26.03.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (377)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Þorsteinn Briem:

Það er kunnugt, að í miklum grasárum fær bóndinn mikil og, — að því er hann hyggur —, góð hey í garð. Hann væntir sér því góðs arðs af miklum heyjum. Þó kemur fyrir, að þær vonir bregðast, fóðrun mistekst, vanhöld verða með mesta móti og afurðirnar eftir því. Hver var þá orsökin?

Taðan var úr sér sprottin, — og útheyin trénuð. Það reyndust vera „svik í heyjunum“, sem kallað er.

Nú er líkt ástatt fyrir þjóðinni. Ekki þarf að kvarta yfir heyskapnum, — mikið hefur heyjazt að vöxtum. Almenningur hefur nú meiri peninga handa milli en hann hefur nokkru sinni áður haft. Sparisjóðsinnieignir og hlaupareikningsinnistæður í bönkum hafa aukizt um nær 100 milljónir. Tekjur ríkissjóðs hafa aukizt um 168% fram yfir áætlun. Tekjuafgangur, — sjóðsaukning —, ríkissjóðsins hefur þrátt fyrir hinar miklu umframgreiðslur, skuldalækkun og eignaauka orðið á 13. milljón, ef ég hef tekið rétt eftir þeim tölum, sem hæstv. fjmrh. las áðan. Áætlaður tekjuafgangur á sjóðsyfirliti þess fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er rúmar 3 millj. kr. Og þó að allar áætlanir séu óvissar, — og jafnvel þó að þar sé einni upphæð ofaukið, 1,8 millj. kr. tekjum af áfengissölu, — þá hefur tekjuafgangur aldrei áður verið þvílíkur sem nú er ráð fyrir gert.

Það má því segja, að hér séu allar hlöður fullar og fúlgur við hvert hús. Menn eru því margir bjartsýnir og stórhuga, þegar þeir líta yfir allan þennan mikla heyafla.

En þessi frábæri heyskapur verður því aðeins vanhaldalaus, að sú taðan sé ekki úr sér sprottin, að ekki séu „svik í heyjunum“, eins og oft í miklum grasárum. Vér skulum þá fyrst líta á, hvernig allur þessi mikli heyfengur er til kominn. Og til skilningauka almennum hlustendum tek ég fyrst dæmi frá annarri þjóð.

Þegar annar styrjaldaraðilinn hafði tekið Danmörku hernámi, var útflutnings- og innflutningsverzlun að sjálfsöðu rígbundin við Þýzkaland. Þetta vakti þó í fyrstu vonum minni ugg hjá aðalútflytjendum landsins, fiskimönnum og bændum. Þvert á móti hækkaði brún sumra þeirra fyrst í stað, því að hernemandinn greiddi vörur þeirra allgóðu verði og borgaði þær í dönskum krónum. En sá fögnuður stóð ekki lengi, er þeir fengu vitneskju um, hver ráð hernemandinn hafði til þess. Þegar hernemandi Danmerkur hóf kaup sín á allri framleiðslu Dana, aflaði hann sér hins danska gjaldeyris á þann hátt, að hann fór með þýzkar ávísanir, eða skuldaviðurkenningar, upp á nokkur hundruð milljónir inn í þjóðbanka Dana og bauð bankanum að greiða sér út danskar seðlakrónur gegn þessum ávísunum. Hernemendur sögðu: Þið skuluð fá út á þetta þær vörur, sem við höfum og þið komizt ekki af án, en afganginn verðið þið að eiga hjá okkur þangað til að stríðinu loknu.

Ef Þjóðverjar hefðu farið þannig að við hvern einstakan danskan bónda eða fiskimann, hefir hver einasti maður þegar skilið, hvað hér var á ferðinni, sem sé það, að hver einasti framleiðandi og verkamaður varð að leggja fram hvern þann eyri, sem hann aflaði umfram fæði og klæði, í erlent stríðslán, sem enginn vissi um greiðslu á.

En hernemandinn sá, að erfiðleikar mundu á að fá stríðslánið á þann hátt. Þess vegna fór hann þá leið að láta þjóðfélagið sjálft lána sér með því að láta það leggja til seðlana, til þess að hægt veri að nafninu að borga hverjum einstökum sitt. Þannig var hægt að binda allt andvirði framleiðslunnar — fyrir utan brýnustu nauðsynjar — í stríðslánum. Þegar dönskum framleiðendum skildist þetta, sáu þeir, hver voði þjóðfélaginu var búinn. Enda tóku þá hagfræðingar hins stríðsaðilans að skrifa um þetta og sýna fram á, hvernig verið væri að grafa grunninu undan heilbrigðu fjármálalífi þessa hernumda lands.

Menn skildu, að hér var verið þegjandi og hljóðalaust að breyta tryggum gjaldeyri hernumins lands í happdrættisseðla, þar sem vinningarnir ultu allir á því, hvort hernemandinn sigraði að lokum. Ég dreg ekki fram þetta dæmi til þess að gera upp á milli hernaðaraðila. Ég tek þetta dæmi einungis af því, að það er ljóst. Þetta er glöggt dæmi þess, hvernig hernaðarþjóðirnar fara að því að láta hlutlausu þjóðirnar, sem þær eiga yfir að ráða, leggja allt sitt í stríðslán og taka þannig sinn þátt í herkostnaðinum. Allt, sem hernumdu þjóðirnar afla umfram lífsþurftir; er jafnóðum bundið í stríðslánum með þessum sama eða svipuðum hætti. Þann veg er hverjum þeirra peningi breytt í happdrættisseðil, þar sem vinningarnir velta á því, hvor hernaðaraðilinn sigrar.

Vér Íslendingar erum þar engin undantekning. Allur afgangseyrir landsmanna fer hér sem annars staðar, þar sem líkt á stendur, í stríðslán.

Hernemendur landsins hafa látið oss fá þann skammt af erlendum vörum, sem þeir hafa talið oss þurfa og sjálfir getað í té látið. Enn hafa þeir ekkert annað borgað, — hvorki fyrir þær vörur, sem vér höftun af hendi látið, né fyrir þá vinnu, sem Íslendingar hafa unnið í þágu setuliðsins hér á landi, né heldur fyrir það, sem setuliðið hefur leigt eða keypt sér til fæðis eða annarrar notkunar eða nautnar, síðan það kom hingað til lands. Fyrir allt þetta hefur enginn eyrir enn komið í vorar hendur, heldur aðeins skuldaviðurkenningar.

Þetta mundi hvert mannsbarn vita, ef þjóðfélagið eða Landsbankinn væri ekki til knúður fyrir þess hönd að lána hernemandanum fé, til þess að greiða einstaklingunum. Hvaðan hefur þjóðbankinn þá fé til að annast þvílíkar greiðslur Hann hefur til þess prentvélina. En pappírinn fær hann hjá hernemandanum. Þjóðbankinn er til knúður af þeim, sem ráð vor hafa í hendi, að gefa út seðla, ekki aðeins eins og atvinnuvegirnir þurfa, heldur og eins og hernemandinn eða verndarinn þarf. Þannig hlaðast stríðslánin upp, — ef ekki af því, að útflutningsframleiðsla vor nemi meira en innflutningurinn, þá af hinu, að setuliðsvinnan sogar til sín vinnuaflið, og stríðslánin vaxa sem því nemur, sem fyrir þann vinnukraft er greitt í íslenzkum seðlum.

Vér höfum á s.l. tveim árum selt öðrum stríðsaðilanum framleiðsluvörur fyrir 32 milljónir kr., og upp í það höfum vér fengið aftur aðfluttar vörur fyrir 204 milljónir. Afganginn, eða 118 milljónir, höfum vér ekki fengið greiddan með öðru en ávísunum, sem eru sama sem viðurkenning fyrir skuldinni. Þessar erlendu skuldaviðurkenningar höfum vér aðeins að litlu leyti getað notað til þess að greiða með gamlar skuldir. En hitt allt höfum vér orðið að leggja fram sem stríðslán. Þar að auki höfum vér lagt fram sem stríðslán allt það fé, sem setuliðið hefur notað til kaupgreiðslu eða til eigin þarfa í íslenzkum peningum. Og virðist það vera a.m.k. um 40 millj. kr. Þessi stríðslán öll eru talin „innieign“ erlendis. Þessi svonefnda „innieign“ vor erlendis er nú 157 milljónir kr. Hún er ekki frjáls gjaldeyrir, nema að nafninu til. Hún er bundið fé hjá hernaðaraðila, af því að hann þarf á henni að halda, sem herkostnaðarframlagi af hálfu Íslendinga, þangað til stríðinu er lokið.

Nú er það viðskiptavenjan, að ef Pétur lánar Páli peninga, getur Pétur ekki lengur leikið sér með þá peninga, sem Páll er búinn að fá lánaða hjá honum. 1.ánveitandinn getur ekki sjálfur sett þá peninga aftur í umferð, fyrr en jafnóðum og lánið endurborgast. En hér höfum vér brugðið út af viðskiptavenjunni. Vér höldum áfram að leika oss með peninga og það hvorki meira né minna en 157 milljónir, sem vér erum raunverulega búnir að setja fastar í stríðsláni til annarrar þjóðar.

Mönnum mundi skiljast þetta betur, ef hver einstaklingur, en ekki þjóðin í heild; greiddi lán þetta af höndum.

Ef haldið væri eftir af andvirði hverrar útfluttrar vöru og af kaupi hvers launþega tilsvarandi hluta við það, sem þjóðin hefur orðið að binda í stríðsláni af vinnuarði sínum, þá mundi hverju mannsbarni ljóst, að vér getum ekki leikið oss með peninga, sem búið er að lána annarri þjóð. Vér getum farið með þá sem handbært fé þá fyrst og jafnóðum, er afborganirnar koma, en fyrr ekki.

En alveg það sama er um þjóðfélagið í heild. Það getur ekki sér að skaðlausu haft þá peninga í veltu sem eyðslufé meðal almennings hér heima, sem það hefur orðið að binda í stríðsláni hjá öðrum þjóðum. Það er hægt jafnóðum og afborganirnar koma, en fyrr ekki.

Þetta hefur þó verið gert. Nálega allt það fé, sem vér höfum orðið að binda erlendis í stríðslánum, hefur þjóðfélagið eða bankarnir fyrir þess hönd greitt út hér heima inn í viðskiptareikninga, eða í seðlum.

Af þessu stafar hin óeðlilega peningavelta í landinu. Hún stafar ekki af því, að þjóðin í heild hafi grætt eða auðgazt, þó að verðmæti hafi færzt til milli eigenda og menn geti nú talið eignir sínar í fleirum, en verðminni krónum. Hún stafar ekki af því, að skipakostur þjóðarinnar hafi verið aukinn, ekki af því, að jarðir hafi verið bættar eða húsakostur þjóðarinnar endurbættur. Hún stafar ekki af því, að þessi eða nein önnur raunveruleg verðmæti hennar hafi aukizt. Þvert á móti verður vart um það sagt, hvort „gróðinn“ gerir að lokum meira en að bæta upp kyrrstöðuna og viðhaldsskortinn. Peningavelta vor stafar eingöngu af því, að vér erum að leika oss með peninga, sem vér höfum orðið að lána út úr landinu og vér vitum ekkert um, hvenær muni koma aftur. Þetta er það, sem kalla má „svik í heyjunum“, að því er peningaveltunni viðvíkur. Peningaveltan hér heima er af fyrrgreindum ástæðum úr sér sprottin, eins og taðan í grasárunum: Þegar peningaveltan er úr sér sprottin, skapast svo nefnd „fölsk kaupgeta“. „Fölsk kaupgeta“ skapast jafnan, þegar peningarnir eru að meira eða minna leyti aðeins ávísanir á verðmæti, sem eru ekki fyrir hendi eða eru óviss eða bundin. Í kjölfar „falskrar kaupgetu“ fylgir ávallt verðrýrnun peninganna eða vaxandi dýrtíð. Og hér á landi hefur þessi „falska kaupgeta“ átt sinn höfuðþátt í verðbólgunni, sem nú er svo mjög um rætt.

Samhliða öðrum dýrtíðarráðstöfunum, sem til greina geta komið, er því nauðsyn á ráðstöfunum til þess að draga smám saman, og að svo miklu leyti sem fært er, úr umferð hér heima það fé, sem þegar er raunverulega bundið í stríðslánum og enginn veit um greiðsludag á.

Því hefur verið yfir lýst af hálfu ríkisstjórnarinnar, að hún hygðist að hækka skatta til þess að safna í sjóð, þangað til að stríðinu loknu. Og ef þeir skattar verða ekki að neinu leyti að eyðslufé ríkisstjórnarinnar sjálfrar eða lenda í útlánum hjá þeim, sem þá varðveita, þá er þetta ein leiðin til þess að taka úr veltunni hér heima nokkuð af því fé, sem þegar er bundið erlendis, og draga þannig úr vexti verðbólgunnar. En þá má skattheimtan verða harkaleg og koma hart niður, ef taka á þannig af þjóðinni með eignasviptingu allt það fé, sem bundizt hefur og bundizt getur erlendis.

Þess er líka að gæta, að þótt landsmenn hafi fengið mikið fé á milli handa þessi síðustu tvö ár, þá hafa þeir líka mikið á sig lagt. Mikill hluti landsfólksins hefur erfiðað sýknt og heilagt og nálega nótt með degi til sveita og við sjó. Og þá eru takmörk fyrir því, hvað sanngjarnt getur talizt að taka með algerri eignasviptingu eða í beinum sköttum af því sama landsfólki, jafnvel þó að mikið hafi verið aflað.

Það getur og varla talizt sanngjarnt, jafnvel þó að þjóðfélagið hafi greitt einstaklingunum út það fé, sem fast er í stríðsláni hjá annarri þjóð, að taka þetta fé alveg eða nær alveg af þeim. Þá hefði a.m.k. verið eins gott að greiða féð aldrei út, því að sá saknar ekki eyrisins, sem engan átti.

Hins vegar hefur nefnd hagfræðinga athugað aðra leið í þessu máli samkv. till., sem kom fram á þingi í fyrra vor frá hv. þm. Hafnf. Ég á þar við hina svo nefndu skyldusparnaðarleið, sem Bretar eru byrjaðir á.

Í Bretlandi eru, sem vænta má, háir skattar sem stendur. En skatturinn er þar ekki að öllu leyti bláköld eignasvipting, heldur er nokkur hluti skattsins varðveittur á nafni skattgreiðanda sem innieign, er hann fær útborgaða síðar eftir reglum, sem settar verða í sérstökum l. í stríðslok.

Af lægstu tekjum er allur skatturinn geymd innieign eða skyldusparnaður, en skyldusparnaður nemur æ lægri hundraðshluta eftir því, sem heildarskatturinn hækkar.

Í Englandi hafa ákvæðin um skyldusparnað verið sett inn í skattal. sjálf. Og er því gleggst að taka bein dæmi þaðan.

Þar eiga t.d. barnlaus hjón, sem hafa sem svarar 2700 kr. skattskyldar tekjur, að greiða sem svarar 35 kr. í sparnaðarskatt. Sá skattur er ekki eignasvipting eins og skattar eru venjulega, heldur er atvinnurekandinn, sem á að halda þessum 35 kr. eftir af kaupi skattgreiðenda, skyldur að afhenda þeim eins konar sparisjóðsbók með þessari upphæð, og fá þeir þessa innieign ásamt seinni innlögum greidda eftir stríð. Hjón með 5400 kr. skattskyldar tekjur greiða ekki heldur skatt í venjulegri merkingu, heldur verða þau að leggja 350 kr. í skyldusparnaðarbók. Barnlaus hjón með 8100 kr. tekjur verða hins vegar að greiða 1540 kr. Alls, en þar af er 1/3 eða rúmar 500 kr. skyldusparnaður með 16200 kr. tekjur greiðir 4600 kr., en þar af eru um 900 kr., eða 1/5 skyldusparnaður. 54 þús. kr. tekjumaður greiðir 16 þús. kr. alls, en þar af eru 1750 kr., eða hér um bil 1/9 skyldusparnaður. En hjá 2 millj. kr. tekjumanni er 1/100 af heildarskattinum geymd eign eða skyldusparnaður o.s.frv. En hvort tveggja, hinn eiginlegi skattur og skyldusparnaðarféð, er innheimt mánaðarlega eins og útsvörin í Reykjavík.

Þessu má með ýmsu móti koma fyrir, bæði í sambandi við almenn skattal. og með sérstökum l. En aðalatriðið er að draga úr umferð sem mest af þeim peningum, sem eru raunverulega bundnir hjá annarri þjóð.

Hér á ekki við alger eignasvipting eins og verða mundi, ef allar afgangstekjur þjóðareinstaklinganna væru teknar með venjulegum skatti. Hér er aðeins um það að ræða að koma á þeirri venjulegu viðskiptareglu, að enginn getur leikið sér með það fé, sem hann er búinn að lána öðrum. Þess vegna þarf að binda féð hér heima, meðan það er bundið erlendis. Það liggur í augum uppi, að bankarnir geta ekki greitt. hærri vexti af því fé, sem þannig væri bundið með sérstökum skyldusparnaðarráðstöfunum, en þeir fá sjálfir af hinu bundna fé erlendis. Hér yrði því annað hvort að greiða einstaklingunum sömu vexti og þar eru greiddir en láta sleppa skyldusparnaðarfé manna við eignarskatt, og mundi það ef til vill koma í sama stað niður.

Nú er það algilt lögmál, að eftirspurn eftir vörum vex með peningaveltunni. Hitt er og algilt viðskiptalögmál, að þegar eftirspurnin vex fram úr vöruframboði, þá hækka vörurnar í verði og verðbólgan byrjar.

Glöggt dæmi þeirrar verðbólgu, sem stafar í þessari áður um getnu „fölsku peningaveltu“, er sagan um skrautskálina, sem kostaði 600 kr. á haustnóttum, en var komin upp í 2600 kr. í des. og seldist þá óðara. Þannig er um fjöldann af alls konar skrani, er hverfur í þá miklu eftirspurnarhít, er hin „falska peningavelta“ skapar. Enginn hlutur er svo fánýtur, að hann seljist ekki. Allt er keypt, jafnvel hvað sem það kostar.

Þetta er ekki aðeins þjóðhættulegt vegna þess, hve þarna fer mikið fé í sjóinn, sem gott hefði verið að geta gripið til, þegar kreppan dynur á. Þetta er ekki siður þjóðhættulegt vegna hins, hve það dregur marga menn frá þjóðnýtum framleiðslustörfum. Allir vilja verzla, þegar svo stendur á, og þá einkum með óþarfavörurnar, sem ekkert verðlagseftirlit er á. T.d. munu hafa sprottið upp á annað hundrað verzlanir í Reykjavík einni s.l. ár, og munu fæstar þeirra verzla með nauðsynjavörur. Þannig sogar hin „falska kaupgeta“ æ fleiri og fleiri menn frá framleiðslunni og öðrum þjóðnýtum störfum.

En því erfiðara, sem er um fólkshald við framleiðsluna, því dýrari hljóta aftur framleiðsluvörurnar að verða, en því fylgir aukin dýrtíð fyrir alla neytendur, en hún veldur aftur enn dýrari framleiðslu.

Þannig verður það á engan veg í tölum talið, hve mikinn þátt hin „falska peningavelta“ á í þeirri verðbólgu, sem nú er. Þennan þátt verðbólgunnar mætti stöðva, ef allir þjóðfélagsþegnarnir fengjust til að spara. Ef enginn keypti neinn hlut fram yfir brýnustu nauðsynjar, þá væri einn veigamikill þáttur verðbólgunnar úr sögunni. Ein hin mesta þjóðhollusta er að fara vel með efni sín. En sú léttúð, sem jafnan fylgir skjótfengnum peningum, kemur í veg fyrir það., Og þegar sóunarsýkin er orðin jafnalmennur sjúkdómur sem nú er í þjóðlífinu, þá verður hið opinbera að taka í taumana. Þeir hafa mikið til sín máls, sem nú vilja leggja á háa skatta, til þess að ríkið eignist sjóð til hörðu áranna. Það er margra hluta vegna nauðsynlegt.

En það er þar fyrir ekki víst, að háir skattar hvetji menn til sparnaðar. Þvert á móti gætir ískyggilega mikið þess hugsunarháttar meðal almennings, að það sé ekki til neins að spara, því að allt sé tekið af mönnum hvort sem er með sköttum. Allt annað viðhorf mundi aftur skapast af hálfu almennings, ef um skyldusparnað væri að ræða. Þá mundi sparnaðarmaðurinn hugsa sem svo: „Þetta fé ætlaði ég raunar að spara hvort sem var. Það kemur því í sama stað niður, hvað mig snertir. En þessi lögboðni almenni sparnaður kemur bæjar- eða sveitarfélagi mínu til góða, því að eyðsluseggirnir standa þá betur að vígi um að bjarga sér síðar, ef þeir eru skyldir til að safna sér því fé, sem þeir mundu annars eyða í ekki neitt eða verra en það.“ Eyðslumaðurinn mundi ef til vill ekki eins ánægður um sinn. En mundi hann verða óánægður til lengdar? Mundi hann ekki sjá það fljótlega, að gott er að eiga peningana varðveitta til hörðu áranna í stað þess að sóa þeim strax? Og vissulega mundi það geta komið sér vel fyrir hann að eiga peningana síðar. Ríkisstj. hefur skilið nauðsyn þess fyrir ríkið sjálft að safna í sjóð til að mæta erfiðleikunum að stríðinu loknu. En er ekki nauðsynin sama fyrir hvern einstakan?

Ríkisstj. hefur enn fremur viðurkennt nauðsyn þess fyrir hlutafélögin að safna í svo nefnda „nýbyggingarsjóði“ til framtíðarinnar. En verður ekki að viðurkenna, að hverjum einstaklingi er það hin sama nauðsyn að safna í „nýbyggingarsjóð“ eða réttara. sagt varasjóð til hörðu áranna, og það því fremur sem hörðu árin eru óhjákvæmilega fram undan og það því meiri og ægilegri sem menn fara nú gálauslegar með feng sinn?

Þetta verður ekki gert, svo að verulegu nemi og svo að áhrif hafi á vörueftirspurnina og þar með á verðbólguna, nema með lagasetningu um skyldusparnað, annað hv ort í sambandi við almenn skattal. eða með sérstökum l.

Ef þeirri lagasetningu yrði svo hagað, að þær kvaðir, sem á lægst launaða fólkið væru lagðar, væru mestmegnis eða eingöngu skyldusparnaður eða skylduinnlög á nafni þess sjálfs, til kreppuáranna, en skatturinn færi stígandi á móti skyldusparnaðinum, eftir því sem tekjur væru meiri, þá mundi þetta verða til þess að auka nokkuð efnajöfnuðinn að stríðinu loknu. Þá mundi draga úr sveitarþyngslum hörðu áranna. Það mundi jafna aðstöðuna og fleirum verða unnt að koma upp húsi yfir sig eða koma sér fyrir um sjálfstæðan atvinnurekstur til sveita og við sjó. Og þó að margur fari nú illa með peninga, meðan þjóðfélagið er allt sjúkt af ölvun peningaveltunnar, þá er alls engin ástæða til þess að vantreysta einstaklingunum fremur en sjálfu ríkisvaldinu til þess að fara rétt með peninga, þegar peningaveltuvíman er rokin af mörgum kæmi vel að eiga varðveitta fjárhæð til elliáranna. En að mestu gagni kæmi þó skyldusparnaðurinn fyrir ungt og einhleypt fólk, er þann veg mundi safna því fé, er ella færi í súginn, í sjóð til að stofna sér heimili síðar. Auðvitað yrði einstaklingum að vera heimilt að taka til þessa sparifjár, ef sjúkdóma eða örorku bæri að höndum. Þá mundi og verða að heimila greiðslu eldri skulda af því fé, sem innheimt yrði sem skyldusparnaður. Og enn fremur ætti að mega draga frá skyldusparnaði það fé, sem beint er varið til framleiðsluauka, svo sem til skipa- eða bátakaupa og til að setja saman bú eða auka bústofn, og yrðu þar um að vera sérstakar reglur hliðstæðar því, sem er um nýbyggingarsjóði hlutafélaga. Eigi um skerða framkvæmdafé landsmanna, þó að hitt sé ein hin mesta þjóðarnauðsyn að binda þá peninga, sem annars mundu verða eyðslufé einstaklinganna og þannig auka verðbólguna. T.d. ætti sá vinnumaður, sem ver kaupi sínu til þess að koma sér upp fé, er hann hefði á fóðrum hjá húsbónda sínum, að sleppa við skyldusparnaðarkvöð af því fé, sem hann bindur þannig sjálfur í þjóðnýtri framleiðslu. Sama væri nm fiskimann, er bindur eitthvað af aflafé sínu í fiskibáti o.s.frv.

Löggjafinn verður að draga úr peningaveltunni með því að binda eyðsluféð til hörðu áranna. Með því er tvennt unnið: Í fyrsta lagi að draga úr vörueftirspurninni, einkum á óþarfanum, og þar með draga úr verðbólgunni. Í öðru lagi að búa hvern einstakling betur undir þá erfiðleika, sem hann á eins vísa yfir höfði sér eins og nótt eftir dag og vetur eftir sumar.

Margs konar hættur vofa nú yfir þjóð vorri, og er sú hættan eigi minnst, að skortur verði á lífsnauðsynjum. Skip geta farizt og siglingar torveldazt enn meir eða stöðvazt. En jafnvel þótt svo yrði ekki, þá er sýnilegur skortur fram undan á sumu því, sem framleitt er innan lands. Mjólkurskortur hefur verið sums staðar, og smjörskortur hefur verið svo tilfinnanlegur, að flytja hefur orðið inn smjör frá Ameríku. Vill sá innflutningur verða vanhaldasamur sakir skemmda á smjörinu. Ég sé ekki annað en að ríkisstj. verði að finna ráð til þess að auka smjörframleiðsluna innan lands. Það verður ekki gert með því að láta vinnukraftinn sogast allan úr sveitunum í setuliðsvinnu. Það verður ekki gert með því að halda við hámarksverði á framleiðslunni, nema þá að varan sé verðbætt úr dýrtíðarsjóði jafnframt. Til þess að koma þeim verðbótum við, mun verða að koma á skömmtun á smjöri og ostum. Mætti þá verðbæta til neytenda þann skammt, sem hverjum manni væri ákveðinn, en leyfa að selja við hærra verði það, sem þar fram yfir væri keypt. En ef skammturinn er hæfilega ákveðinn, þarf skömmtunarsmjörverðið eitt að koma fram í verðvísitölunni. Mundi þetta þjóðinni hollara og þjóðinni gagnlegra heldur en að verðbæta úr dýrtíðarsjóði eða með tollaeftirgjöf kaffi og sykur og hveiti og aðrar erlendar vörur, eins og stundum hefur verið orðað og lagaheimild gefin til. Miklu fremur ætti að nota það fé, sem ríkissjóður fær í tolla af þessum vörum, til þess að tryggja neytendum nægilegar innlendar afurðir og verðbæta þær, en slíkri verðbót til neytenda verður vart fyrir komið nema á þann skammt, sem hverjum einstaklingi væri tryggður, því að um það vörumagn, sem fært kynni að vera að selja þar fram yfir, koma fleiri til greina en innlendir menn.

Hvort því verður við komið, að skammta þannig vissan hluta neyzlumjólkur og verðbæta á sama hátt einhvern tiltekinn mjólkurskammt handa hverjum innlendum neytanda, er rannsóknarefni, sem vert er að athuga. En hitt verður alþjóð að skiljast, að nú, þegar allir vegir eru opnir til vel launaðrar atvinnu, þá verður ekki einni stétt haldið við það að framleiða mat handa fólkinu, nema hún beri úr býtum hliðstætt verð við það, sem aðrir, er jafnmikið leggja á sig, hafa frá borði.

Það er bersýnilegt, að ef eigi á enn meir að dragast saman landbúnaðarframleiðslan, og ef eigi á að verða stórfelldur skortur á sumum sveitaafurðum, þá verður verðið til framleiðendanna að hækka. Framboðið er þegar minnkað miðað við tölu neytenda, og það hlýtur að minnka enn meir, ef sama verðlag á að haldast. Til þess að draga úr þurrð vörunnar eru engin önnur ráð en verðhækkun eða tilsvarandi lækkun framleiðslukostnaðar, sem mun, svo að verulegu nemi, erfið í framkvæmd.

Eitt af því, sem hefur áhrif á kjötverðið, eru þau brigð, sem orðið hafa á loforði hernemandans um skaðabætur fyrir markaðstöp. Kemur þetta sérstaklega hart niður á ull og gærum. Þess var vænzt, þegar Bandaríkin tóku að sér vernd landsins, að þá mundi úr þessu bætt. Svo mun þó enn ekki orðið. Og er þess því vænzt, að hæstv. ríkisstj. sæki það mál sem fastast. Þetta er ekki mál bændanna einna. Þetta er jafnframt mál hvers einasta neytanda í landinu, því að það gefur að skilja, að markaðstap eða neyðarsala á gærum og ull hlýtur að koma fram í hækkuðu kjötverði og sláturverði, ef sauðfjárræktin á að haldast og eigi verða sami skortur fram undan á kjöti sem nú er þegar á mjólkurafurðum. Bregðist því skaðabæturnar af hálfu hernemandans eða verndarans fyrir markaðstöpin á þeirri vöru, sem markaðurinn var hvað beztur fyrir í fyrra stríðinu, þá verður ríkið sjálft, einmitt vegna neytendanna, að greiða þær bætur. En ég vil hins vegar ekki gera ráð fyrir slíku, heldur að bætur komi úr þeim stað, er þeim var í fyrstu lofað.

Það mun að betur koma í ljós, hve óvarlegt er að byggja matarvon vora að miklu leyti á innflutningi og siglingum. Það getur hefnt sín með hungri, ef landbúnaðarframleiðslan er látin dragast saman í stað þess að aukast, a.m.k. tiltölulega við neytendafjölgunina í landinu.

Það er nú þegar svo komið, að eigi aðeins sveitabúskapur dregst saman, heldur hefur og sjávarútvegur á smæstu bátum stöðvazt í sumum verstöðvum, vegna þess að ekki er hægt að standast samkeppni við helgidaga- og eftirvinnukaup setuliðsins. Hverjar verða þá bjargræðisvonir landsfólksins að stríðinu loknu, ef jarðir eiga að fara í auðn og skip fúna í naustum, vegna þess að vinnuaflið hefur sogazt í óarðbær verk? Munu þá ekki koma í ljós svik í þeim heyjum, sem menn hafa nú mest eftir sótt'? Þess ber að minnast, að ríkisstj. hefur fengið loforð um, að fækkað verði mönnum í setuliðsvinnunni. Hins vegar er mér ekki kunnugt, hvað áunnizt hefur á borði í því efni. Ég ætla, að þar sé sums staðar ekki um fækkun, heldur jafnvel aukningu að ræða enn sem komið er.

Þess verður því að vænta, að hæstv. ríkisstj. stígi hér fastar í ístaðið en enn er. Og það á hún að geta, og því fremur sem þjóðbankinn, eða m.ö.o. þjóðfélagið sjálft, verður að lána hinum erlenda aðila hvern eyri, sem fyrir setuliðsvinnuna er goldinn, og að auki þær prósentur, sem vinnuagentarnir fá. Vér þurfum eigi fyrir það að væna neinn um vangreiðslu á því láni á sínum tíma. Vér skulum aðeins spyrja sjálfa oss, hvort tryggara sé matur í hendi eða peningar, þegar maturinn ekki fæst.

Hin innlenda framleiðsla ein er matur í hendi fyrir þjóðina. Hún er og hin eina örugga vörn gegn atvinnuleysinu og hruninu í styrjaldarlok.