29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég vil vekja athygli hv. þm. Ísaf. á því, er hann segir, að stjórnin sé með gerðardómsl. að ráðast á kaupgjaldið í landinu, að gerðardómurinn á bæði að dæma í kaupgjalds- og verðlagsmálum og hefur því þannig tvöfalt hlutverk. Þetta er því röng málafærsla, vísvitandi röng, og það er þessi stigamennska, sem á sinn stóra þátt í, að ekki hefur tekizt að ná þeim árangri, er mátti búast við af þessum l., og mistekst e.t.v., — ég hef ekki styrkzt í þeirri trú, að hann náist. Hins vegar þarf ég engar upplýsingar um það frá hv. síðasta ræðumanni, hvernig ég lít á það mál sjálfur.

Það hefur átt sinn mikla þátt í mistökum þeim, er orðið kunna að hafa á framkvæmd þessara l., að andúð hefur verið blásið upp gegn þeim í hreinu áróður skyni. Það er sú þjóðhollusta, er sumir menn hafa sýnt í þessu máli. Hv. þm. Ísaf. sagðist hafa talað við ýmsa menn til sjávar og sveita, er fullyrt hefðu, að l. þessi mundu verða brotin. M.ö.o., þeir upplýsa ekkert, að þau hafi verið brotin, en það kemur málinu ekkert við, hverju þeir spá um framtíðina. Ef l. lognast út af, þá kemur vitanlega aldrei til þessa. Þó vil ég vekja athygli á því, að l. hafa þegar í rauninni gert það, sem þau áttu fyrst að gera, að stöðva kauphækkanir. Gerðardómurinn mun að vísu hafa hækkað grunnkaup lítillega í einni iðngrein hér í bænum, en almenn kauphækkun í uppsiglingu var stöðvuð.

L. eiga að gilda til loka þessa árs, því að þá eru vinnusamningar aftur útrunnir. Þeir eru nú ekki útrunnir fyrr,. en annars hefði mátt setja annað tímatakmark. Og gerðardómurinn þarf að starfa þetta tímabil, þótt ekki væri til annars en að hafa hemil á verðlaginu.

Menn hafa heimtað, að stjórnin gerði allt til að stöðva dýrtíðina, og hún getur þá aftur krafizt af þessum mönnum, að þeir viti, hvað þeir eru að heimta. En er stjórnin gerir sínar ráðstafanir í þessa átt, skeður það furðulega, að þeir sömu snúast hinir verstu við. En þingið verður að komast að niðurstöðu í þessum málum.

Hv. þm. Ísaf. ber höfðinu við steininn og segir, að stjórnin hefði getað gert allt samkv. dýrtíðarl. Nú skal ég staðhæfa, að þá var ekki hársbreidd milli mín og ráðh. Alþfl. Forsendurnar fyrir framkvæmd l. voru aldrei uppfylltar. Í þeim var gert ráð fyrir, að athugaður yrði og áætlaður raunverulegur framleiðslukostnaður þeirra vara, er átti að verðbæta. Og ráðh. Alþfl. var .mér sammála um bað, að skilyrðið fyrir framkvæmd l. var það, að þessi athugun yrði látin fara fram. En þá athugun var ekki hægt að gera, meðan verðlagsnefndir þær, er fjalla um þessar framleiðsluvörur, voru þannig skipaðar sem þær voru og eru. Ég fullyrði, að um þetta var ekki ágreiningur milli mín og ráðh. Alþfl.

Hv. þm. Ísaf. sagði, — ég ætla það hafi verið hann —, að menn mættu ekki taka of mikið mark á þeim fregnum, er útvarpið hefur nýlega flutt um dýrtíðarráðstafanir í Bandaríkjunum. þar eð við vissum ekki um, hvernig I. þessi væru framkvæmd. En við vitum þó og höfum hér grundvallaratriði, sem er lögfesting kaupgjaldsins þar. En það er einmitt það, sem hér er farið fram á, og þetta er vissulega sambærilegt. Nei, sannleikurinn er sá, að það vandræðaástand ríkir hér, að menn vilja ekki beygja sig fyrir þjóðarnauðsyn. Menn vilja aðeins gaspra um það aftur og fram, að dýrtíðina verði að stöðva. Þeir segja, að ekki sé hægt að bera saman ráðstafanir í þessum efnum með þjóðum, er berjist fyrir lifi sínu og frelsi, og ráðstafanir hér á sama sviði.

En erum við ekki einnig að berjast fyrir lífi okkar og frelsi? Er mönnum enn ekki orðið ljóst, að við dönsum nauðugir viljugir með í hinum mikla Hrunadansi?

En hér verður að færa fórnir, ef árangur á að nást. Hitt er svo annað mál, hvort við getum haft fullkomið vald á þessum málum.

Ég hef frá byrjun efazt nokkuð um, að þessi lög næðu öllum tilgangi sínum. Það var mest undir landsfólkinu sjálfu komið. Og þótt það brygðist allt, þá var það, hvernig gengi að semja við hina erlendu aðila hér. Það hefur gengið hálfbögulega hingað til, og er jafnvel talað um, að þeir bjóði stundum helmingi hærra en taxtakaup.

Það sjá því allir, að það er engan hemil hægt að hafa á þessu, nema hægt sé að semja við setuliðið. En hvers vegna mega ekki íslendingar fá þetta háa kaup? spyrja menn. Það er af því, að það miðar að því að gera þetta sama kaup verðlaust.

Fyrsta skilyrðið fyrir því, að, Alþ. geti tekizt að sporna við þeim ósköpum, sem eru að dynja yfir landið í fjárhagsefnum, er það, að þingm. geri sér ljóst, hvað hér er um að ræða, og fremur er von til, að þeir geri það nú eftir þessar umr.

Ég skildi það þannig, að hann hefði sagt, að grunnkaupshækkun hefði ekki áhrif á dýrtíðina, og það var af því meðfram, að þessu hafði áður verið haldið fram af flokksmönnum hans í opinlerum umr. um þetta mál og jafnvel í útvarpsumr. Og þar var jafnvel vitnað í enskan ráðherra, sem hafði fundið þann vizkustein, að grunnkaupshækkun, eða ég held kauphækkun yfirleitt, hefði engin áhrif á verðbólguna. Ef hv. þm. Ísaf. hefur ekki ætlað að segja annað en það, að grunnkaupshækkun hefði ekki haft áhrif á þá verðbólgu, sem hér á landi hefur átt sér stað, þá er það sama sem hann hefði slegið því föstu, að hér hefði ekki átt sér stað nein grunnkaupshækkun. En er hann, hv. þm., viss um, að hér hafi ekki orðið grunnkaupshækkun, sem hann gerir sér ekki grein fyrir? Hefur ekki orðið á þessum tíma grunnkaupshækkun í sveitunum? Hefur ekki orðið virkileg grunnkaupshækkun í sveitunum? Hvað var borgað hátt kaup við sveitavinnu í fyrrasumar, og hversu hátt kaup var borgað þar sumurin þar áður? Ég ætla, að jafnvel hafi verið dæmi til þess, að það hafi verið borgað þrefalt í fyrrasumar í sveitum á við það, sem þar var borgað fyrir stríð. Er þetta ekki grunnkaupshækkun? Og er það ekki vegna þessarar grunnkaupshækkunar m.a., sem verð á landbúnaðarafurðum hefur hækkað eins og það hefur gert? Og komumst við þá ekki að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið grunnkaupshækkun, sem hafi valdið nokkru um dýrtíðina, sem hér hefur átt sér stað.

Af þessu, sem fram er komið, getur maður séð, að hv. þm. er eitthvað farið að óra fyrir því, að verðbólgan kunni að eiga að einhverju leyti orsök sína í þessum hlutum, — eins og raunar hefur verið skýrt allrækilega af þeirra fræðimönnum í Alþfl., sem um þetta hafa ritað opinberlega, hversu þakklátt sem það nú kann að hafa verið í þeirra hópi.

En, sem sagt, ef hæstv. Alþ. vill ekki viðurkenna þessa staðreynd, að ef á að halda niðri verðbólgunni, þá verði að halda niðri framleiðslukostnaðinum og þar með kaupgjaldinu, þá er ekki til neins að vera að tala um að halda niðri verðbólgunni í landinu. Hitt er svo annað mál, að það getur verið, að það fari út í sandinn hjá hæstv. þingi og ríkisstjórn, hver sem hún kann að verða. En það er skylt að mínu áliti að gera tilraun til þess í þessu efni að forða frá fári. Hv. þm. Alþfl. og Kommúnistafl. geta svo reynt að gera sér þann mat úr því á pólitískum fundum að afflytja þá viðleitni í eyru minna fróðs almennings í landinu. En þeir verða því vissulega að vera við því búnir, að aðrir keppinautar þeirra, t.d. í Vestmannaeyjum, reyni að leggja þá á þeirra eigin brögðum. Og það er hart fyrir þá, sem hafa fundið upp þetta herbragð, að leggjast á móti Sjálfstfl. af þessum sökum, að fá svo skollans sjálfstæðismennina á hálsins til þess að verða fyrri til þess á fundum að mæla með þessum ósköpum. En þetta er ekki annað en það, sem þeir mega búast við. En svo, þegar hv. 4. landsk. kemur hér og byrjar með því að segja, að þessi till., sem hann talaði um, hafi verið borin fram af óheilindum af þessum sjálfstæðismönnum í Vestmannaeyjum, sem var samþ. þar af 600–800 manns, þá liggur nærri að spyrja: Af hve miklum óheilindum samþ. þessi 600–800 manns þá till.? Ég held því, að það verði deig vopn, sem þessi hv. þm. reynir að bera fyrir sig í þessu efni, og lítið mark sé takandi á slíkum samþykktum.