06.03.1942
Neðri deild: 14. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (400)

22. mál, vegalög

*Flm. (Steingrímur Steinþórsson):

Þetta frv. er ekki nýr gestur hér, það hefur verið flutt á tveimur þingum áður.

Frv. fjallar um breytingar á þjóðvegum í Skagafirði, og er um 2 breytingar á vegalögunum að ræða.

Önnur breytingin snertir Sauðárkróksveginn, þ.e. veginn frá Sauðárkróki fram héraðið. Nú nær þjóðvegurinn til Varmahlíðar, en byggðin þar fyrir framan er þéttbýl og þarf 2 vegaraðir. Lagt er til í frv., að vegurinn frá Varmahlíð og til Goðdala verði tekinn í þjóðvegatölu. Alveg sérstök ástæða er til þess nú, þar sem fyrirsjáanlegt er, að bændur þarna í framsveitunum verða að skipta nokkuð um búnaðarhætti, og leggja nú meiri stund á framleiðslu mjólkur vegna þess, að mæðiveikin herjar nú á sauðfénað þeirra.

Það er að vísu álitamál, hvort rétt hafi verið að þenja þjóðvegakerfið eins mikið út og raun ber vitni. En flm. þessa frv. eru sannfærðir um, að þessi breyt. á vegal. á meiri rétt á sér en margir aðrir vegir, sem teknir hafa verið í þjóðvegatölu. Og þetta frv. mun því verða borið fram af þm. Skagfirðinga, hverjum sem eru á hverjum tíma, unz fullu réttlæti er náð.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þessa breytingu.

Hin breytingin, sem gert er ráð fyrir í frv., er sú, að vegurinn fram Hegranesið allt til Eyhildarholts verði tekinn í þjóðvegatölu. — Ég skal játa, að þessi vegur mun ekki eiga eins mikinn rétt á sér og hinn vegurinn, frá Varmahlíð til Goðdala, en engu að síður munu þó ónauðsynlegri vegir en þessi hafa verið teknir í þjóðvegatölu.

Það hagar nú þannig til á Hegranesinu, að þar þarf tvöfalda vegaröð, en sýslufélaginu er með öllu ókleift að standast allan þann kostnað, er af því leiðir.

Ég vil svo óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og samgmn. að lokinni þessari umr.