27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

Fjmrh. (Jakob Möller):

Þessi rakahringrás hv. 4. þm. Reykv. er óþægileg í meðförum, því að svo lengi er hægt að snúast hring í kringum sjálfan sig, að ekki verði fest hönd á manni, að það má æra óstöðugan. Þessi setning hv. þm., að það sé hægt að halda niðri framleiðslukostnaðinum, þó að vinnulaun hækki (EOl: Vöruverðið) —. Hann vildi skýra það svo, að það, sem ég ætti við með framleiðslukostnaði, væri vöruverðið. Ég held, að ef framleiðslukostnaður vex, verði vöruverð að hækka, og hann játaði það, en fór svo létt yfir það. Hann sagði um kaupkröfur járnsmiðanna, að þá hækkun hefði mátt taka af járnsmiðjunum, af því að þær græddu svo mikið. Það kann rétt að vera, en það eru til minni framleiðendur, sem hafa minni gróða og kannske tapa, og þeir þola ekki þessa hækkun á framleiðslukostnaðinum. En hann vill þá láta borga þeim til. En hvernig standa þessir menn, þegar upp er staðið? Þá standa þeir eftir með framleiðslukostnaðinn, en þá er þeim ekkert borgað til, af því að þá er ekkert til að borga þeim. Nei, þetta verður ekki gert nema með því að halda raunverulega framleiðslukostnaðinum niðri. Svo vill hann ólmur ná í stríðsgróðann, en það er gert á annan hátt. Það er gert með sköttum. Og þegar skattarnir eru komnir upp í 90%, þá er það allmikill hluti, sem þannig er tekinn. Hann segir, að stríðsgróðamenn fái mikið undanþegið sköttum; sem þeir megi leggja í varasjóð, en þeir eiga eftir að endurnýja tæki sín, þegar þessu ástandi linnir, og til þess, er ætlazt, að þeir verji því fé, sem þeir fá undanþegið skatti, en meiri hl. gróðans fer í ríkissjóð og verður varið til að létta það neyðarástand, sem hlýtur að koma, þegar þessari gróðaöld linnir. Þess vegna er ekki hægt að taka eina framleiðslugrein og segja, að hún þoli þessa hækkun á kaupinu, því að það eru aðrar framleiðslugreinar, sem þola hana ekki, nema. verðið sé hækkað eða þá að fá styrk af opinberu fé. Ef afurðaverðið hækkar, þá er dýrtíðin í algleymingi. Ef styrkur er veittur af opinberu fé, þá er grundvöllurinn falskur. Þá er allt syndandi kviksyndi, af því að það er ekki hægt óendanlega að halda þessum atvinnurekstri uppi með styrk af opinberu fé. Og hvað verður þá gert? Annaðhvort verður að skera kaupið niður eða þá að atvinnureksturinn verður að leggjast niður, því að ef öllu fé, sem er til ráðstöfunar hjá því opinbera, hefur verið varið til að halda uppi falskri afkomu atvinnurekstrarins, þá verður ekkert til að gera það með, þegar virkilega á reynir.

Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að dýrtíðin yrði ekki læknuð með uppskrúfuðu kaupi, honum var illa við það orð —, en hann sagði, að fátækin yrði læknuð með því. En það er nú meinið, að það er ekki, og af þessari ástæðu, sem ég hef tilgreint, að uppskrúfað kaup hlýtur að færa með sér aukna dýrtíð og ézt þess vegna upp, eins og reynslan á undanfarandi tíma sýnir, svo að ekki þarf um það að deila, það er öllum ljóst. Þessi felumynd, sem hann býr sér til, að það sé hægt að fela það raunverulega ástand með ýmiss konar tilfærslum, er ekkert nema sjálfsblekking, — fátæktin verður alltaf sú sama.

Hann undirstrikaði mjög ákaft, að í þessum verkföllum, sem hér hófust í vetur, hefðu ekki tekið þátt nema um 500 m;enn, og hefði ekki munað miklu að verða við kröfum þeirra. Það má kannske segja þetta, en ég veit, að þessi hv. þm. telur það sjálfsagt, að ef þessir menn hefðu fengið kröfum sínum framgengt, þá hefðu allir komið og fengið sams konar hækkun og hækkun ofan á hana, þegar hefði samt sig, að dýrtíðin hefði haldið áfram að vaxa. Þetta kalla ég uppskrúfun, — við getum sleppt að deila um orðið, það er sama, hvað það er kallað —, en þetta orð er ekki, fjarri lagi, þegar hvað skrúfar annað upp, verðlag og kaupgjald, með þessum hætti.

Fleira þarf ég svo ekki um þetta að segja að sinni.