09.03.1942
Neðri deild: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (423)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti 1 Þetta mál er kunnugt hv. d., frá síðasta aðalþingi, þegar það var rætt hér, og kemur nú fram svipað og þá. Ég mun því ekki þurfa að halda hér langa ræðu, en aðeins drepa á nokkur helztu atriðin. Að öðru leyti nægir að vísa til þingmálafundagerða frá síðasta ári víðs vegar um landið, um að fá leiðréttingu og lagfæringu á l. um dragnótaveiði í landhelgi.

Á síðasta aðalþingi voru flm. frv. sammála um, að dragnótaveiði yrði aðeins heimiluð nokkurn hluta ársins, eða í júní, júlí og ágúst. Við umr. um málið kom fram, að vegna lagna tundurdufla á fiskimiðum, bæði fyrir Vestfjörðum og Austfjörðum, teldist ósanngjarnt að skerða rétt þeirra báta, er nota þetta veiðitæki, og með tilliti til þess gerðu þm. Norðlendingafjórðungs breyt. á þessu, og eru nánar tiltekin svæði í 1. gr. frv. Eðlilegast hefði verið að ákveða svæðið frá Hornbjargi til Langanesstáar, en við nánari athugun taldist rétt að taka ekki alveg að Hornbjargi, og var ekki farið lengra en að Geirólfsgnúpi á Ströndum. Þarna var tekið tillit til Vestfjarðabátanna. Hins vegar lágu fyrir óskir frá útvegsmönnum í N.-Múlasýslu, bæði við Bakkaflóa og Vopnafjörð, um að dragnótaveiðinni væri stillt í hóf og að friðaða svæðið yrði að Borgarey á Héraðsflóa. Um aðra landshluta hafa verið látin gilda sömu ákvæði og áður. Það virðist svo, sem óskirnar um lengingu friðunartímans séu helzt úr Norðlendingafjórðungi, og er það af tveimur orsökum. Í fyrsta lagi eru firðirnir norðanlands grunnir og góðir fyrir dragnótaveiði, bæði af þeim sökum og einnig af því, að botninn er sérstaklega góður. Í öðru lagi eru aðaluppeldissvæði flatfisksins fyrir Norðurlandi, og hann vilja menn vernda. Hér er því tvennt, er til greina kemur: Annars vegar hagsmunir smáútgerðarinnar og hins vegar umhyggjan fyrir því, að stofn flatfisksins fái að aukast.

Um 2. og 3. gr. frv. gildir sama og í fyrra. Ég tel ástæðu til, að sú n., er fær þetta til athugunar, finni ástæðu til, að reglugerð verði gefin út af atvmrn. um gildandi l. um dragnótaveiði, því að menn eiga erfitt með að átta sig á, hvað séu l. og hvað ekki.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en óska þess, að frv. verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr. Ég vil víkja því til hv. d., að við, sem að þessu frv. stöndum, gerum það vegna þess, að frá kjördæmum okkar hafa komið fram óskir um að fá leiðréttingu á gildandi ákvæðum um dragnótaveiði. Þessar raddir verða háværari með hverju árinu, sem liður, og hafa svo mikið til síns máls, að Alþ. verður að taka þær til greina.