13.04.1942
Neðri deild: 33. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. allshn. beindi til mín fyrirspurn, sem ég. átti að svara, en hann er nú ekki viðstaddur, svo að ég get ekki satt forvitni þessa hv. þm. Nú er hann kominn, og get ég því byrjað. Ég þarf í rauninni ekki miklu að svara.

Ríkisstjórnin hefur ekki séð ástæðu til þess að vera viðstödd við þessa umr. nema hvað hæstv. viðskmrh. hefur svarað með nokkrum orðum því, er ég talaði um verðlagseftirlitið, en hins vegar engu svarað gagnrýni minni á gerðardómnum. Eins og þeir vita, sem hlýddu á ræðu hv. frsm. meiri hl., þá kom hann lítið inn í þetta , mál og varaðist algerlega að koma nærri aðalatriðunum, hvað þá, að hann hafi geit nokkra tilraun til þess að hnekkja gagnrýni minni, en ég sýndi fram á, að lögin væru hvort tveggja í senn óframkvæmanleg og ranglát, og til þess eins fallin að halda niðri launum hinna lægst launuðu og verst stæðu í landinu.

Ég mun víkja síðar að hv. frsm., en ætla nú með nokkrum orðum að svara hæstv. viðskmrh. Hæstv. viðskmrh. kvartaði undan því, að ég hefði ekki lýst rétt afstöðu hans til kaupgjalds verkamanna í landinu. En ég held, að ráðherrann hafi ekki undan neinu að kvarta í því efni. Það er alkunna, að hann hefur gert hverja tilraunina af annarri til þess að plokka af verkamönnum fé til hinna svo kölluðu dýrtíðarráðstafana, en því miður hefur honum ekki verið eins umhugað um að ná stríðsgróðanum í sama augnamiði.

Ráðherrann sagði, að ég hefði verið með gífuryrði í garð bænda. Þetta er ekki rétt. Ég sagði, að heppilegra hefði verið að verðbæta afurðir bændanna heldur en að hækka þær upp úr öllu valdi.

Kjöt og mjólk ráða mjög miklu um vísitöluna eða allt að helmingi, það er því alveg augljóst, að bezta dýrtíðarráðstöfunin hefði verið að koma í veg fyrir hina miklu hækkun til almennings, en verðbæta þessar afurðir bænda úr ríkissjóði.

Ráðherrann hélt því fram sem sönnun þess, að landbúnaðarafurðir hefðu ekki hækkað um of í verði, að bændur streymdu nú til kaupstaðanna, þar sem kúgunarlögin væru í gildi. Þetta er alveg í samræmi við það, sem ég hélt hér fram. Hér er eftirspurnin eftir vinnuafli svo mikil, að greitt er miklu hærra kaup en lögin heimila og þau því óframkvæmanleg, en úti um land er eftirspurnin miklu minni og grunnkaupið lægra.

Þessi mismunur á kaupgjaldinu, samfara því, að hér eru lögin óframkvæmanleg, mótsett við það, sem er á útkjálkum landsins, gerir það að verkum, að bændur sem aðrir utan af landi flykkjast nú hingað. Ummæli ráðh. um flutning bændanna til Reykjavíkur eru því staðfesting á skaðsemi þessara laga.

Ráðherrann sagði, að Alþfl. hefði verið reiðubúinn til þess að vinna að því sama og stjórnin gerði, en án löggjafar. Þetta er ekki rétt. Alþfl. hefur aldrei unnið að því að halda niðri kaupi verkafólks í landinu, og mun aldrei gera það. Hins vegar er hitt sennilegt, að ef stjórnin hefði sýnt vilja sinn til þess að halda dýrtíðinni í skefjum, að þá hefði ekki komið til alm. grunnkaupshækkana, enda var það það, sem ráðherra Alþfl. sagði, að hann byggist ekki við verulegri hreyfingu í þá átt.

Ég hef haldið því fram, að verðlagseftirlitið hafi verið slælegt og það hafi farið úr böndunum snemma á árinu 1940. Ég held, að hæstv. viðskmrh. hafi ekki gert eða geri tilraun til þess að hnekkja þessu.

Hins vegar hélt hann því fram, að hann hefði ákaflega lítið vald yfir verðlaginu, en vildi bera því við, að fulltrúi Alþfl. í verðlagsnefndinni hefði ekki verið nógu skeleggur.

Ég veit ekki til þess, að Alþfl. eigi neinn fulltrúa í verðlagsnefndinni. Hins vegar á Alþýðusambandið þar 1 fulltrúa af 5. Það er dálítið einkennilegt af ráðherranum að koma nú fram og segjast ekki hafa nógu viðtækt vald til þess að ráða yfir verðlaginu, en á þinginu í fyrra; þegar sexmannanefndin vildi koma öllu verðlagseftirliti í landinu undir eina nefnd, var ráðherrann á móti því og sagði, að ríkisstjórnin hefði svo víðtækt vald yfir þessum málum, að ekki væri nein ástæða til þess að breyta til, en varhugavert að leggja inn á ný ja braut.

En það er þó ljóst, að þegar ráðherrann skoraðist undan því að taka við viðtækara valdi á þinginu í fyrra, en segir nú, að það hafi ekki verið nógu víðtækt, að annað hvort hefur valdið ekki verið nógu víðtækt, eða hann hefur svikizt um að framkvæma lögin.

Ég beindi þeirri fyrirspurn til ráðherrans, hvort hann hefði látið reikna út vísitölu verzlunarkostnaðar. Hann taldi öll tormerki á að reikna hana út, enda væri hún óþörf. Það er hins vegar ekki talið óþarft að búa til vísitölu yfir framfærslukostnað verkamannanna í landinu. Það er á engan hátt erfiðara að reikna út vísitölu yfir verzlunarkostnaðinn, inn í hana fellur ljós, hiti., húsaleiga, símakostnaður og kaupgjald. En ráðherrann taldi það óþarft. Þeir, sem verzla, mega frekar skapa sér sjálfir lífsskilyrði en þeir, sem taka laun.

Ráðherrann sagði enn fremur, að afkoma fél. KRON hefði ekki verið slík s.l. ár, að það benti til þess, að verzlunarálagning hefði verið of há. Um þetta vil ég segja, með allri virðingu fyrir þessu kaupfélagi, að þar kemur margt annað til greina. Félagið hefur með höndum ýmiss konar rekstur, óviðkomandi beinni smásölu, það leigir auk þess dýr hús. Afkoma þess er því alls ekki réttur mælikvarði á afkomu venjulegra verzlunarfyrirtækja.

Ég get látið þetta nægja til þess að svara hæstv. viðskmrh. við þessa umr. En það er eins og einhver sérstakur órói hafi gripið ríkisstj. undir umr. um þetta mál. Ráðherrarnir hafa aldrei sézt hér í deildinni, og er þó hér um að meðan frv., sem varðar meira lífsafkomu alls þorra þjóðarinnar en nokkurt annað frv., sem komið hefur hér fram lengi. Og það er ekki einungis, að komið hafi fram hörð gagnrýni frá stjórnarandstæðingum, heldur og einnig úr hópi stjórnarflokkanna. Ég man ekki eftir því, að sögð hafi verið harðari orð frá stuðningsmanni ríkisstjórnar en hv. sessunautur minn, þm. A.-Húnv., sagði hér í gær, er hann lét svo um mælt, að með þessari lagasetningu hefði ríkisstj. komizt meira en hálfa leið á þeirri braut að segja: „Ég vil ekkert þing.“ M.ö.o., úr stjórnarflokkunum er litið á þessi lög sem gerræði og einræðisbrölt, alveg á sama hátt og stjórnarandstæðingar gera.

Nv. þm. A.-Húnv. lét þess getið, og vitnaði þar til hæstv. forsrh., að hann hefði talið nauðsyn á að setja þessa löggjöf með bráðabirgðal., af því að hann (þ.e. ráðh.) hefði vantreyst þinginu til þess að afgr. slíkt lagafrv. Þetta er yfirlýsing, sem ekki er hægt að láta liggja í þagnargildi, frá einum af stuðningsmönnum núv. ríkisstj. Því að það er yfirlýsing um, að í rauninni sé ekki vilji núverandi stjórnarflokka fyrir þessu frv., þó að e.t.v. hv. þm. láti til leiðast að samþ. þetta frv., vegna þess að flokksstjórnirnar heimti af þeim, að þeir geri það. Ég hef ekki heyrt ömurlegri yfirlýsingu um þinghald hér í þessu landi þau ár, sem ég hef setið hér á þingi,. sem að vísu eru ekki mörg. Og ég hef ekki heyrt ömurlegri vörn af hálfu ríkisstjórnar í nokkru stórmáli en þá, sem fram hefur verið færð í þessu máli, þar sem hæstv. ríkisstjórn ber ekki við að reyna að svara fyrir sig, hvorki stjórnarandstæðingum né heldur stuðningsmönnum stjórnarinnar, þegar þeir koma hér nærri hálfgrátandi fram fyrir forseta og lýsa yfir, að þeir séu píndir og kúgaðir til þess að greiða atkv. með máli, sem þeir hefðu alls ekki léð lið sitt, ef það hefði komið í frumvarpsformi fyrst fyrir Alþ.

Ég veit ekki, hvort hv. frsm. allshn. er hér nærstaddur, en ef hann mætti heyra mál mitt, þá mundi ég nú víkja að þeim fyrirspurnum, sem hann bar fram til mín. Mér er svo vel við þennan ágæta þm., sem er úr sama landsfjórðungi og ég og hefur lengi verið samverkamaður minn á Alþ., að ég vildi gera allt, sem í mínu valdi stæði til þess að seðja hans fróðleiksfýsn, þegar hann kemur hér til mín, bljúgur og auðmjúkur, með fyrirspurn, sem ég er sannarlega umkominn að veita honum nokkra fræðslu um. Nú vildi ég þó óska þess, að þessi hv. þm. gerði mér nokkur sömu skil, ef ég kynni að leggja fyrir hann nokkrar spurningar, að hann þá gerði sitt bezta til þess að leysa úr þeim.

Hv. þm. Barð. var að spyrja mig að því, hvaðan ég hefði það, að dýrtíðin í Þýzkalandi hefði ekki vaxið nema um 5%. Ég get sagt honum það, að ég hef þær upplýsingar úr amerísku tímariti, sem heitir „hife“. Þar er talað um, hve mikið dýrtíðin hafi vaxið í hinum ýmsu löndum, og tók ég upp í mitt nál., að dýrtíðin hefði vaxið frá stríðsbyrjun til 1. október 1941 um 26% í Englandi, í Bandaríkjum N: Ameríku um 8,8°á og í Þýzkalandi um 5%. Nú má það vel vera, að Þýzkaland standi eitthvað sérlega nærri hjarta þessa hv. þm., þótt ég hafi ekki orðið þess var fyrr en e.t.v. nú upp á síðkastið, þannig að Hann hefur einkum fest sig við hækkun dýrtíðarinnar í Þýzkalandi, en ekki minnzt á, að í nál. mínu er einnig talað um dýrtíðarhækkunina í Bandaríkjunum og Englandi.

Þessi sami hv. þm. spurði mig áður, hvað það væri sérstaklega, sem ég hefði óskað eftir, að framkvæmt yrði hér á landi eitthvað í samræmi við verðlagseftirlitið í Þýzkalandi. Og ég hygg, að ég hafi sagt honum þá, að ég hefði óskað eftir, að tekin hefði verið upp sama regla um verðlagseftirlitið hér eins og þar, að reikna dýrtíðaruppbót fyrir verzlanirnar og leyfa álagningu á vörur eftir því á einingu vörunnar, en ekki eftir hundraðstölu, eins og hér hefur verið gert. Og ef slíkt fyrirkomulag hefði verið haft hér frá öndverðu, þá hygg ég, að verðlagseftirlit ríkisstj. hefði getað orðið nokkru meira virði fyrir almenning í landinu heldur en raun hefur á orðið. Annað mál er, að ég hefði ekki óskað eftir því, og ég hef hallmælt ríkisstjórninni fyrir það, að ríkisstjórnin hefur farið sömu leið í verklýðsmálum eins og Þjóðverjar hafa farið. Þar skilur mikið á milli hæstv. ríkisstjórnar og mín og ég held líka hv. frsm. allshn., þó er ég ekki viss um það. Hann hefur í nál. fært það fram sem ástæðu fyrir því, að það ætti að samþ. þessi l., að þau ættu ekki að gilda nema til ársloka 1942. Og ég hef skilið það svo, að hann álíti þetta ekki neina réttláta framtíðarlöggjöf, þótt hann hafi farið inn á þá leið, e.t.v., með hv. þm. A.-Húnv. (JP) og öðrum, sem eru ekki sérstaklega ánægðir með þessa löggjöf, að gefa kost á að mæla með því, að þessi löggjöf yrði látin standa þetta ár.

Ég held, að ég hafi með þessum fáu orðum leyst í aðalatriðum úr þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. Barð. bar fram til mín. Og ég veit, að hann er svo skýr og greinagóður, að hann misskilur mig ekki á einn eða neinn hátt. Og ég veit, að hann er. mér svo velviljaður, að hann muni ekki gera tilraun til að mistúlka þetta á nokkurn hátt. Þó að ég bendi á leiðir, sem Þjóðverjar hafa farið í verðlagseftirliti, og að þær geti verið til fyrirmyndar, þá mundi hann ekki segja, að ég sé nazisti, þegar ég jafnframt bendi á, að þær leiðir, sem Þjóðverjar hafa farið í verklýðsmálum, eru til viðvörunar, en ekki eftirbreytni, þó að íslenzka ríkisstjórnin hafi, illu heilli, glæpzt til að fara inn á þær ósæmilegu, skaðlegu og óréttlátu leiðir. (JGM: Eru verklýðsfélög í Þýzkalandi?). Það er efni í heilan fyrirlestur, sem ég gæti haldið fyrir hv. 6. þm. Reykv. við tækifæri. En það er máske eitt af því, sem borgarstjórinn hér í Reykjavík hefur tekið sér til fyrirmyndar, þegar hann var á ferðalagi — kannske á kostnað háskólans — úti í Þýzkalandi, að hann hafi hugsað sér að reyna að koma á sama skipulagi í verklýðsfélagsmálum hér eins og er í Þýzkalandi, að búa til eins konar félög atvinnurekenda úr verklýðsfélögunum.

Það er ekki rétt, að ég hafi á neinn hátt reynt að þæfa þetta mál eða tefja fyrir því. Ég talaði að vísu hér í minni frumræðu í 2 tíma og 10 mínútur. En þegar þess er gætt, að enginn minna flokksmanna hefur talað annað við þessar umr. og mér þykir ekki líklegt, að þeir geri það, þá er ákaflega fjarri því, að hægt sé að halda fram með neinum rökum í slíku stórmáli, að það sé að þæfa mál eða tefja, þó að haldin sé í því allýtarleg framsöguræða, ekki sízt, ef þessar umr. gætu orðið til þess að beina einhverjum hv. þm. úr stjórnarliðinu inn á þá braut að koma fram einhverri gagnrýni á þessu óþurftarmáli, sem hér liggur fyrir. Ég skal ekki segja, hvað mér hefur orðið ágengt í þessu. En þó heyrði ég það á hv. þm. Barð. áðan, að ég virðist hafa fengið hann til að samsinna því með mér, að það sé hreinasta rangnefni á l. þessum að kalla þau gerðardómsl. Enda veit ég það, að það er almennt álit þjóðfélagsþegnanna, að eins og þessi dómur er skipaður, þá sé það beinlínis brot á allri réttarvenju um gerðardóma að kalla l. þessi því nafni. Það er að vísu ákaflega lítið unnið við það að fara að fá nafninu breytt. En þó felst í þessu viðurkenning á því, að hæstv. ríkisstjórn hafi sett þessi bráðabirgðál. að illa athuguðu máli, svo að ekki se meira sagt. Því að fyrsta krafan til hæstv. ríkisstj., er setur bráðabirgðal., ætti að vera sú, að forminu sé að mestu leyti fullnægt. En með viðurkenningu hv. þm. Barð. á því, að það muni vera réttara að kalla frv. einhverju öðru nafni en gerðardóm, er það játað, að forminu sé ekki fullnægt á þessu frv. Sem sagt, ríkisstjórnin hefur gert þá reginvillu í fyrstu að bera fram alveg óformleg bráðabirgðal. Þetta skiptir vitanlega ekki miklu máli um innihald l. En það sýnir aðeins vinnubrögðin í hæstv. ríkisstjórn, sem er með lögfræðing sér við hlið og vanan lögreglustjóra sem forsrh., að mál, sem varðar allan almenning og er borið fram sem bráðabirgðal., sé ekki einu sinni borið fram, í því formi, að þjóðfélagsþegnarnir í landinu, sem annars eru með opin augu og nokkurn veginn heilbrigðri dómgreind, geti talið, að það sé forsvaranlegt.

Hv. þm. Barð. sagði, að ég hefði ekki hrakið neitt af því, sem hann sagði í frumræðu sinni. þetta má vel vera rétt. En það er þá bara af því, að hann hefur ekki sagt neitt í frumræðu sinni. Hann reyndi ekki að færa nein rök fyrir því, að þessi l. væru réttlát, og því síður rök að því, að þau væru framkvæmanleg. Og ég veit, að í þeirri ræðu, sem hann heldur væntanlega hér á eftir, gerir hann heldur enga tilraun til þess, af því að honum er kunnugt um það, að það er ekki hægt að færa nein rök fyrir þessu. Bráðabirgðal. hafa nú verið í gildi um 3 mánuði. Og á þeim tíma hefur það komið í ljós, að þar sem nokkur eftirspurn er eftir vinnu, eru þau óframkvæmanleg. Þar sem lítil eftirspurn er eftir vinnu, eru þau ranglát, því að þau koma í veg fyrir, að fátækustu mennirnir, sem hafa lægst grunnkaup, geti bætt kjör sín.

Hv, þm. Barð. sagði í ræðu sinni, að það væri einkennilegt, að ég skyldi hafa gengið fram hjá því atriði í ræðu hans að minnast á gengismálið frá 1939. Á því ári hefði verið þjappað ákaflega mikið að verkafólki. Það hefði í aflaleysisári verið lögboðið, að ekki mætti greiða fulla dýrtíðaruppbót o.fl. og fólkið hefði þá staðið sannarlega verr að vígi með að fá slíka löggjöf 1939 heldur en nú á árinu 1942. Og þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Barð. En það er þó við þetta að athuga, að þegar gengisbreytingarl. voru sett, álitum við, sem fluttum þau, — og ég vissi ekki annað en að flestir stjórnarliðarnir einnig álitu hið sama, — að hallærisástand væri í landinu. Það þurfti að gera eitthvað til þess að atvinnuvegirnir gætu haldið áfram. Það var leitað ýmissa leiða; það var búið að athuga þær í milliþn. Og það fékkst ekki samkomulag um aðra leið en þá, sem farin var. Frá hendi Alþfl. var því haldið fram, að það mætti reyna uppbótarleiðir. En það taldi flokkur hv. þm. Barð. alveg ófæra leið. Hann vildi heldur fara hina, gengislækkunarleiðina. Og samfara því var svo sett löggjöf um það, að ekki mætti greiða fulla dýrtíðaruppbót, en slagur stóð um það milli alþfl. annars vegar og Framsóknarfl. og Sjálfstæðisflokksins hins vegar, hver uppbótin skyldi vera. Og í þessari löggjöf var líka ákveðið, fyrir harða baráttu Alþfl., að það skyldi greiða dýrtíðaruppbót, að vísu ekki fulla. Þegar þessi löggjöf var sett, voru mjög mörg félög, sem ekki höfða neina möguleika til þess að segja upp samningum sínum, þannig að þó að löggjöfin kreppti að mönnum á vissan hátt, þá gaf hún líka fátækari félögum möguleika til að fá dýrtíðaruppbót, að vísu lága, en þó dýrtíðaruppbót, sem er ákaflega hætt við, að þau hefðu ekki fengið að öðrum kosti, og alls ekki ef Framsfl. og Sjálfstfl. hefðu verið einráðir. Nú er það svo, að þó að það hafi verið gert sem neyðarráðstöfun gegn yfirvofandi hallærisástandi að kreppa nokkuð að rétti verkalýðsfélaganna, þá er ákaflega fjarri því, — og ég bið hv. þm. Barð. að leggja sér það vel á minni —, að til þess sé nokkur réttur né heldur þörf á þessum tímum. Og ef það er nú svo, að við höfum báðir, ég og hv. þm. Barð., gert verkafólkinu órétt 1939, mundi það þá. ekki vera sjálfsögð skylda okkar að gera það, sem í okkar valdi stendur til þess að bæta úr þessum órétti. Ég hef beztu trú á réttlætiskennd þessa hv. þm., ef hann er ekki blindaður af flokksofstæki eða honum bannað að hafa skoðun á málinu. Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að hann vilji ekki, ef hann finnur nú sárt til þess, að við höfðum í sameiningu gert verkalýðnum órétt 1939, gera nokkra leiðréttingu á þessu ásamt mér og öðrum, sem eru á móti þessu frv. Ég trúi því ekki, að það samrýmist drengskap og réttlætiskennd þessa hv. þm., ef honum finnst hann hafa gert rangt árið 1939, að vilja nú bæta gráu ofan á svart og endurtaka óréttlætið, þegar atvinnuvegirnir eru góðir og peningarnir miklir í landinu, og þrengja nú enn að kosti verkamanna einungis til hagsbóta. fyrir stríðsgróðamennina í landinu.

Hv. þm. Barð. vildi segja það, að skýringin á því, að við Alþfl.-menn, og þar með ég alveg sérstaklega, hefðum gerzt flutningsmenn þessa gengislækkunarfrv. 1939, hefði verið sú, að það hefði staðið til þá að mynda þjóðstjórn. Við hefðum, eftir hans orðalagi, viljað kreppa að hag verkalýðsins til þess að geta komizt í þjóðstjórn. En nú segir þessi hv. þm., að við í Alþfl. viljum halda uppi rétti verkalýðsins, að mér skildist, til þess að geta komizt úr þjóðstjórninni. Ef það hefði verið einhver freisting fyrir okkur til þess að fara í þjóðstjórnina 1939 og við hefðum viljað fórna hag verkalýðsins til þess, þá finnst mér ekki ólíklegt, að við hefðum, til þess að geta verið kyrrir í þjóðstjórninni, enn þá viljað gera það, sem nú er verið að gera, viljað fórna hag verkalýðsins fyrir hag nokkurra stórgróðamanna. En mér virðist þarna skilja á milli Alþfl. og Framsfl. Alþfl. gekk inn á gengislækkunina 1939 af illri nauðsyn vegna hallærisástands. En þegar ástandið er það breytt sem það nú er, gerir Alþfl. þá kröfu til hinna flokkanna, að þeir lofi verkalýðnum að ráða sínum málum, gefi verkalýðnum tækifæri til þess að rétta hlut sinn, eins og verkalýðurinn á sannarlega rétt á að gera. Það vill svo vel til, að Alþfl. hefur gert tilraun til þess að rétta við hag verkalýðsins, einnig á annan hátt heldur en þann að standa á móti þessu lagafrv. Á ég þar við gengishækkunarfrv. Alþfl. Og formaður Sjálfstfl., stærsta stjórnmálafl. landsins, hefur látið svo um mælt í júlí í fyrra, að það væri siðferðisleg skylda þeirra, sem höfðu hag af gengislækkuninni 1939, að skila nú gengisbreytingarhagnaðinum með því að hækka gengið aftur a.m.k. í sama horf. Og þessi ágæti og drenglyndi formaður Sjálfstfl. hefur lýst þessu yfir hér í þingsölunum. Ég fyrir mitt leyti trúi ekki öðru, nú þegar togarasölur eru enn hærri en þær voru, þegar hann gaf þessa yfirlýsingu, en að hann leggi nú alla stund á að skila þessari hjálp aftur, sem hann og ýmsir á hans vegum fengu árið 1939. Ég trúi ekki, að hann hafi verið að gefa þessa yfirlýsingu í trausti þess, að Bretar settu bremsur fyrir skilsemi hans í þessu efni, heldur sé yfirlýsingin gerð af athuga og drenglyndi, og að það sjáist næstu daga, að Sjálfstfl. beiti sér fyrir því með Alþfl. að gera ráðstafanir til þess að færa gengið í hið fyrra horf. Ég er þessarar trúar því öruggari, þar sem ýmsir úr hans flokki, svo sem bæði hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Sk. og jafnvel fleiri úr hans flokki, töluðu þá mjög mikið um nauðsyn þess að breyta genginu til betri vegar.

Ég vildi svo í sambandi við dýrtíðina og kaupgjaldið til frekari upplýsinga geta þess, að mér er tjáð, að síðan stríðið byrjaði, hafi kaupgjald í Bandaríkjunum hækkað um 25%, en á sama tíma hefur dýrtíðin hækkað þar um 8,8%. Þegar maður athugar þetta, og svo hitt, að dýrtíðarvísitalan fór hér úr 57, sem hún var í 1. júlí í fyrra, upp í 83% til ársloka, þá hygg ég, að það sé augljóst, að það fer alls ekki endilega saman hækkun á kaupgjaldi og hækkun á dýrtíðinni.

Það er þess vegna ekkert annað en skammsýni, þegar stj. ræðst á kaupgreiðslurnar, eins og hún hefur gert með þessum bráðabirgðal., en lætur dýrtíðina halda áfram að vaxa.

Ég hef getið þess áður, að ég teldi þessa löggjöf hvort tveggja í senn, óframkvæmanlega á vissum stöðum í landinu, en rangláta þar, sem hún væri framkvæmanleg. Ég hef bent á það, að þessi löggjöf yrði brotin á hverju einasta heimili á landinu, þar sem nokkur þörf er á að ráða vinnufólk eða kaupafólk. Það þarf enginn að segja mér það, að nokkur maður, sem þarf á vinnuaðstoð að halda, láti það standa fyrir ráðningu fólks, hvort hann borgar nokkrum krónum hærra 1942 heldur en 1941, og þegar af þeirri ástæðu, að þessi löggjöf, ef hún verður samþ., verður brotin á hverju einasta heimili á landinu, sem þarf á vinnufólki að halda, er hím óframkvæmanleg og siðspillandi, því að það hlýtur að vera viðurkennt af öllum hv. alþm., sem vilja hugsa um sitt starf, að það er, eins og hæstv. atvmrh. orðaði það í sumar, hrein skaðsemi að setja l., sem vekja mótþróa alls þorra landsmanna, og ég álít það vera skaðsemi að setja löggjöf, sem alþm. vita fyrirfram, að verður brotin af öllum, sem geta og þurfa að brjóta hana. Þá er og vitað, að svo að segja hver einasti iðnrekstur í bænum hefur brotið þessi l., eins og ég hef nefnt mörg dæmi um. Þó að þau séu ekki nema 3ja mánaða gömul sem bráðabirgðal., þá dettur engum manni í Reykjavík í hug að fara eftir þeim. Það kann að vera, að ríkisfyrirtækin séu ekki enn þá farin að ganga í berhögg við hana. Þó er mér kunnugt, um, að stjórnendur ríkisspítalanna hafa snúið sér þessa dagana til hæstv. forsrh. og sagt við hann: „Við verðum að fá að vera einráðir um að semja við hjúkrunarfólkið á geðveikrahælinu á Kleppi. Annars fer allt fólkið í vor, og það verður að loka Kleppi.“ Það mætti þá kannske flytja Klepp í þinghúsið, ef honum yrði lokað þar inn frá. Vegamálastjóri hefur hækkað grunnkaup uppi í Borgarfirði, sem var í fyrra kr. 1.00 og 1.10 og upp í 1.30, og þegar ríkisstofnanirnar ganga á undan í því að brjóta gerðardómsl., þar sem þess þarf, má nærri geta, hvað aðrir gera.

Nú mun kannske vera sagt, að fyrst þessi l. séu brotin, hvernig þau geti þá verið kúgunarl., en þetta getur vel samrýmzt. Þau eru kúgunarl. að því leyti, að lægst launuðu verkamennirnir, þeir, sem eru úti á útkjálkunum, þar sem engin eftirspurn er eftir vinnuafli, þeir verða fyrir barðinu á þessum l., og þar verður farið eftir þeim. Þar er grunnkaupið lægst. T.d. er það verkalýðsfélagið Jökull í Ólafsvík, þar er kaupið kr. 1.10, í Súgandafirði 1.10, í Hnífsdal 1.10, á Drangsnesi 1.00, á Blönduósi 1.10, á Skagaströnd 1.10, í Grenivík 1.10, hjá verkamannafélaginu á Vopnafirði 1.10, á ráskrúðsfirði 1.10, á Djúpavogi 1.10. Alls eru þetta 10 félög með um 900 menn, útkjálkafélög, þar sem engin eftirspurn er eftir vinnu. Takið þið eftir, góðir alþm. Hvað eiga þessir menn að gera? Þeir hafa alls ekki stöðuga vinnu, en það lægsta grunnkaup, sem til er á landinu. Þeir gætu sennilega komizt nú að samkomulagi við atvinnurekendur um grunnlaunahækkun, sennilega fengið kaup upp í 1.20–1.30, ef það væri frjálst, en þeim er bannað það með gerðardómsl. Á þessum mönnum koma gerðardómsl. niður. Þau koma niður á fátækum mönnum á útkjálkunum. Ég hef áður lýst því, að auk þess eru 9 félög með samtals 1100 félagsmenn, sem hafa 1.20 í grunnkaup. Hverjum dettur í hug að koma fram á Alþ. og halda því fram, að það væri þjóðarógæfa, að þessir fátæku menn á þessum afskekktu stöðum fengju hækkun á grunnkaupi? Getur hv. frsm. allshn. komið. og. sagt, að þessir 2000 verkamenn, sem lifa á takmörkum sultar og sveitar, megi ekki fá grunnkaup sitt hækkað? Getur hann neitað því, að ef þessir menn vilja fá kjör sín hætt undir núverandi löggjöf, þá sé eina ráðið fyrir þá að flytja frá heimilum sínum og fara í Bretavinnu? Ég hef ekki heyrt nokkurn mann mótmæla þessu. Ég skora á hv. frsm. að reyna að mótmæla þessu með rökum. Ég hef reynt að svara spurningum hans, og nú vil ég spyrja hann: Er þingið með því, þar sem sagt er í l., að gerðardómurinn megi færa til grunnkaup til lagfæringar og samræmingar, að segja, að grunnkaup þessara manna, sem minnsta hafa vinnu og lægst laun, megi verða a.m.k. í samræmi við grunnkaup annars staðar á landinu, og má gerðardómurinn gera það? Ég er ekki að spyrja fyrir sjálfan mig, en ég er að spyrja fyrir fjölda verkamanna úti um allt land, sem nú hafa við lélegust kjör að búa, lægst laun og minnsta vinnu, sem þekkist hér á landi. Því miður er ekki sennilegt, að þetta verði gert. Verkamennirnir verða að gera eitthvað sjálfir, og þarf sennilega mikið átak til þess, að þeir lægst launuðu fái nokkrar breyt. til bóta á kaupgjaldi sínu. Og þangað til annað er upplýst, verð ég að álita, að þessi bráðabirgðal. og þetta frv. komi alveg í veg fyrir, að þeir lægst launuðu geti fengið launum sínum breytt til bóta nokkurn skapaðan hlut. Og þó að ég hafi fyllstu vantrú á þessu, vil ég enn á ný skora á hv. frsm. meiri hl. að leysa úr þessum spurningum. Hann hefur boðað brtt. við þetta frv., og ef hann vilt útbúa þær brtt. af einhverri réttsýni, þá vil ég biðja hann að taka til alvarlegrar athugunar fyrir samvizku sinni, hvort hann vill ekki haga þeim brtt. þannig, að ekki verði gert upp á milli þeirra, sem framleiða vöruna, og þeirra lægst launuðu, sem selja vinnu sína. Þar sem stj., og sérstaklega blað Framsfl., hefur alltaf verið að tala um, og það með rétti, hversu skaðvænlegt það sé, að fólkið sé að flýja sveitirnar, þá er það greinilegt, að löggjöf, sem t.d. bannar að hækka kaup í vegavinnu og kaup í kaupavinnu á sama tíma, sem vitað er, að eftirspurnin eftir vinnuafli er búin að brjóta niður þær skorður, sem stj. ætlaði að setja með þessari löggjöf, þá er augljóst, að slík löggjöf miðar að því að reka fólkið beinlinis utan af landsbyggðinni og hingað, þan sem eftirspurnin er mest eftir vinnuafli. Ég vil spyrja hv. frsm: Er þetta í fullu samræmi við stefnu Framsfl.? Er það virkilega stefna Framsfl. að vilja vitandi vits, eftir að þessi l. eru búin að gilda í 3 mánuði, reka fólkið með þessari vitlausu löggjöf úr sveitunum til Reykjavíkur?

Læt ég svo útrætt um þetta að sinni, en og vænti þess fastlega, af því að ég varð svo góðfúslega við því að leysa úr spurningum hv. þm. Barð., að hann leysi að einhverju leyti úr mínum spurningum og ræði þetta mál með þeim rökum, sem ég veit, að hopum er ljóst, að hann þarf að teygja fram, ef hann ætlar að leggja þetta mál undir óvilhallan dómstól almennings.