26.03.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Skúli Guðmundsson:

Um nokkur undanfarin ár hefur verið útvarpað frá sameinuðu Alþingi 1. umr. um fjárlagafrv. Fróðlegt er að athuga í þingtíðindunum, hvernig tónninn hefur verið í þeim umr. á undanförnum árum, og vil ég fara um það nokkrum orðum.

Eins og kunnugt er, fór Framsfl. með fjármálastjórnina á árunum 1935–1938, áður en þjóðstjórnin kom til valda. Á þeim árum fluttu sjálfstæðismenn harðar ádeilur á fjármálastjórnina. Lögðu þeir höfuðáherzluna á það, að skattarnir og tollarnir væru að sliga þjóðina, fjárlögin færu síhækkandi, umframgreiðslur væru miklar og fé ríkisins væri eytt í óþarfa í stórum stíl. Við 1. umr. fjárl. á Alþingi 1938, sagði ræðumaður Sjálfstæðisflokksins, að enn hefði „hæstvirtum fjármálaráðherra tekizt að bera fram hæsta fjárlagafrumvarp, sem komið hefur fram á Alþingi.“ Hann talaði um háa skatta og tolla og lauk ræðu sinni með þessum orðum:

„Það er að verða ljósara og ljósara, að það er engum flokki hér á landi trúandi í opinberum málum nema Sjálfstæðisflokknum:

Á því sama þingi, einnig í umr. um fjármálin, lét einn af fulltrúum Sjálfstfl. í fjárveitinganefnd svo um mælt:

„En ég held því hins vegar fram, að það sé áreiðanlega unnt að spara mjög miklar fjárhæðir einmitt á þeim liðum að fækka starfsmönnum ríkisins og lækka laun þeirra.“

„Ég fullyrði, að unnt sé að fækka starfsmönnum ríkisins í stórum stíl“

Í útvarpsumr. um fjárlagafrv. á þinginu 1939 talaði ræðumaður Sjálfstfl. eins og áður um hækkandi útgjöld og fullyrti, að mikið af hækkun gjaldanna á undanförnum árum hefði verið óþarft. Hann talaði um mikla starfsmannafjölgun og miklu hærri laun en áður. Hjá þeim hv. þm. Bændafl., sem tók þátt í þeim umr., kvað mjög við sama tón.

Það er öllum kunnugt, að á þessum árum héldu stjórnarandstæðingar einnig uppi í blöðunum mjög hörðum ádeilum á Framsfl. fyrir meðferð hans á fjármálunum.

Ég ætla ekki að fara að rifja hér upp mikið af þessum blaðaummælum, en vil þó benda á örfá sýnishorn af þeim dómum, sem þar voru flesta daga ársins upp kveðnir um fjármálastjórn framsóknarmanna. Í Morgunblaðinu l6. febr. 1937 segir svo:

„Ríkið ver nú árlega yfir 5 milljónum króna til starfsmannahalds. Ríkisstjórnin getur ekki hugsað sér, að unnt sé að koma við sparnaði á þessu rándýra starfsmannahaldi. Hún segir: Ef tollar eða skattar verða lækkaðir, verður það að ganga út yfir hinn litla og takmarkaða stuðning til atvinnuveganna, sem á fjárlagafrumvarpinu er, svo og verklegar framkvæmdir. Þessari fjármálastefnu mótmælir þjóðin kröftuglega. Hún krefst þess, að ríkið spari hin ónauðsynlegu útgjöld, sem aðeins eru byrði á atvinnuvegunum. Hún krefst sparnaðar á hinu rándýra starfsmannahaldi, sem nú er á góðum vegi með að sliga ríkið.“

30. apríl 1938 segir Morgunblaðið:

„Þjóðinni er lífsnauðsyn, að stefna sjálfstæðismanna í fjármálum ráði. Ríkið verður að spara. Fyrir því hafa sjálfstæðismenn alltaf barizt.“

Í öðru aðalblaði Sjálfstfl., Visi, segir svo 27. maí 1937:

að stjórnin hafi „haft það markmið eitt að reyta sem mestar tekjur ríkissjóðinn og rýja almenning, til þess að geta alið sem bezt gæðinga sína og goldið þeim. margföld laun fyrir skemmdarstarf þeirra.“

Hér eru þungar ásakanir fram bornar, og lesendur blaðanna þekkja það, að slík gífuryrði og önnur enn meiri voru daglegt brauð í blöðum stjórnarandstæðinga á þessum árum. Þeir menn, sem bera fram slíkar ádeilur, hafa vissulega tekið á sig þann vanda að gera betur sjálfir, þegar þeir taka að sér stjórnarstörfin.

Þegar þjóðstjórnin kom til valda, í aprílmánuði 1939, sagði annað aðalblað sjálfstæðismanna, Vísir, að þau árin, sem Framsfl. fór með völdin, hefði botninn í ríkissjóði verið suður í Borgarfirði, og það væri hlutverk hinnar nýju stjórnar að koma honum aftur í laggirnar.

Nú hefur svo farið, fyrir rás viðburðanna, að miklu meira fé hefur komið í ríkissjóðinn en nokkru sinni fyrr, en hitt er vafamál, hvort svo vel hefur tekizt að koma botninum í laggirnar, að ílátið sé orðið alveg lekalaust. Kem ég að því síðar.

En hvernig var þá afkoma ríkisins á þessum árum, 1935–1938, þegar Framsfl. fór með fjármálastjórnina og varð fyrir miklum árásum fyrir stjórn þeirra mála, eins og hér hefur verið vikið að? Um þetta liggja fyrir upplýsingar í ríkisreikningum þessara ára. Þessi ár, 1935–1938, voru erfið að því leyti, að vegna aflatregðu og söluerfiðleika á útflutningsvörunum varð að takmarka verulega innflutning á vörum frá öðrum löndum. Afleiðing þess varð sú, að tekjur ríkisins urðu miklu lægri en ella hefði orðið. Þrátt fyrir þetta varð útkoman af ríkisrekstrinum sú, að tekjuafgangur varð á ríkisreikningi öll árin, að vísu lítill 1936. Mestur varð tekjuafgangurinn 1938, 1 millj. 764 þús. kr. Að meðaltali varð tekjuafgangurinn á þessum 4 árum um 800 þús. kr. á ári. Til samanburðar má geta þess, að næstu 3 árin á undan, 1932–1934, var rekstrarhalli á ríkisreikningi öll árin, mestur 1934, 1 millj. 912 þús., en að meðaltali þessi 3 ár um það bil l millj. 170 þús. kr. á ári.

því 4 ára tímabili, 1935–1938, sem Framsfl. fór með fjármálastjórnina, hækkuðu hreinar eignir ríkisins, samkv. ríkisreikningum þessara ára, um hér um bil 3 millj. 700 þús. kr.

Það getur vel verið, að þegar litið er til þeirrar miklu peningaveltu, sem nú er í landinu, þyki sumum mönnum ekki mikið til þess koma, þó að ríkissjóður hefði um 800 þús. kr. tekjuafgang að meðaltali á ári, 1935–38, og að hreinar eignir ríkisins hækkuðu skv. ríkisreikningum um hátt á fjórðu milljón króna á þessu tímabili. Ég vil þó vekja athygli á því, að þetta voru allmiklar fjárhæðir á þeim tímum, og þurfti mikla aðgætni til að ná svo góðum árangri. Og einmitt á þeim árum var lagður grundvöllur að þeirri löggjöf, sem hefur gefið ríkissjóði þessar miklu tekjur síðustu tvö árin, 1940 og 1941.

Það, að þannig tókst að gera betur en að halda í horfinu á árunum 1935–1938, þrátt fyrir erfiðleikana, sem ég áður hef minnzt á, var því að þakka, að þá voru teknar upp nýjar aðferðir við afgreiðslu fjárl. á Alþingi og reynt eftir megni að fylgja ákvæðum. fjárl. Þær starfsaðferðir, sem þá voru við hafðar, voru í höfuðatriðum þessar:

1) Við afgreiðslu fjárl. var komið á fullkomnum samtökum þess þingmeirihluta, sem studdi stefnu ríkisstjórnarinnar.

2) Þau ein lög voru samþykkt um útgjöld úr ríkissjóði, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og tekjur voru áætlaðar á móti, og takmarkað var, hverju mætti verja úr ríki,sjóði til lögbundinna gjalda.

3 ) Ábyrgðir ríkissjóðs voru takmarkaðar, og sú regla tekin upp að ábyrgjast ekki lán til mannvirkja eða fyrirtækja, nema áhættufé væri lagt fram af þeim, sem lán tóku til framkvæmdanna.

4) Tekin var upp sú regla. að láta skrá yfir starfsmenn ríkisins og laun þeirra fylgja fjárlögunum, til þess að Alþingi fengi yfirlit um launagreiðslurnar og betri aðstöðu til að vinna að samræmingu þeirra og koma við nauðsynlegu aðhaldi.

5 ) Útgjöld fjárl. voru áætluð sem næst því, er mátti búast við að þau yrðu, og jafnframt gerðar margs konar ráðstafanir til þess að draga úr því, að greiðslur úr ríkissjóði færu fram úr áætlun fjárl. og til þess að skapa aukið aðhald um framkvæmd þeirra.

6) Kappkostað var við afgreiðslu fjárl. og með löggjöf að styðja framleiðsluna og auka þar með greiðslugetu landsmanna.

Nú kann einhver að spyrja að því, í hvaða tilgangi ég sé að tala hér um fjármálastjórnina og afkomu ríkissjóðs á árunum 1935—1938 og rifja upp ummæli frá þeim árum um stjórn framsóknarmanna á fjármálum ríkisins. Ég tel ekki aðeins eðlilegt, heldur beinlínis skylt, að tekið sé til athugunar, hvort reynslan, sem síðan hefur fengizt, bendi til þess, að sú harða gagnrýni, er stjórnarandstæðingar þá héldu uppi, hafi verið á sanngirni og rökum byggð. Það er mjög sennilegt, að ýmsir menn í landinu hafi trúað þeim margendurteknu fullyrðingum stjórnarandstæðinga á þessum árum, þótt órökstuddar væru, að framsóknarmenn eyddu stórum fjárhæðum af ríkisfé í óþarfa, og að á þessu mundi verða breyting til batnaðar, ef aðrir menn tækju að sér yfirstjórn fjármálanna. Vegna þeirra manna, sem kunna að hafa lagt trúnað á þetta, og einnig vegna annarra landsmanna, er skylt að benda á það, hvað reynslan hefur sýnt í þessu efni, til þess að menn geti dregið af því réttar ályktanir.

Til þess að komast að réttri niðurstöðu í þessum málum, þarf að athuga, hvort breytingar hafa verið gerðar síðan framsóknarmenn létu af fjármálastjórninni, sem stefni til lagfæringar á þeim hlutum, sem áður var talið, að væru í ólagi. Hafi engar slíkar breytingar verið gerðar, er ekki hægt að draga af því aðrar ályktanir en þær, að annaðhvort hafi gagnrýnin ekki verið réttmæt eða að ekki hafi verið framkvæmt það, sem skylt var.

Hvað er þá að segja um breytingar á þeim hlutum, sem áður var mest að fundið? Haft skattarnir og tollarnir verið lækkaðir? Um skattana er það að segja, að á Alþingi 1941 var gerð nokkur lækkun á skatti af lágum tekjum og miðlungstekjum. Var þetta einkum framkvæmt með svonefndum „umreikningi“ á tekjum einstaklinga. Þetta var mögulegt vegna þeirrar almennu hækkunar á tekjum landsmanna, sem rá var komin fram. Hins vegar var á því þingi, með l. um stríðsgróðaskatt, hækkaður skattur af háum tekjum, svo að skattur af þeim til ríkisins er nú hærri en nokkru sinni áður, og er gert ráð fyrir, að þar verði frekar aukið en úr dregið á þessu þingi. Tollarnir eru áreiðanlega hærri nú en þeir voru á árunum 1935–1938. Samkvæmt núgildandi l. eru tollar reiknaðir eigi aðeins af innkaupsverði vörunnar, heldur einnig af farmgjöldunum. Hæstv. fjmrh. fékk heimild strax á þinginu 1939 til þess að draga frá farmgjöldunum þá hækkun, sem stríðið hefur valdið, áður en tollar væru reiknaðir af þeim. En hæstv. fjmrh. hefur ekki notað þessa heimild, og hafa tollarnir m.a. þess vegna orðið miklu hærri en áður.

Þá skal vikið að greiðslum úr ríkissjóði umfram það, sem ákveðið er í fjárl. Árið 1940 urðu útgjöldin samkvæmt rekstrar reikningi ríkisins 21 millj. 813 þús. kr., en voru áætluð á fjárl. 17 millj. 857 þús. kr. Um,framgreiðslur á því ári hafa því numið 3 millj. 956 þús. kr., eða um það bil 22%. Og samkvæmt því yfirliti, sem hæstv. fjmrh. gaf nú um útkomuna 1941, hafa gjöldin á því ári farið fram úr áætlun fjárl. um 13 millj. 805 þús. kr., sem er rúml. 76%

Til samanburðar má geta þess, að árið 1935 voru umframgreiðslurnar 1 millj. 445 þús. kr.. eða aðeins milli 8% og 9%.

Það skal viðurkennt, að á þessum stríðstímum er erfiðara að semja fjárl. þannig, að hægt sé að fara nákvæmlega eftir þeim, en hér er líka mikil hækkun á umframgreiðslunum. Árið 1938 voru þær innan við 9%, en komust árið 1940 upp í 22% og 1941 í 76%.

En hvernig er því varið með háu fjárl. og óþörfu eyðsluna, sem áður var mest um talað? Fjárl. hafa farið ört hækkandi síðustu árin, örara en nokkru sinni fyrr. Það er að vísu ekkert undarlegt, þótt fjárl. hækki á slíkum tímum sem þessum, enda er hækkunin mjög mikil. Útgjöldin hlutu að hækka mikið vegna áhrifa styrjaldarinnar, við það varð ekki ráðið. Hitt er líka víst, að margir gjaldaliðir hafa hækkað mjög verulega, án þess að stríðinu og áhrifum þess verði um kennt, og skal ég ekki að svo stöddu dæma um það, hvort allar þær útgjaldahækkanir, sein orðið hafa á síðustu tímum, hafa verið óhjákvæmilegar. En þess hefur ekki orði;S vart, að lækkun á gjöldum hafi átt sér stað nema á vöxtum af skuldum ríkisins, þrátt fyrir allt, sem áður var sagt og skrifað um óþörfu eyðsluna.

Ef til vill verður því haldið fram af einhverjum, að nú sé minni ástæða til sparnaðar og varfærni í fjármálum en áður, vegna þess, hvað tekjurnar hafa aukizt mikið. Tekjur ríkisins af tollum og sköttum hafa vaxið enn meira en gjöldin, svo að verulegur tekjuafgangur hefur orðið hjá ríkissjóði árið 1941. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt, að ríkissjóður hefur tekjuafgang, en ég vil benda á, að hefði það verið rétt, að stórum fjárhæðum hafi áður verið eytt í óþarfa, þá var sjálfsagt að afnema þá óþörfu eyðslu eins fyrir því, þótt ríkissjóður fengi auknar tekjur. Með því móti hefði mátt verja hærri fjárhæðum til lækkunar á skuldum eða til aukningar á sjóðaeignum. En þetta hefur ekki verið gert, og sýnir það greinilega, að áður fluttar ásakanir á framsóknarmenn fyrir óhóflega eyðslu hafa ekki verið á rökum reistar.

Nú gæti einhver látið sér til hugar koma, að gjöldin hafi ekki verið lækkuð vegna þess, að Sjálfstfl. hafi ekki meiri hluta á Alþingi og geti því ekki komið fram stefnumálum sínum. En þessi ástæða er ekki frambærileg, þegar það er athugað, að sjálfstæðismenn hafa engar tillögur gert um niðurfærslu á gjöldum ríkisins, síðan þeir tóku við fjármálastjórn, þegar frá eru dagar till hæstv. fjmrh. á þinginu 1940, um lækkun á nokkrum greiðslum til verklegra framkvæmda. Voru þær till. að nokkru leyti gerðar vegna þess, að hæstv. ráðh. bjóst við, að framkvæmdir mundu tefjast af styrjaldarástæðum. Aðrar till. um lækkun á ríkisútgjöldunum hafa ekki verið bornar fram, og því ekkert upplýst um það. hvernig slíkum till. hefði verið tekið.

Í þessu sambandi vil ég minna á ummæli, sem fram komu í fjárlagaræðu hæstv. núv. fjmrh. á þinginu 1940. Ráðherranum fórust þá orð á þessa leið:

„Og ég hef ekki getað séð möguleika til útgjaldalækkunar í svipinn, sem nokkuð munaði um, aðra en þá að lækka enn framlög til göngumála og verklegra framkvæmda. Og ég er sannfærður um, að greiðsluhallalaus fjárlög verða ekki afgreidd að þessu sinni, nema höggið verði enn í þann knérunn, nema þá aðeins á pappírnum, með því að hækka tekjuáætlunina eða lækka útgjöld, sem vitað er fyrirfram að ekki muni lækka í framkvæmd:

Þetta allt, sem ég nú hef tekið fram, tel ég sýna það, að þær þungu sakir, sem stjórnarandstæðingar báru á Framsfl. á árunum 1935–1938 í sambandi við meðferð fjármálanna, hafi ekki verið á rökum byggðar. Ég ætla mér vitanlega ekki að halda því fram, að þá hafi verið svo vel stjórnað, að ekkert megi að finna. En ég vil fullyrða, að reynslan hafi greinilega leitt í ljós, að því fer fjarri, að þeir, sem þá héldu uppi ádeilum, hafi sjálfir getað um bætt, þegar þeir tóku við. Það hefur farið svo fyrir þeim, að gjöldin hafa farið hækkandi í höndum þeirra, ekki eingöngu vegna stríðsins, heldur einnig án þess, að þangað verði rakið. En svo undarlega hefur nú farið, að ýmsir þeir menn, þ. á m. sumir hv. þm., sem áður héldu uppi svæsnustu árásum á Framsfl. fyrir það, sem þeir nefndu eyðslu og sukk, þeir hafa lítt eða ekki talað um útgjaldahækkun síðustu tíma.

Ég vil þessu næst víkja að því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. Samkv. því eru tekjur á árinu 1943 áætlaðar alls 33 millj. 736 þús. kr., gjöld á rekstrarreikningi 28 millj. 333 þús. kr., en heildargreiðslur á sjóðsyfirliti 31 millj. 251 þús. kr. Frv. gerir ráð fyrir rekstrarafgangi, sem nemur 5 millj. 402 þús. kr. og hagstæðum greiðslujöfnuði rúml. 3 millj. kr.

Þetta er vitanlega langhæsta fjárlagafrv., sem nokkru sinni hefur sézt á Alþingi. Tekjur ríkisins eru nú áætlaðar hærri en nokkru sinni áður, og útgjöldin sömuleiðis.

Það er fróðlegt að bera það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, saman við ríkisreikninginn 1938, síðasta árið fyrir styrjöldina. Að vísu má segja, að þessir stríðstímar séu ekki sambærilegir við fyrri ár, en eigi að síður er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hverjar breytingar hafa í aðalatriðum orðið á tekjum og gjöldum ríkisins síðan fyrir stríðið.

Í fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, eru tekjur ríkisins áætlaðar um það bil 14 millj. 200 þús. kr. hærri en þær voru árið 1938.

Gjöldin á rekstraryfirliti í frv. eru áætluð 28 millj. 333 þús. kr. Samkv. ríkisreikn. 1938 voru rekstrarútgjöld það ár 17 millj. 767 þús. Hækkun gjaldanna er því 10 millj. 566 þús. kr., eða nálægt 60%. Sé það athugað, á hvaða útgjaldaliðum hækkunin er mest, sést, að stærsti nýi útgjaldaliðurinn er verðlagsuppbót á laun starfsmanna ríkisins, skv. gildandi lögum. Er ,á gjaldaliður áætlaður 3 millj. 600 þús. kr. Þá má telja hækkun á 17. gr. fjárl. (útgjöld skv. alþýðutryggingarlögunum, berklavarnalögum, aðrir sjúkrastyrkir o.fl.). Þar er hækkunin alls 1 millj. 908 þús. kr.

Hækkun á 11. gr. fjárl. (dómgæzla, lögreglustjórn og sameiginl. kostnaður við embættisrekstur) alls 488 þús. Hækkun á 10. gr. (stjórnarráðið, hagstofan og meðferð utanríkismála ) 584 þús. kr.

Hækkun á kostnaði við kennslumál 557 þús. kr. Hækkun á framlagi til samgöngumála (aðallega hækkun á greiðslum til vegagerða og vegaviðhalds) 2 millj. 790 þús.

Hækkun á 16. gr. (verkleg fyrirtæki) 931 þús. kr.

Eru þá taldir helztu hækkunarliðirnir. Lækkun hefur aðeins orðið á einni grein fjárl., 7. grein, en þar eru færð vaxtagjöld ríkisins. Hafa vextirnir lækkað síðan 19'38 um 4215 þús. krónur.

Við þennan samanburð kemur í ljós, að í frv. er gert ráð fyrir hækkun á framlögum til samgöngumála (aðallega vegagerða) frá því sem greitt var 1938, sem nemur 2 millj. 790 þús., og hækkun á framlagi til annarra verklegra framkvæmda, sem taldar eru á 16. gr., um 930 þús. krónur. Þetta samanlagt er aðeins rúml. þriðjungur þeirrar útgjaldahækkunar, sem um er að ræða síðan 1938. Aðrar útgjaldahækkanir, nálægt 7 millj. króna, eru á kostnaði við ríkisreksturinn og kostnaði við almenna styrktarstarfsemi.

Ég hef hér, í stórum dráttum, gert samanburð á áætluðum útgjöldum í því fjárlagafrv. fyrir árið 1943, sem hér liggur fyrir, við útgjöld ríkisins eins og þau urðu samkv. ríkisreikningi árið 1938. Nú er vitanlega óupplýst mál, hverjar breytingar kunna að verða gerðar á fjárlagafrv. hér á hæstv. Alþingi, en venjan hefur verið sú, að gjöldin hafa fremur hækkað en lækkað í meðferð þingsins, og þá er hitt einnig kunnugt, að gjöldin hafa ætíð orðið nokkru hærri í reyndinni en ráðgert hefur verið í fjárl.

Ég hef veitt því athygli, að í þessu fjárlagafrv. er, með örfáum undantekningum, gert ráð fyrir hærri launagreiðslum við stofnanir ríkisins heldur en voru árið 1938, þótt ekki sé meðtalin verðlagsuppbótin, sem eins og áður segir, er færð sér staklega í frv.

Þannig hefur mjakazt drjúgum í þessa áttina, þrátt fyrir mörg og stór orð um of marga starfsmenn og óhóflegar launagreiðslur fyrir fáum árum. Hvort þessar hækkanir stafa af því, að starfsmönnum hafi verið fjölgað eða grunnlaun þeirra hækkuð, er óupplýst. Sennilega er það hvort tveggja, en þetta er ekki hægt að sjá á frv., vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur ekki fylgt þeirri stefnu, sem upp var tekin af fyrirrennara hans í fjármálaráðherraæmbættinu, að láta starfsmannaskrá fylgja fjárlagafrv. Verð ég að telja það óheppilegt, að hætt hefur verið að láta slíka skrá fylgja fjárl., því að þótt ekki væri búið að ná því marki, að gera þá skrá svo úr garði, að henni væri nákvæmlega fylgt í öllum tilfellum, þá hefði verið auðvelt, með því að halda þessu áfram og endurbæta skrána, að koma henni í það horf, að þar væri hægt að fá nokkurn veginn fullnægjandi upplýsingar um starfsmannafjölda og launagreiðslur hjá ríkinu og stofnunum þess. Með því að hætta að birta skrána er þingmönnum og öðrum gert stórum óhægara að fylgjast með þessum málum.

Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. áðan, hefur útkoman orðið sú, að þrátt fyrir gífurlega hækkun á útgjöldum, hafa tekjurnar hækkað enn meira. Tekjurnar hafa orðið fast að 50 millj., eða um það bil þrisvar sinnum meiri en síðustu árin fyrir stríðið. Hefur því orðið mikill tekjuafgangur hjá ríkissjóði árið 1941, og er það út af fyrir sig gott, enda nauðsynlegt, að ríkið geti bætt sinn hag og safnað fé til framtíðarinnar, eins og margir einstaklingar gera nú. Þessi tekjuafgangur, sem orðið hefur á liðnu ári, stafar síður en svo af því, að Alþingi eða ríkisstjórn hafi sýnt meiri gætni en áður í meðferð fjármunanna. Það eru aukin viðskipti, og þar af leiðandi stórkostleg hækkun á tolltekjunum, sem hefur fært ríkissjóði þennan mikla tekjuafgang árið 1941. Eins og ég áður gat um, var ný tollalöggjöf — tollskráin svonefnda — undirbúin síðustu árin fyrir stríðið, áður en þjóðstjórnin kom til sögunnar. Tollafrv. var lagt fyrir Alþingi í febrúar 1939, en afgreiðslu þess lokið á framhaldsþinginu síðar á árinu. Þessi nýja löggjöf var við það miðuð, að færa ríkinu a.m.k. jafnmiklar tolltekjur og áður, að óbreyttu innflutningsmagni og verðlagi. Af þessu leiddi vitanlega það, að stórum aukinn vöruinnflutningur og hækkandi verðlag veitti ríkissjóði stórkostlega hækkun á tollunum. Kemur hér einnig til greina, að hæstv. fjmrh. notaði ekki þá heimild, sem þingið veitti honum, til þess að sleppa að reikna toll af stríðsfarmgjöldum af innfluttum vörum.

Ég hef áður getið þess, hverjar starfsaðferðir voru uppteknar við afgr. fjárl. á árunum 1935–1938. Árangurinn af því varð sá, að tekjuafgangur varð á fjárl. og ríkisreikningi öll þau ár. En á síðustu þingum hefur meðferð þessara mála verið með öðrum hætti. Um það vitna þau fjárl. greinilega, sem afgr. voru á síðasta fjárlagaþingi, árið 1941. Þrátt fyrir það, að tekjurnar voru þá áætlaðar nokkrum millj. kr. hærri en nokkru sinni fyrr, voru fjárl. afgreidd á því þingi með verulegum tekjuhalla og með greiðsluhalla, sem var yfir 2 millj. króna. En þar með er ekki sagan öll. Á þinginu í fyrra voru auk þess samþykkt nokkur lög, sem hafa í för með sér veruleg fjárútlát fyrir ríkissjóð, án þess að þau gjöld væru sett á fjárlögin, eða tekjur ætlaðar á móti þeim.

Í umr. um fjárl. á þinginu í fyrra var á það bent, bæði af mér og öðrum, að þetta væri mjög ógætileg fjárlagaafgreiðsla.

Í sambandi við þetta má minna á, að erfiðlega gengur með sölu á ýmsum landbúnaðarvörum, og vel getur orðið nauðsynlegt að leggja fram fé til stuðnings framleiðslustarfseminni og til ráðstafana, er miði að því að vinna gegn vaxandi dýrtíð, þótt eigi sé á fjárl.

Nú getur að vísu svo farið, að tekjurnar reynist það miklar á þessu ári, að ekki verði halli á ríkisreikningnum, þrátt fyrir tekjuhallafjárl. En það breytir því ekki, að fjárlagaafgr. á síðasta þingi var ógætileg, og öðruvísi en átti að vera.

Nokkur hætta virðist á því, að Alþingi láti þá stundarvelgengni, sem nú er, villa sér sýn. Afleiðingar þess geta orðið háskalegar. Þótt stóraukin viðskipti hafi orðið til þess að auka tolla- og skattatekjur ríkisins mikið í bili, er ekki hægt að búast við því, að svo verði um alla framtíð. Sá tími kemur, e.t.v. fyrr en nokkurn grunar, er tekjur ríkisins lækka aftur. Þá getur vel orðið erfitt að lækka gjöldin eins og þörf krefur, til þess að jafna reikninginn, og þeim mun erfiðara sem þau verða þá orðin hærri. Sérstaklega er það aðfinnsluvert, ef þingmenn láta þá sögu frá síðasta þingi endurtaka sig, að fjárlög verði afgreidd með halla, þegar tekjurnar eru hærri en nokkru sinni fyrr.

Það væri áreiðanlega skynsamlegt að taka nú aftur upp þær starfsaðferðir við afgeiðslu fjárl. sem fylgt var á árunum 1935–38. Ég get fullyrt, að þótt Framsfl. hafi ekki fjmrh.-embættið nú, þá er hann og hefur alltaf verið fús til þess að taka þátt í samtökum um þau vinnubrögð í þessum málum, sem nauðsynleg eru til þess, að afgr. fjárl. verði viðunandi. Einmitt nú, þegar tekjur ríkisins og möguleikar til tekjuöflunar eru meiri en nokkru sinni áður, ætti að vera auðvelt að afgreiða fjárl. frá þinginu með hagstæðum greiðslujöfnuði. Það er a.m.k. stórum auðveldara en áður var, þegar tekjurnar voru mörgum millj. kr. lægri, og framlög til nauðsynlegra framkvæmda þurfti að skera við nögl.

Ef sá þingmeirihluti, sem styður hæstv. ríkisstj., heldur áfram á þeirri slóð, sem mörkuð var við afgreiðslu fjárl. á síðasta þingi, þá er það mjög ámælisvert. Varfærni og gætni í fjármálum er alltaf nauðsynleg, ekki síður nú en áður. Verði engum samtökum á komið um skynsamlega afgreiðslu fjárl., en tilviljun ein látin ráða, hvernig þeim málum lýkur, er hætt við, að það leiði til hallareksturs og skuldasöfnunar fyrr en varir.

Í sambandi við ráðstöfun þess tekjuafgangs, sem varð árið 1941, vil ég minna á það, að á aukaþinginu s.l. baust, báru framsóknarmenn fram frv. um stofnun framkvæmdasjóðs, í þeim tilgangi að hafa handbært fé til nauðsynlegra framkvæmda eftir styrjöldina. Sams konar frv. liggur nú fyrir þessu þingi, og því hefur verið yfir lýst, að samkomulag hafi orðið innan ríkisstjórnarinnar um slíka sjóðsstofnun. Má því fastlega gera ráð fyrir, að á þessu þingi verði sett l. um þannig sjóð og verulegur hluti af tekjuafgangi síðasta árs verði lagður til hliðar á þennan hátt.

Um afkomu á þessu ári er vitanlega ekki hægt að segja nú. Fjárlagagreiðslan á síðasta reglulegu Alþingi var ógætileg. Fjárl. fyrir árið, sem nú er að líða, voru afgreidd með miklum greiðsluhalla, eins og ég áður hef nefnt. En þess er að vænta, að tekjurnar verði meiri á þessu ári en fjárl. gera ráð fyrir, einkum með tilliti til þess, aðnú munu verða gerðar breytingar á skattalögunum, sem veita ríkissjóði auknar tekjur. Er því ekki ósennilegt, að tekjuafgangur verði einnig á þessu ári, svo að einnig þá verði unnt að leggja fram fé í framkvæmdasjóð. Einmitt nú er sérstakt tækifæri til að safna fá á þennan hátt til nauðsynlegra framkvæmda, tækifæri, sem óvíst er að komi aftur á næstu árum.

Viðfangsefnin sem bíða úrlausnar eru mörg og aðkallandi. Það má telja alveg víst, að eftir stríðið verði fullerfitt að finna verkefni í stærstu kaupstöðunum fyrir allan þann fólksfjölda sem þangað hefur safnazt, og á þetta einkum við um Reykjavík. Það verður því óumflýjanlegt að fjölga heimilum í sveitum landsins og á þeim stöðum við sjó, þar sem bezt skilyrði eru til útgerðar. En þetta verður ekki gert nema með því að leggja fram stórfé til aukinnar ræktunar, bygginga, hafnarmannvirkja, símalagninga og annara framkvæmda á þessum stöðum, sem nauðsynlegar eru til þess, að þar getir skapazt skilyrði fyrir fleiri fjölskyldur til að vinna fyrir sér við framleiðslustörf. Rafmagnið þarf að ná til dreifbýlisins, en það kostar mikil fjárframlög. Okkur vantar einnig ný iðnaðarfyrirtæki, svo sem sementsgerð, áburðarverksmiðju o. fl. Er hér fátt eitt talið af því, sem nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd svo fljótt sem verða má, en það verður ekki gert nema með því móti, að nú verði lagt til hliðar fé í þessu skyni.

Í frv. um framkvæmdasjóð ríkisins er lagt til, að 3/5 hlutar þess tekjuafgangs, sem varð á næstliðnu ári, verði lagðir í sjóðinn. Þótt svo verði gert, er samt sem áður hægt að verja stórri fjárhæð af tekjum síðasta árs til lækkunar á skuldum ríkisins. En það er einmitt þetta tvennt, sem nú á að stefna að, að minnka skuldirnar og safna fjármunum til menningarlegra og verklegra framfara í landinu.