26.03.1942
Sameinað þing: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1943

Fjmrh. (Jakob Möller):

Herra forseti ! Hv. þm. V.-Húnv. varði miklum hluta ræðutíma síns til þess að bera saman útgjöld ríkissjóðs 1938 og á árunum eftir að stríðið hófst: Hann taldi þennan samanburð sýna ákaflega glöggt, hvað fjármálastjórn Framsóknar hefði verið með miklum ágætum, á meðan framsóknarmenn voru við völd, og í því sambandi benti hann á það, að útgjöld ríkisins hefðu verið lægri 1938 en 1941. Mikil er nú hv. þm. á greindarleysi fólksins, ef hann trúir því, að slíkur lofsöngur, byggður á svona rökum um hans ágæta flokk, verði tekinn fyrir góða og gilda vöru. Hann benti á það, að samkv. yfirliti yfir tekjur og gjöld ríkisins 1941 hefðu tekjurnar farið 76% fram úr áætlun, og þótti honum það gífurlegt. En þegar þess er gætt, að dýrtíðarvísitalan er nú komin upp í 83% frá því, sem hún var 1938, og tillit er tekið til þess, að ófriðarástandið hefur skapað ríkinu stórkostleg útgjöld, alveg án tillits til dýrtíðaraukningar, þá veit ég ekki, hvort þessi hækkun er svo mjög óeðlileg.

Hv. þm. spurði svo allhróðugur, hvað væri nú orðið úr öllum kenningum Sjálfstæðisfl. um það að lækka útgjöld ríkisins og fækka starfsmönnum o.s.frv. Ég hef áður talað um þetta, hér í sambandi við flutning fjárlagaræðunnar í þinginu, og vék að því, að Sjálfstæðisfl. hefði talið og teldi möguleika til þess að breyta þessu þannig, að rekstrarútgjöld ríkisins gætu lækkað. Ég dró enga dul á það, að slíkt mundi verða allerfitt og mundi sæta misjöfnum dómum, en hins vegar væri alveg óhugsandi að koma því í framkvæmd, nema Alþ. væri einhuga um það að stiga slíkt spor. Hins vegar vitum við það, að hér í þinginu situr nú í rauninni alveg sami meiri hluti í þingmannasætum eins og var 1838 og áður, á meðan Framsfl. fór með völdin. Þess vegna er það auðsætt, að Sjálfstfl. hefur ekkert afl til þess í þinginu að gera slíkar róttækar breytingar á stjórnarkerfi, sem þar væri um að ræða, og það er barnaskapur af hv. þm. að láta sér detta í hug, að hann geti komið því inn, jafnvel hjá einföldum kjósendum, að í þessu efni sé hægt að saka minnihlutaflokk um það að hafa ekki komið fram sinni stefnu, hvað sem allir hinir flokkarnir segja. Hvernig var svo fjármálastjórn Framsfl., segir hv. þm., þegar hann er búinn að lýsa því, hvað útgjöld ríkissjóðs hefðu vaxið, síðan stríðið byrjaði. Hann virtist líta svo á, að allir lykju upp einum munni um það, að það væri mikill munur á fjármálastjórn Framsfl. og Sjálfstfl., Framsfl. hefði tekizt að halda útgjöldum ríkissjóðs fyrir neðan 20 millj. árin fyrir stríðið — þar sem í höndum Sjálfstfl. hefðu þessi útgjöld farið yfir 30 millj., eftir að stríðið hafði staðið í 2 ár. Dýrtíðin hefur aukizt í landinu, þannig að allur relatur ríkisins hefur orðið margfalt dýrari en hann þurfti að vera 1938. Úr því að hv. þm. spurði, hvernig fjármálastj. Framsfl. hefði verið, þá skal ég gjarnan svara honum því, úr því að hann vill fara að deila við samstarfsflokk sinn um ríkisstjórn. Ég vil minna hann á það, að fjármálastjórn Framsfl. var þannig, að hann hélt áfram að auka skuldir ríkissjóðs um tugi millj., jafnvel á mestu veltiárunum, og 1938 varð flokkurinn að hætta þessari fjármálastjórn. En af hverju varð hann að hætta? Af því, að þó að hann sendi legáta sína land úr landi til þess að reyna að fá meiri lán, þá tókst það ekki, af því að fjármálastjórnin hafði verið þannig, að það var komin svo mögnuð ótrú á fjármálastjórn landsins, að það var hvergi hægt að fá lán. Svona var fjármálastjórn Framsfl., úr því að hv. þm. vill knýja fram svar við því. Hv. þm. lýsti ánægju sinni yfir því, að nú væri aftur byrjað að höggva í skuldirnar. Öðruvísi mér áður brá. Einhvern tíma heyrði ég haft eftir einum, hans mesta fjármálamanni, að í miklum tekjuárum ætti að taka lán og borga þau svo, þegar tekjurnar minnkuðu. En hinu hefur Sjálfstfl. haldið fram, að það ætti að nota mikil tekjuár til þess að lækka skuldirnar, og það er satt, það þarf að gera það, og ég veit ekki betur en að það sé gert og það í góðri samvinnu við Framsfl. Ég veit, að hann (Framsfl.) er kominn á aðra skoðun im þessi mál en hann áður hafði.

Þá talaði hann um það, þessi hv. þm. (SkG), að fjármálaafgreiðslan á síðasta þingi hefði verið ógætileg. Ég get verið honum sammála um það að nokkru leyti, en hins vegar hefur samt reyndin orðið sú, að tekjurnar hafa farið langt fram úr gjöldunum. Ég hafði líka hugboð um, að svo mundi fara, á þingi því, er fjármálaafgreiðslan fór fram. Annars liggur það náttúrlega í augum uppi, að Sjálfstfl. sem minnihlutaflokkur á þingi gat ekki ráðið afgreiðslu fjárl.

Þessi hv. þm. talaði um og lagði áherzlu á, að nú væri gert ráð fyrir hækkandi launagjöldum, án þess að um dýrtíðaruppbætur væri að ræða. Þetta er rétt. Laun opinberra starfsmanna hafa hækkað nokkuð á undanförnum árum, til samræmis við aðrar stéttir, sem hafa fengið kjör sín bætt. Mér er hins vegar ljóst, að áframhaldandi grunnkaupshækkanir valda aukinni dýrtíð, en aukin og vaxandi dýrtið gerir að engu þær kjarabætur, sem fólkið fær.

Mér þótti hv. 6. landsk. miklu skemmtilegri ræðumaður en hv. þm. V.-Húnv. Röksemdir hans voru svo furðanlega hv er á móti annarri, að mig undraði stórum. T.d. talar hann um, að ég sé að lækka tekjuskattinn. Hann veit þó fullvel, að það skiptir engu máli, hvaða tala er sett í fjárlagafrv., tekjuskatturinn verður hvorki meiri né minni fyrir það. Svo snýr hann alveg blaðinu við, þegar hann talar um verðtollinn. Hann er mjög reiður yfr því, að ég sé að hækka hann og setji hann nú 10 millj., en hann gleymdi alveg s.l. ári, því að þá var hann 16 millj., svo að ég ætti þá heldur skv. því að vera að lækka hann. Ég veit ekki, hvort hv. þm. heldur, að hann græði á slíkum málflutningi sem þessum, en óhugsandi finnst mér, að sá gróði endist honum fram yfir næstu kosningar.

Hann sagði, að ríkisstj. hefði ekki framkvæmt dýrtíðarl, frá síðasta þingi, og taldi henni það mjög til ámælis, en svo slær hann því föstu, að ekki hefði átt að nota þessar heimildir nema svo og svo. En sannleikurinn er sá, að ríkisstj. hafði enga trú á því, að þær ráðstafanir, sem heimilt var að gera skv. l., kæmu að neinu gagni. Ég hef alltaf sagt það, að það er hreinn barnaskapur að ausa fé úr ríkissjóði, ef dýrtíðin heldur áfram að vaxa óhindruð. Það verður að búa svo um hnútana, að dýrtíðin stöðvist. Það er höfuðatriðið. En tollalækkanir eru alveg gagnslausar, ef dýrtíðarskrúfan heldur áfram að verka. Mér þótti sérstaklega gaman að honum, þegar hann var að tala um hina miklu sjóði hjá ríkissjóði. Hann gerði fyrirspurn þar að lútandi og lýsti hátíðlega yfir því, að hann mundi ekki sætta sig við, að Alþingi léti það mál hlutlaust.

Eins og það sé ekki hverjum manni ljóst, að, ráðstöfunarrétturinn á þessum sjóðum sé hjá Alþingi? Mér er sagt, að tími minn sé á enda, ég verð því að sleppa því að svara hv. 1. landsk. meira en ég hef gert í sambandi við hv. 6. landsk. En ég get ekki stillt mig um að minnast á það, þegar þessir hv. þm. eru sammála um að álasa mér fyrir að hafa notað heimildina um að innheimta tekjuskattinn með 10% álagi, en í sömu andránni eru þeir að álasa mér fyrir, að ég sé að lækka tekjuskattinn.

Hv. 1. landsk. var ákaflega montinn yfir till., sem hann kvaðst einu sinni hafa flutt um að hækka tekjur ríkissjóðs um 6 millj. kr., og að því fengnu átti allt að vera í lagi. En þessi till. mun hafa verið flutt, þegar allt var hér í kaldakoli, og enginn hægðarleikur að auka tekjurnar um 6 milljónir. En það er alveg í samræmi við kenningar hans og viðhorf til málanna að slá fram slíkum kenningum. Vandinn er enginn annar en taka meira af þeim ríku, þó að þeir ríku eigi ekki neitt — og minna en ekki neitt. En ég hef meiri trú á því að taka af þeim ríku, þegar vel gengur fyrir þeim, en þegar þeir ramba á barmi gjaldþrotsins.