27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég ætla ekki að lengja. umr. ákaflega mikið. Ég ætlaði mér að segja nokkur orð við 2. umr. málsins, en það atvikaðist svo, að ég gat ekki. komið því við.

Út af því, sem um þetta mál hefur verið sagt hér í þessari hv. d. af andmælendum þess, vil ég án þess að fara að rekja það í einstökum atriðum aðeins lýsa yfir því, að ég get ekki fyrir mitt leyti viðurkennt það, að ríkisstj. verðskuldi nokkur ámæli fyrir það, sem ýmsir hv. þm. hafa talað um., en það er vanræksla hennar í því efni að sporna á móti verðhækkunum í landinu. sannleikurinn er sá, að aldrei hefur neinn grundvöllur til þess að sporna á móti verðhækkunum í landinu verið til, fyrr en þessi lög voru sett.

Hv. þm. tala ákaflega hátt, eins og hv. síðasti ræðu., og slá á tilfinningastrengi og aðra strengi í sambandi við þetta mál. Þeir hrópa upp, að hér séu á ferðinni kúgunarlög o.s.frv., og heimta í öðru orðinu, að gerðar séu ráðstafanir til að halda dýrtíðinni niðri, en gera sér þó ekki ljóst, hvað það er, sem þarf til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Að halda dýrtíðinni niðri er það sama og að halda framleiðslukostnaðinum innanlands niðri. Án þess er það ekki hægt. Það er ekki nema sjálfsblekking, ef menn halda, að hægt sé að greiða svo og svo mikið fé úr ríkissjóði til þess að borga mismun afurðaverðs, því að dýrtíðin er til staðar þrátt fyrir þetta. Hún er með þessu falin, en kemur í ljós strax, þegar ríkissjóður verður að hætta að borga, þegar hann á enga peninga til. Eina ráðið til þess að vinna á móti dýrtíðinni er að halda niðri framleiðslukostnaðinum, og það hafa þessi lög gert, sem banna hækkanir á kaupi og afurðaverði umfram það, sem ákvarðast af dómnum. Hitt er svo annað mál, hvort við höfum nokkurn tíma verið þess megnug að halda dýrtíðinni, þ.e.a.s. framleiðslukostnaðinum, niðri. Það hef ég verið í miklum vafa um og er enn. En ofan í margendurteknar áskoranir þingsins í þessa átt, sá ríkisstj. sér ekki fært að láta lengur hjá líða að gera þá úrslitatilraun, sem felst í lagasetningu þeirri, er hér um ræðir. Hvort sú tilraun mistekst, eins og þeir hv. þm., sem tala á móti frv., hafa spáð, það er annað mál. Reynslan verður að skera úr um það.

Ástæðan til þess, að við höfum ekki það vald yfir þessum málum, sem nauðsynlegt kann að vera, er sú, að við erum ekki einráð um, hver framleiðslukostnaðurinn í landinu verður. Þetta hefur verið ljóst frá upphafi þessa máls. Og það verða allir að gera sér grein fyrir, hvernig ástandið er og hvað af því mundi leiða, ef við slepptum dýrtíðinni lausri og létum skeika að sköpuðu með hækkun kaupgjalds og afurðaverðs. En af því leiddi, þegar horfin eru. þau utanaðkomandi öfl, sem nú eru hér að verki, atvinnuleysi og verðhrun og mesta nauðungarástand bæði fyrir framleiðendur og verkamenn. Það var þetta, sem átti að fyrirbyggja með því að setja þessi lög. Ef þau bresta, þá er ekki hægt að gera við því, en þá kemur að því síðar, að það verður að gera ráðstafanir hliðstæðar þeim, sem með þessum lögum hafa verið gerðar.

Ég endurtek svo það, að ég fyrir mitt leyti tek ekki við neinum ákúrum fyrir að hafa brugðizt því að reyna að halda dýrtíðinni niðri, því að þau meðul, sem ríkisstj. voru fengin í hendur til þess, voru gersamlega ófullnægjandi. Ég býst annars við, að um þessi mál verði ýtariegar rætt á nokkuð öðrum grundvelli. Ég geri ráð fyrir, að þau beri á góma á fundi þeim, sem boðaður hefur verið fyrir luktum dyrum í sameinuðu þingi í kvöld, og þá gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál. Og að sjálfsögðu ber þá á góma það, sem hv. 4. þm. Reykv. var nú að tala um, samvinnu á milli ríkisvaldsins og verkalýðsins í þessum málum, sem vel getur verið æskileg, og ef til vill, eins og hann komst að orði, getur orðið eina úrræðið, og er í rauninni það æskilegasta, ef slíkt er mögulegt. En þá verða menn að gera sér ljósa grein fyrir því, að uppskrúfun á kaupgjaldinu er engin lækning á ástandinu. Og ég vil í því sambandi vísa til þess, sem fregnir berast nú af, t.d. frá Bandaríkjunum, og upp hefur verið tekið víðs vegar um lönd, hvaða ráðstafanir þar eru gerðar til þess að halda niðri dýrtíð. Og við þurfum ekki að hugsa okkur, að við höfum aðrar leiðir en þær, sem þar eru reyndar.