29.04.1942
Neðri deild: 44. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

2. mál, dómnefnd í kaupgjalds- og verðlagsmálum

*Einar Olgeirsson:

Hv. 4. landsk. þm. hefur spurt að því, hvernig ríkisstjórnin hefur samið við setuliðið, og því hefur enn ekki verið svarað. Ég vildi í því sambandi upplýsa það, að ríkisstj. er þegar farin að leita eftir starfskröftum hér í bænum í sambandi við skrifstofu, sem ríkið er að koma upp og á að hafa með allt vinnuafl í landinu að gera. Menn munu tæplega trúa því, að slíkar ráðstafanir séu gerðar, án þess að Alþ. ákvarði um þær. Ég vil ítreka þá fyrirspurn til ríkisstj., hvort hún sé búin að taka ákvarðanir um að fjölga þannig starfsmönnum sínum, án þess að Alþ. samþ. það, og hvort hún í trássi við AIþ. ætli að koma upp slíku skrifstofubákni. Ég mótmæli, að slíkar ráðstafanir séu framkvæmdar án þess að Alþ. sé spurt leyfis.

Svo vil ég segja nokkur orð í sambandi við ráðstafanir Bandaríkjanna gegn dýrtíðinni. Í fyrsta lagi erum við ekki skyldugir til þess að skoða allt, sem Bandaríkin kunna að gera, sjálfsagt og rétt. Ég vil minna á í sambandi við ákvarðanir Ameríkumanna um takmörkun kaups, að á síðasta ári hækkuðu grunnlaun þar um 25%, meðan dýrtíðin steig um 6%, og þessi hlutföll samsvara allt að 20% grunnkaupshækkun. Í öðru lagi eiga Bandaríkin í stríði, og við mundum áreiðanlega á öðrum grundvelli ræða um þetta mál, ef við værum stríðsaðili og þyrftum að berjast fyrir lífi og frelsi. Bandaríkin hafa samvinnu við verkalýðsfélögin og taka í samráði við þau ákvarðanir um lögbindingu kaups. Vill ríkisstjórnin lögfesta það kaup hér á landi, sem Bandaríkin greiða? Það væri rétt að athuga þetta atriði, áður en Bandaríkin eru tekin til fyrirmyndar.

Hæstv. fjmrh. viðurkenndi í rauninni, að hægt væri að hækka kaupið, án þess að verðbólgan ykist. En því miður er því þannig háttað nú, að atvinnurekendur vilja ekki hækka kaupið, af því að nú loks hefur verkalýðurinn betri atvinnuskilyrði og getur dregið fram lífið.

Ég vil svo ekki ræða um þetta frekar að sinni, en get sagt það að lokum, að gerðardómslögin verða aldrei framkvæmd.