09.03.1942
Neðri deild: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (425)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Stefán Stefánsson:

Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta frv., því að það er líkt frv. á aðalþinginu í fyrra. Það var samþ. í Nd., en dagaði uppi í Ed., og hefur komið fram mikil óánægja víðs vegar yfir því. Ég vil aðeins lesa upp kafla úr bréfi, er lýsir vel skoðun útgerðarmanna og sjómanna við Eyjafjörð á þessu máli. Ég vil biðja hv. sjútvn. að taka vel eftir því, sem þeir segja. Bréfið er á þessa leið: „Þetta er barátta, sem vér munum trauðla gefast upp með, það er að segja á meðan athafnakjarkur hinna fjölmörgu smáútvegsmanna bíður ekki aldurtila á þröngsýni valdhafanna. Vér finnum ekki hjá oss, að neinum sé óréttur gerður með kröfu vorri um friðun Eyjafjarðar fyrir dragnótaveiðinni, meðan til eru lög í landinu, sem banna botnvörpuveiði á fjörðum inni, því að eins og nú er háttað dragnótaveiðinni, er enginn munur á henni og botnvörpunni. Þetta munum vér rökstyðja á eftirfarandi hátt: Það er áþreifanleg staðreynd, að línubátarnir steinhætta veiðum, þegar þeir verða varir við dragnótabátana, af ótta við veiðarfæratap. Hér yrði auðvitað sama útkoman, ef togarar færu að veiða í firðinum. Með öðrum orðum, að hið sama skeður í báðum tilfellum, menn eru neyddir til, hvernig sem á stendur, að hætta að bjarga sér, meira er víst ekki hægt að ætlast til. Það er líka ómótmælanleg staðreynd, að dragnótabátarnir hætta ekki veiði í firðinum fyrr en hvergi er neitt að hafa. Setri sagt, þeir þurrka upp fiskgöngurnar, áður en þeir hverfa brott. Sama mundi auðvitað gilda með togarana, ef þeir mættu veiða innfjarða, aðeins mætti e.t.v. segja, að þeir yrðu fljótari að skrapa það, sem til væri, en það skiptir í raun og veru engu máli fyrir róðrarbátana, hvort það tekur tvo eða fjóra daga að þurrka upp, eins og það er kallað, því að flestir munu víst geta sett sig inn í það, að enginn kærir sig um ið leggja í kostnað og fyrirhöfn til þess að róa á dauðan sjó. Ýmsir þeir, er andmælt hafa þessum samtökum vorum, gera mikið veður út af því, að dragnótaveiðin sé hraðfrystihúsunum til lífsviðurværis, og mun það hafa átt að gilda meðan róðrarbátar söltuðu, en dragnótabátarnir veiddu frekar þær tegundir, sem illt eða ógerlegt þótti að salta, svo sem ýsu, steinbít og kola. Þetta hefði sennilega getað verið mjög handhægt slagorð, ef forsjónin hefði ekki lagt upp í hendur vorar á síðasta ári mjög svo áþreifanleg rök gegn þessari fullyrðingu. Svo bar við samkvæmt ensku samningunum, að verð á fiski til hraðfrystihúsanna var allmiklu lægra en í skip og hvernig sem farið var með hann öðruvísi. Menn skyldu nú halda, að dragnótabátarnir hættu ekki viðskiptum við hraðfrystihúsin fyrir þetta, þar sem þeir eiga einir að halda þeim uppi. En svo fór nú samt, að þeir reyndu allar mögulegar leiðir aðrar en að veiða fyrir frystihúsin, jafnvel það að hætta veiðum, þegar enginn vegur var að selja í skip. Ónei, sannleikurinn er sá, að róðrarbátarnir leggja nú orðið meiri fisk upp í hraðfrystihúsin en dragnótabátarnir, síðan meiri jöfnuður varð á fiskverðinu, það er að segja, þegar þau eru samkeppnisfær með verð. En ef þau eru það ekki, þá fá þau auðvitað engan fisk og ekki frá dragnótabátunum heldur. Að endingu gætum vér sýnt fram á þann gífurlega straum manna að hinni ólífrænu atvinnu, sem engin takmörk virðast vera fyrir og stærra og stærra skarð heggur í hinar lífrænni atvinnugreinar þjóðarinnar, framleiðsluna. Engum er betur ljóst en oss, hversu auðveldara væri fyrir smáútvegsmennina að snúa undan brekkunni og hætta baráttunni fyrir möguleikanum til að berjast framleiðslubaráttu sinni, ef mönnum er gert ómögulegt að nota sín ófullkomnu veiðitæki yfir haustmánuðina, sem ógerlegt er að veiða með annars staðar en í firðinum. Og það er vissa fyrir því, að aðeins vonin um, að leiðrétting þessara mála fáist, heldur fjölmörgum smáútvegsmönnum enn við þessa atvinnugrein sína.“

Ég vildi aðeins lofa hv. þd. að heyra þetta bréf, sem túlkar sjónarmið útgerðarmanna og sjómanna við Eyjafjörð. Undirskriftir eru frá á þriðja hundrað manna, um 80–90 útgerðarmanna og á annað hundrað sjómanna, þar sem óskað er mjög eindregið, að afgreiðsla Alþingis á þessu máli verði eitthvað myndarlegri en síðast, en þá dagaði málið uppi í n. í Ed. Og ég treysti því, að þingið hafi þá viðsýni og skilning á sjónarmiði þessara útgerðar- og sjómanna á Norðurlandi, að það skoði ekki hug sinn um að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.