20.03.1942
Efri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

8. mál, vegabréf innanlands

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er rétt, að það hefur farið í vöxt, að vegabréfa væri krafizt. Enn fremur hefur herstjórnin farið fram á að fá helzt afrit af öllum vegabréfum, til þess að hægt væri að bera þau saman. Stafar þetta af því, að herstjórnirnar hafa þótzt komast að því víða annars staðar, að allur almenningur væri ekki eins hlynntur stefnu þeirra og þær töldu nauðsyn til bera.

Af þessu stafar sú tortryggni, sem Íslendingum er sýnd, sem ég vil segja að sé að ástæðulausu. Hér hefur aldrei neitt það borið við, sem hægt er að kenna skemmdastarfsemi í neinni mynd. Af þeim sökum er okkur sýnd meiri tortryggni en hægt er með góðu móti að þola og sætta sig við, og tel ég það höfuðverkefni ríkisstj. að fá þessi mál leyst á viðunandi hátt. Hitt er vitanlega hægt að taka til athugunar, og alveg sjálfsagt að láta lögreglustjóra hafa þessi skírteini til, ef einhverjir óska eftir þeim, og mun ég láta dómsmálaráðuneytið fyrirskipa það. Hins vegar geta þeir, sem hér eru, fengið vegabréf hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, þótt þeir séu búsettir annars staðar.