09.03.1942
Neðri deild: 15. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í C-deild Alþingistíðinda. (429)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Pálmi Hannesson):

Það eru þrjú ariði í ræðu hv. þm. Ísaf., sem mig langar til að vekja athygli á. Hann taldi, að í raun og veru ætti að forða þessum mönnum frá að fá það, sem þeir biðja um, því að eftir nokkur ár mundu þeir verða óánægðir og biðja um leiðréttingu. Ég held, að norðlenzkir sjómenn og útgerðarmenn óski ekki eftir forsjá hv. þm. Ísaf. að þessu leyti. Það er gamalt mál, að sá veit bezt hvar skórinn kreppir, sem hann ber á fætinum. Og ég hygg, að það muni eiga allvel við um þá, sem standa að mótmælum gegn dragnótaveiðinni, eins og hún e r nú framkvæmd.

Í annan stað sagði hv. þm., að misjöfn ákvæði hafi verið í gildi um friðun fyrir dragnótaveiði. Ég vil benda á, að það eru enn mismunandi ákvæði í gildi um þetta efni, og þarf ekki annað en að fletta lögunum. Er furða, að slíkur athafnamaður um sjávarútveg, sem hv. þm. þykist vera, veit ekki þennan hlut.

Í þriðja lagi virtist hv. þm. undrast, að ég sem fiskifræðingur vissi ekki, að seinni hluta sumars er hrygningartími flatfiskanna um garð genginn. Það er ekki það, sem rætt er um, og er hér nokkuð mikil vanþekking. Flatfiskarnir hrygna ekki fyrir Norðurlandi, heldur Suðvesturlandi, en seiðin alast upp fyrir Norðurlandi. Og það eru uppalningsstöðvarnar, sem rætt er um að friða, en ekki hrygningar stöðvarnar. Mér þykir ástæða til að geta þessa áður en lengra er farið, ef það kynni að verða til lítils skilningsauka fyrir hv. þm. Ísaf.