04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (435)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Eins og menn muna, þá var ég síðast, þegar ég talaði í þessu máli, stöðvaður í miðri ræðu, og get eg ekki verið að endurtaka hér það, sem ég þá sagði. Ég verð þó að geta þess, að ég endaði í ræðu minni á því, að hv. flm. hefðu byggt frv. á áskorunum að norðan, frá útgerðarmönnum og sjómönnum í Eyjafirði. En frv. gekk að vísu nokkuð lengra, því að í áskorununum var aðeins farið fram á, að stærri bátum væru bannaðar dragnótaveiðar í landhelgi, en smærri bátum en 5 smál. leyfðar þær. Í samræmi við þessar áskoranir bar ég fram á síðasta þingi brtt., en hún náði ekki samþ. þessarar hv. d. Frv. gekk hins vegar í gegnum þessa hv. d., en var stöðvað í hv. Ed.

Nú á þessu þingi hafa einnig borizt áskoranir og mótmæli gegn þessu frv. Á síðasta fiskiþingi bárust mótmæli gegn því frá útgerðarmönnum í Ólafsfirði, og einnig hafa komið fram eindregin mótmæli gegn því frá smábátaútgerðarmönnum og sjómönnum á Akureyri, og hafa þeir skorað á Alþingi að fresta afgreiðslu frv., þar til fram hefur farið ýtarleg rannsókn á þessu máli, hvað Norður land snertir, til að trygg ja sem bezt réttláta og um leið varanlega afgreiðslu dragnótalaganna, en skerða hins vegar ekki rétt smábátanna til dragnótaveiða.

Þessa áskorun smábátaeigenda og sjómanna á Akureyri hefur bæjarstjórn Akureyrar samþ. a:ð styðja, sbr. tilkynningu bæjarstjórans til alþ. dags. 25. marz s.l.

Með því að vera kynni, að einhverjum hv. þdm. væri ekki fullljóst, hvernig þessi mál standa í raun og veru í Eyjafirði t. d., þá væli sízt úr vegi að fá að lesa upp greinargerð smábátaútgerðar- og sjómannanna á akureyri, sem fylgir áskorun þeirra. Hún gerir glögga grein fyrir gangi þessa máls og dragnótaveiði á Eyjafirði undanfarin ár. Oreinargerðin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Frá árinu 1931 hafa allmargir opnir vélbátar, oft 10–12 árlega, stundað dragnótaveiðar frá Akureyri. Mest hafa þessar veiðar verið stundaðar á haustin eftir síldveiðitímann, og síðustu árin nokkuð að vorlagi, en sízt yfir miðsumarið. Hafa þessir bátar hagað veiðarfærum sínum og fiskileit með það fyrir augum að fiska kola og halda sig við veiðar meðfram landi, mest innan til í Eyjafirðinum, þar sem kolans er á flestum tímum helzt von á grunninu upp við landsteina. Aftur eru bátar með lóðir sínar að heita má ævinlega í álum fjarðarins og álsbrúnum, þar sem bezt er aflavon þorsks og ýsu. Þar sem kolans hefur þannig verið að leita hér í firðinum á öðrum slóðum en þorsks og ýsu, hafa veiðimöguleikar og þá hagsmunir smábátanna hér ekki rekizt á, enda er það greinilega staðfest í erindi til Alþingis s.l. ár, undirskrifuðu af hundruðum sjómanna og smáútvegsmanna í Eyjafirði. Telja þeir þar ekki ástæðu til að banna dragnótaveiðar á bátum innan 5 smál., sem hafa stutt .dráttartog (300 fm. á hlið).

Eftir 1937, að fjöldi stærri vélbáta að sunnan og vestan, og nú 2 s.l. ár, eftir að allmargir af stærri vélbátum hér norðanlands fóru að stunda dragnótaveiðar í stórum stíl, sérstaklega með veiðarfærum fyrir þorsk og ýsu, og þá á sömu slóðum og lóðabátarnir, fer að bera á því, að þeir, sem stunda innfjarðarfiskveiðar með lóðum, telja sínum aflamöguleikum stefnt í hættu með dragnótaveiðum þessara báta.

Það kemur því hér norðanlands í ljós, eins og víða annars staðar, að ekki muni hagkvæmt að taka upp þorskveiðar með dragnót, og þá ekki sízt, þar sem árangur þessara veiðiaðferða, dragnótar og lóða, á sömu slóðum rekast svo á.

Aftur hefur reynsla okkar sýnt, að kolaveiðar með þeim hætti, sem að framan greinir, eru ekki háðar þeim annmörkum, auk þess, sem staðbundnir smábátar, sem ekki svíða eins veiðisvæðin, heldur stunda dragnótaveiðina sem róðra og eru þá síður lengi á sama stað. Enda hafa smábátarnir hér sýnt miklu betri árangur af dragnótaveiði miðað við tilkostnað heldur en stærri vélbátar, sem fara mikið um í fiskileit og stunda þessa veiði í stíl stórtækrar rányrkju.

Vonum við, að hið háa Alþingi taki þetta erindi vort til greina við afgreiðslu frv. til laga um breyt. á dragnótalögum, þannig að skerði ekki rétt smábátanna til veiða.“

Eins og þessi grg. ber með sér, er hún í fullu samræmi við þá till., sem ég hef áður borið hér fram. Grg., eða þessi fundur smábátaeigenda og sjómanna á Akureyri, fer fram á, að þessu fram komna frv. verði frestað eða að það verði afgreitt. með rökstuddri dagskrá, og mun ég og kannske einhverjir fleiri koma með hana fyrir 3. umr.