04.03.1942
Neðri deild: 12. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (395)

17. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Flm. (Finnur Jónsson):

Alþingi 1939 var ég f.h. Alþfl. meðflm. að frv. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Þá var genginu breytt úr 22.15 ísl. kr. í 27 kr. Ástæður fyrir því voru þær, sem hv. þm. er kunnugt um, að í sjávarútvegi höfðu mikil vandræði ríkt um alllangt skeið, og þótti vera brýn þörf aðgerða, en samtímis var vitað, að erlendur gjaldeyrir var í raun réttri seldur miklu dýrar manna milli en skráða genginu nam, og það ósamræmi var óheilbrigt. Lausaskuldir bankanna erlendis voru komnar upp í 15 millj. kr. um áramótin, áður en gengið var lækkað. Gengisbreytingin hafði þau áhrif, sem til var ætlazt. Nú hafa hins vegar aðrir atburðir leitt til þess, að ástandið hefur alveg snúizt við. Sjávarútvegur hefur staðið sig sæmilega tvö undanfarin ár, þótt smábáta skorti sums staðar nokkuð til þess, síðan hinn svonefndi brezki samningur var gerður. Í stað 15 millj. lausaskulda var um s.l. áramót komin 170 millj. innstæða bankanna hér í erlendum bönkum. Nú geta bankarnir ekki lengur ráðstafað þessu mikla fé svo, að arður fáist af, og eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri er lítil móts við framboðið. Bankarnir hafa s. I. 2 ár keypt gjaldeyrinn of háu verði. Öllum ber saman um, að mikil nauðsyn sé að fá úr þessu bætt og verði þó því örðugra fyrir ríki og banka, sem það er látið dragast lengur að breyta til.

Við flm. frv. gerum þess vegna ráð fyrir, að gengið verði aftur fært til þess gildis gagnvart sterlingspundi, sem það hafði 1939, áður en breytt var. Sölugengi pundsins yrði þá 22.15 kr., en 4.03 dollarar reiknaðir í pundi og gengi annars erlends gjaldeyris ákveðið í samræmi við það. Ef til vill mætti deila um, hvort ekki væri rétt að fara lengra, en að svo komnu máli þótti rétt að binda sig við upphæð þá, sem lagt er til í frv.

Við breytinguna hljóta bankarnir og þá einkum Landsbankinn að bíða tjón á hinum miklu innistæðum sínum erlendis, og yrði ekki annað fært en bæta þeim það upp. Frv. gerir ráð fyrir, að ríkið greiði þeim þann halla að 9/10 hlutum, en þar sé áður dreginn frá hallanum hagnaður bankanna af lækkun erlendra skulda.

Eftir því sem næst verður komizt, virðast það vera um 18 millj. kr., sem bankarnir muni skaðast um. Við flm. gerum ráð fyrir, að þessu fé verði náð inn með því, m.a., að leggja sérstakan eignarskatt á árinu 1942 á þá eignaaukningu s.l. árs, sem nemur meira en 75 þús. kr., og nemi hann 15% af því, sem eignaaukningin er umfram það. Skatt þennan greiðir ríkið bönkunum, og ætti hann að nema 8–10 millj. kr. Árið 1940 varð eignaaukning (skattskyldra eigna) 32.5 millj. kr., og ekkert bendir til, að hún geti verið minni árið 1941. Það, sem til vantar, yrði ríkið að greiða úr dýrtíðarsjóði. Nú mundi ríkissjóður hagnast um 4 millj. kr. á skuldum sínum við gengisbreytinguna. Halli hans að því frádregnu ætti þá ekki að verða yfir 6 millj. kr.

Vitanlegt er, að ríkisstj. getur ekki útgjaldalaust fengið neinu áorkað af þýðingarmiklum dýrtíðarráðstöfunum — á þeim grundvelli, sem Alþingi í fyrra ætlaðist til. Þá kemur til álita, hvort þessu mikla fé, sem um ræðir, mætti ekki verja betur á annan veg í sama tilgangi. Nú er það svo, að gengishækkun mun vera sú dýrtíðarráðstöfun, sem einna framkvæmanlegust er og mundi valda minnstum ágreiningi.

Það var grundvöllur gengisskráningarl. frá 1939, að ríkisstj. gerði allt, sem unnt var, til þess að hægt yrði að halda niðri dýrtíðinni í landinu. fyrsta árið var nokkurn veginn reynt að standa við þau loforð. En þegar stríðsgróðinn tók að streyma inn í landið, keyrði þegar um þvert bak, og tillum hömlum var sleppt. Þó að bann gegn kauphækkun héldist allt árið 1939, hækkaði vísitala um 34% fyrir árslokin, því að erlendar vörur og margar innlendar voru hækkaðar. Upp úr því hverfur ríkisstj. um skeið öll viðleitni að halda innlendri vöru niðri. Seint og um síðir fór hún aftur að vakna. Í júní 1941 fær hún samþ. dýrtíðarlöggjöf, en hefur ekki framkvæmt hana að neinu leyti, nema fjmrh. hefur innheimt tekjuskatt með viðauka. Ekki hefur verið haft eftirlit með hækkun farmgjalda, ekki felldir burt tollar af nauðsynjavörum né neitt gert, sem almenningi var fyrirheitið í l. og lofað aftur á haustþinginu. Í staðinn hefur ríkisstj. sett lögþvingaðan gerðardóm, og orkar það meir tvímælis en nokkur dýrtíðarráðstöfun, sem nokkur ríkisstj. hefur gert á síðari árum, og virðist ekki heldur ætla að koma að neinu haldi. Þeir, sem þurfa að fá vinnukraft og halda honum. kaupa hann eins háu verði og þeir þykjast þurfa, hvað sem gerðardómur segir. Þær stéttir, sem hann hefur dæmt frá kauphækkun, síðan hann tók til starfa, hafa í raun og veru fengið meiri eða minni kauphækkanir samt. Þá er og auðséð, að verðlagsákvæði þau, sem gerðardómurinn hefur verið látinn setja, muni að engu haldi koma. Bak við dóminn standa Framsfl. og Sjálfstfl., sem mundu aldrei geta komið sér saman um neinar dýrtíðarhömlur, sem yrðu annaðhvort að tjóni verulegum hluta bænda, sem halda Framsfl. uppi, eða heildsölum og þeim öðrum í verzlunarstétt landsins, sem halda bezt uppi Sjálfstfl. Framsfl. telur sér lífsnauðsyn að halda sem hæstu verði á landbúnaðarframleiðslu innan lands af ótta við kjósendur, og ekki hefur Sjálfstfl. minni ástæðu til að óttast um sig, svo að tilraunir þessara flokka saman eru fyrir fram dæmdar til að renna út í sandinn. hetta hefur komið hvað berast í ljós þann stutta tíma, sem dómurinn hefur starfað. Eitthvað meira þarf til, ef sýna skal, að nokkur alvara sé að baki öllu skrafinu um lækkun dýrtíðarinnar.

Alls staðar blasir við aðgerðaleysið, ekkert efnt af loforðum, þegar framkvæmd húsaleigal. er undan skilin. Eins og nauðsyn var 1939 að hjálpa sjávarútvegi og bönkum með gengisbreytingu, þarf nú gagnstæða breytingu til að skapa meira jafnvægi og réttlæti, og menn hljóta að viðurkenna það við að lesa grg. frv.

Það er vitanlegt að því lengur sem dregst að færa gjaldeyrinn í það verð, sem nokkurn veginn mætti telja rétt, eins og utanríkisverzlun landsins er nú háttað, því erfiðara verður það fyrir ríkisstj. og bankana. Það hefur almennt verið viðurkennt, að gjaldeyririnn sé ekki rétt grundvallaður eins og sakir standa, og það hefur jafnframt verið viðurkennt, að gengi íslenzku krónunnar væri of lágt. Jafnframt hafa verið færðar fram ástæður fyrir því, að það væri ekki hækkað, að samningar okkar við erlendar þjóðir gerðu það að verkum, að slík leiðrétting væri ómöguleg. Nú hefur þessum þröskuldi verið rutt úr vegi, þannig, að Alþ. ræður nú sjálft yfir því, hvernig það skipar þessum málum. Eftir hverju er þá að bíða? Nú er keyptur gjaldeyrir af setuliðinu hér fyrir verð, sem er allt of hátt. Enn fremur vitum við, að inn í landið eru fluttar stórar upphæðir af stríðsgróða, og þær eru fluttar inn með sama gengi og var 1939, þegar togaraútgerðin var á fallanda fæti. Þær eru fluttar inn með því verði, sem engum blandast hugur um. að ekki nær nokkurri átt. Svo er haldið áfram að auka kaupmátt þessara stóru fyrirtækja, sem með stríðs„spekulationum“ hafa orðið til þess að auka dýrtíðina í landinu. Ég vil upplýsa það, að meðalsala togaranna hefur verið 260 þús. kr. í hverri ferð. Þessar tölur auka mjög ört innieignir bankanna í útlöndum, og því lengra sem líður, því erfiðara verður að færa þetta til hins rétta vegar. Í frv. þessu höfum við auk þess gert ráð fyrir því, að bönkunum verði greiddur verulegur hluti af þeim halla, sem þeir verða fyrir við þessa breytingu. Við gerum ráð fyrir því, að á meðan brezk-íslenzki verzlunzrsamningurinn er í gildi, þá verði útvegsmönnum og sjómönnum bættur sá skaði, sem þeir verða fyrir við þessar breytingar. Eins og kunnugt er, þá er brezk-íslenzki verzlunarsamningurinn þannig úr garði gerður, að þó að gengið breytist, mundi ekki breytast verð á þeim útflutningi, sem seldur er samkvæmt samningnum. Ber þá nauðsyn til að bæta sjómönnum og útvegsmönnum þetta upp og það því fremur, sem dýrtíðin hefur vaxið í landinu frá því að samningurinn var gerður, þannig að þessi stétt manna hefur ekki fengið neina uppbót til samræmis við aðrar stéttir. Ég tel, að þetta frv. sé þannig úr garði gert, að það sé bæði réttlátt og raunhæft. Það er réttlátt að því leyti, eins og ég hef þegar rökstutt, að það er einfaldasta og öruggasta dýrtíðarráðstöfunin, sem hægt er að gera á þessum tímum. Það er einnig réttlátt að því leyti, að það færir gjaldeyrisverzlunina í það horf, sem öllum ber saman um, að hún eigi að vera í á þessum tímum. Það er raunhæft, af því að það er einfalt í framkvæmd. Það er réttlátt, af því að til þess a ð bera uppi kostnaðinn við frv. er gert ráð fyrir, að tekinn sé skattur fyrst og fremst af þeim mönnum og fyrirtækjum, sem hafa hagnazt á því, að gjaldeyrisverzlunin er ekki í því lagi, sem hún ætti að vera. Ég læt þetta nægja að sinni, en vænti þess, að frv. þetta fái góðar undirtektir á Alþ. og verði að lögum.