09.03.1942
Neðri deild: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (424)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Finnur Jónsson:

Ég skal ekki tefja mikið umr. um þetta, en þetta mál er gamall kunningi, og mér þykir ólíklegt, að það slysist í gegnum Alþ. nú. Það hefur verið reynt að hafa mismunandi veiðitíma í einstökum landsfjórðungum, og óskir hafa komið fram um að breyta því frá þeim, sem hafa stuttan veiðitíma. Annars má vera, að almennar óskir komi frá Norðlendingafjórðungi um friðun, en það er ekki af þeim ástæðum, sem hv. 1. flm. lýsti, heldur af því, að Norðlendingar eru ekki komnir upp á að stunda dragnótaveiðar eins og aðrir landsmenn. Hv. 1. flm. taldi eina aðalástæðuna fyrir friðuninni vera að vernda flatfiskinn, og er ég hissa á honum, sem er sérfræðingur í fiskifræði, að segja annað eins og það, því að á haustmánuðunum er hrygningartími kolans löngu liðinn, og það er því langskaðlausasti tíminn til að veiða hann, og þegar markaðurinn er langbeztur.

Ég hef áður lýst afstöðu minni til frv. og tel því ekki ástæðu til að hafa þetta lengra að sinni.