir þessum svikum er sá, að ríkisstj. vantaði sannfæringu um, að eitthvað af þessu væri í gerjun. Hvað viðvíkur Þjóðviljanum, þá vil ég efast um, að hægt sé að banna blöð, sem skrifa eins og Þjóðviljinn gerði, en ég vil vekja athygli hv. þm. Seyðf. og hv. þm. Ísaf. á að það var þeirra eigin flokkur, sem leiddi asnann í herbúðirnar.