26.02.1942
Neðri deild: 6. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (360)

4. mál, frestun bæjarstjórnarkosninganna í Reykjavík

*Finnur Jónsson:

Hæstv. fjmrh. vildi ekki gera neinn greinarmun á því, hvort maður segði, að engin hreyfing væri, engin sérstök hreyfin eða almenn hreyfing. Ef hæstv. fjmrh. hreyfir litla fingurinn, þá mundi ég ekki segja, að það væri almenn hreyfing á honum. En það er einmitt það, sem gerðist í kaupgjaldsmálunum um áramótin, að það var ekki nema litli fingurinn á alþýðusamtökunum, sem hafði hreyfingu fyrir grunnkaupshækkun, félög samtals 500 manna, sem gerðu kaupkröfur hér í Reykjavík, af sennilega 18 þús. manna, sem nú eru í Alþýðusambandinu. Það var þess vegna engin almenn hreyfing um grunnkaupshækkun, þó að ákaflega eðlilegt hefði verið, að hún hefði farið af stað seinna, eftir allt, sem hæstv. ríkisstj. hafði ýmist látið ógert í dýrtíðarmálunum eða þá gert til að auka dýrtíðina í landinu.

Hæstv. fjmrh. sagði, að þær ásakanir í garð ríkisstj., að hún hefði ekkert gert í dýrtíðarmálunum, skyllu á alla, sem setið hafa í ríkisstj. eða stutt hana fram að áramótum. Þetta er alls ekki rétt, og það veit hæstv. ráðh. vel. Ríkisstj. hefur hvað eftir annað, fyrst í júnílok í fyrra og seinna í nóvembermánuði, tekið við heimildum, sem þingmenn álitu, að hægt væri að nota allverulega til að halda dýrtíðinni niðri. Og þó að þessar heimildir hafi ekki verið stórar, eru þær stærri en hæstv. fjmrh. vill vera láta, Þær voru það stórar, að hæstv. ríkisstj. áleit í júnímánuði í fyrra, að þær mundu nægja nokkurn veginn. En það fékkst aldrei samkomulag innan ríkisstj. um að framkvæma þessar ráðstafanir. Hæstv. fjmrh., sem hefur einmitt gefið eftir tolla, vildi ekki gera það. Hæstv. atvmrh., sem hafði með fragtirnar að gera, gerði ekkert í því að takmarka þær. Hæstv. landbrh. leyfði hvað eftir annað hækkanir á landbúnaðarafurðum. Og hæstv. viðskmrh. hafði, að því er maður bezt veit, trassað hreinlega verðlagseftirlitið á álagi 4 erlendar vörur. (Fjmrh.: Og hæstv. félmrh. sat þetta allt af sér!) Félmrh. hafði einn þáttinn. Slík heimild var viðvíkjandi húsaleigumálunum, og það er líka sú eina dýrtíðarráðstöfun, sem til þessa hefur ver ið framkvæmd hér á landi.

Ég veit, að hæstv. fjmrh. er þetta allt vel ljóst. Og það eru sjálfsagt mannlegar afsakanir fyrir þessu öllu saman. En fyrir hinu er aftur engin mannleg afsökun, að grípa svo, þegar í óefni er komið, til alls konar óyndisúrræða, sem ekki á neinn veg halda niðri dýrtíðinni í landinu.

Út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði um grg. fyrir frv., þá þykir mér honum sem sérstaklega greinagóðum manni hafa ákaflega yfir skotizt. Hann kvað hinar svo nefndu grg., sem ráðh. fjórir fluttu í útvarpið, tveir fyrir l. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum og tveir fyrir l. um frestun bæjarstjórnarkosninganna, ekkert vera annað en sams konar grg. og fluttar eru á Alþingi. (Fjmrh.: Sagði ég þetta?) Já. (Fjmrh.: Ég sagði, að grg. tveggja ráðh. fyrir gerðardómsl. væru þessu samsvarandi). Og flutt eru fyrir l. á Alþingi? Já, aldeilis. Nú eru til tvenns konar grg. fyrir l. Annað er grg. fyrir brbl. og er alla tíð flutt í forsendum þess, sem gefur út lögin. (Fjmrh.: Þetta voru frumvörp.) Einmitt, og grg. er gefin af ríkisstjóranum, sem gefur út lögin. Ég ætla ekki, að það þurfi að lesa hér upp neina sérstaka grg., enda hef ég aðeins aths., en það liggja hér á borðinu fyrir framan mig líklega ein sex frv. til l. um staðfesting á brbl. Í hverju einasta þessara frv. er lagt fram fylgiskjal, þar sem í eru forsendur, sem ríkisstjórinn tekur upp í. þá grg., sem ríkisstj. hefur afhent honum sem réttmæta fyrir brbl. Þetta eru sams konar grg. og venjulega eru látnar fylgja aftan við þingskjöl, þegar lagafrv. eru lögð fram á Alþ. En „greipargerðir“ þessara fjögurra ráðh. eru aukagreinargerðir. Og það verður dálítið óvinsælt að fara í þskj. með persónulega ádeilu á einstaka menn. Og vitanlega er enn óforsvaranlegra að gera það í útvarpi, þar sem hinn aðilinn hefur enga möguleika til að svara fyrir sig. Ég man sérstaklega eftir ræðu hæstv. atvrh. um gerðardóminn. Hún var ekkert annað en taumlaus ádeila á Alþfl., ádeila, sem menn að jafnaði hefðu ekki viljað hafa í frammi í útvarpi, þó að einhver hefði verið til andsvara. Og viðvíkjandi því, að Stefáni Jóh. Stefánssyni hafi verið gefinn kostur á því að leiðrétta það, sem missagt var, þá er það alls ekki rétt, því að til þess hefði hann þurft a.m.k. jafnlangan tíma og þessir báðir ráðh. í útvarpinu. Hann vissi ekki, að til stæði að flytja þessar grg. í útvarpið, fyrr en eitthvað tveimur klukkustundum áður, og þegar hann fór fram á að láta í ljós skoðun sína einnig, þá var honum neitað um það. Ég veit, að hæstv. fjmrh. játar þetta vera rétt hermt.

Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn óþolinmóður, með því að hann hefur aðeins gefið mér aths. En að lokum bið ég hæstv. fjmrh., að næst þegar hann talar um grg. fyrir frv., þá blandi hann ekki saman grg. fyrir lagafrv. á Alþingi og þeim grg., sem ríkisstjóri tekur upp fyrir brbl.