04.05.1942
Neðri deild: 50. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í C-deild Alþingistíðinda. (436)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Finnur Jónsson:

Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og sent það Fiskifélagi Íslands og hr. fiskifræðingi Árna Friðrikssyni til umsagnar. Þessar umsagnir eru nýlega komnar til n., en það hefur dregizt dálítið að fá þær, og svo hafa önnur störf í n. orðið til þess, að nál. hefur ekki legið fyrir. En hv. flm. hefur ekki legið lítið á að fá mál þetta afgreitt, þó að þeim sé vitanlegt, að jafnvel þótt það fyrir einhverja slysni kynni að fara í gegnum þessa hv. d., þá mundi það aldrei fara í gegnum hv. Ed. Og ég held nærri því, að flm. þessa frv. beri það að þessu sinni beinlínis fram í því trausti; að það nái ekki fram að ganga í þinginu, því að það mega þeir vita, að ef þetta frv. nær fram að ganga. þá mundi það stórspilla svo atvinnumöguleikum manna á Norðurlandi, að engum þessara manna mundi þýða að bjóða sig þar fram í kosningum í sumar. Flutningur þessa frv. er því ekkert annað en skrípaleikur, eingöngu gert til að sýnast. Enda er málið flutt af þeim ofsa eða vanþekkingu af hálfu ýmissa flm., að það er engu lagi líkt. Það kom hér m.a. fram við 1. umr. þessa máls, frá fyrsta flm., hv. 1. þm. Skagf., við honum var ekki betur ljós þessi löggjöf en svo, að hann hafði ekki hugmynd um, að það gildir sami tími um dragnótaveiðar fyrir allt landið. þetta sýnir betur en nokkuð annað, hve lítið þessir menn hafa kynnt sér þetta frv., sem þeir þó eru að flytja á Alþingi. Ég hygg, að það hafi verið á þinginu 1939, sem dragnótalögunum var breytt í það horf, að sami tími gilti fyrir allt landið. Og það var gert vegna mjög eindreginna áskorana frá mönnum bæði á Norður- og Vesturlandi. En þeir bentu á það, að ef annar tími gilti um veiðarnar á Norður- og Vesturlandi en Austur- og Suðurlandi, þá kæmu bátar að sunnan og austan til Norður- og Vesturlands, þegar þeir eru búnir að skurka í heilan mánuð fyrir Suðurlandi, svo að það var beinlínis eftir ósk útgerðarmanna norðanlands, að tíminn var ákveðinn sami fyrir allt landið til dragnótaveiða.

Annað merki þess, að frv. þetta er flutt meira af kappi en forsjá, er það, að okkar eini fiskifræðingur á Alþingi, hv. 1. þm. Skagf., hefur látið svo um mælt, að kolinn hrygni ekki fyrir Norðurlandi. En þeir, sem hafa rannsakað þetta og telja sig kannske jafnsnjalla fiskifræðinga og hv. 1. þm. Skagf., bæði hinn látni fiskifræðingur dr. Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson, halda því fram, að hann hrygni fyrir Norðurlandi; en geri það heldur seinna en fyrir Suðurlandi. Þriðji vísindamaðurinn, sem líka má vitna til í þessu efni, er Á. V. Taning, en hann hefur rannsakað hrygningu kola alveg sérstaklega og gefið út um það bók, sem heitir Plaice Investigations in Icelandic Waters og gefin er út í Kaupmannahöfn 1929. Og ef hv. 1. þm. Skagf. vildi láta svo lítið að slá upp í fræðiritum þessari kollega sinna, þá mundu ummæli Tanings vera að finna á bls. 15–16 í áður nefndu riti, en ummali dr. Bjarna Sæmundssonar á bls. 319–321) í bók, sem heitir Fiskarnir. Þetta hef ég dregið fram, af því að hv. 1. þm. Skagf. hefur viljað gera lítið úr því, að rétt væri að vernda kolastofninn á þennan hátt, með því að stytta veiðitímann framan af sumri, þegar kolinn er að hrygna, en taka hann ekki aftan af árinu, eins og þetta frv. fer fram á, þegar kolinn er löngu hættur að hrygna og orðinn bezta útflutningsvara.

Umsögn Fiskifélagsins barst sjútvn. í bréfa dags 14. apríl s.l., og þar sem ég geri ráð fyrir, að tími vinnist nú til að láta prenta þessa umsögn í heild milli 2. og 3. umr. í nál. frá sjútvn., þá skal ég ekki þreyta hv. þdm. með því að lýsa því verulega, en ég vil þó taka það fram,. að það er mjög rangt hjá hv. flm. þessa frv., að það liggi fyrir nokkrar almennar óskir um það, að slíkt frv. sem þetta verði samþ. hér á Alþingi, heldur hefur þetta frv., eins og hv. þm. Ak. drap á, mætt mjög miklum andmælum .frá fiskimönnum víðsvegar á Norðurlandi.

Hv. þm. Ak. drap á það, að smábátaeigendur og sjómenn á Akureyri mótmæltu þessu frv. mjög kröftuglega. Til fiskiþingsins hafa einnig borizt mótmæli gegn því frá útgerðarmönnum í Hrísey og Ólafsfirði. Og útgerðarmenn í Hrísey segja svo, með leyfi hæstv. forseta: „Undirritaðir útgerðarmenn í Hrísey skora hér með á fiskiþingið, að það hlutist til um það við Alþingi að fella frv. til laga um takmörkun á dragnótaveiði. Teljum enga ástæðu til að takmarka veiðitímann frekar við Norðurland en aðra landshluta. Til vara, að landhelgin verði frjáls til veiða október–nóvember í stað júlí–ágúst. Hreinn Pálsson, Garðar Ólafsson, Björn J. Ólafsson, Njáll Stefánsson, Einar M. Þorvaldsson, Jörundur Jóhannesson, Guðmundur Jörundsson, Júlíus Oddsson, Kristján Emonasson.“ Og mér skilst, að undir þessu séu allir útgerðarmenn, sem nokkuð kveður að í Hrísey.

Útgerðarmenn í Ólafsfirði sendu svo hljóðandi mótmæli, með leyfi hæstv. forseta: „Mótmælum eindregið framkomnu frv. á Alþingi un skerðingu á veiðitíma með dragnót í landhelgi fyrir Norðurlandi og skorum á fiskiþingið að beita sér gegn frv. og þannig koma í veg fyrir hróplegt ranglæti, sem skapast mundi á milli landshluta, ef slíkt frv. yrði að lögum:

Samkvæmt þessu liggja þá fyrir eindregin mótmæli gegn þessu frv. frá smáútvegsmönnum á Akureyri, útgerðarmönnum í Hrísey og útgerðarmönnum í Ólafsfirði. Það er þess vegna algerlega rangt og meira en úr lausu lofti gripið, þegar hv. flm. vilja láta líta svo út sem það liggi fyrir almennar áskoranir útgerðarmanna um að breyta dragnótalöggjöfinni í þá átt, sem þeir leggja til með þessu frv., að gert verði. Það liggja þvert á móti fyrir eindregin mótmæli frá útgerðarmönnum víðs vegar á Norðurlandi um, að slík löggjöf, sem hér liggur fyrir, nái ekki fram að ganga. Og þegar málið er athugað með ró og stillingu og hlutdrægnislaust, þá er þessi afstaða útgerðarmannanna afar skiljanleg, því að ef þetta frv. yrði að lögum, þá mundi það stúrlega spilla atvinnuvegi þeirra. Flestir þessara útgerðarmanna stunda síldveiðar yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst, en þá á landhelgin að vera opin fyrir dragnótaveiði, eftir því sem flm. ætlast til, og mundi hún þá aðallega verða stunduð af aðkomubátum. En þegar svo Norðlendingar eru hættir síldveiðinni, þá ætlast flm. til, að landhelginni verði lokað fyrir þeirra eigin dragnótaveiðum. Af þessu er ljóst, að ef þetta frv. nær fram að ganga, þá mundi það stofna vélbátaútgerðinni á Norðurlandi stórlega í hættu.

Ég er nú að vona, að flm. athugi þetta nánar milli 2. og 3. umr., og ef þeir vilja fá fram eitthvert frv. um þetta efni, þá geri þeir það með það fyrir augum að lyfta undir vélbátaútveginn fyrir Norðurlandi, en ekki til að eyðileggja hann.

Fiskiþingið athugaði þetta mál nokkru nánar og samþ. með samhljóða atkv. svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskiþingi hefur borizt símskeyti frá útgerðarmönnum í Hrísey og Ólafsfirði við Eyjafjörð um að beita sér gegn frv. um skerðingu á veiðitíma með dragnót í landhelgi fyrir Norðurlandi. Áskorun þessari hefur verið vísað til sjávarútvegsnefndar til umsagnar. Þar sem nefndinni er kunnugt um, að skoðanir fiskimanna eru mjög skiptar um þetta mál, leggur hún til, að málið verði borið undir fiskifræðinga og aflað álits þeirra um gildi þess svæðis, er frv. á þingskj. 31 ræðir um, sem uppeldisstöðvar fyrir nytjafiska.

Nefndin leggur til, að Alþingi breyti ekki gildandi lögum, meðan ekki liggur fyrir rökstutt álit sérfræðinga um þetta atriði, og enn fremur um afla- og fjárhagslegt tjón sjómanna, er dragnótaveiðar stunda, og þjóðarinnar í heild, er í friðun mundi leiða. Fiskiþingið skorar á ríkisstjórnina og Alþingi að láta fara fram rannsókn á þessu og hraða henni sem mest og að henni lokinni taka afstöðu til málsins.“

Umsögn Árna Friðrikssonar fiskifræðings er mjög í sömu átt og umsögn Fiskifélagsins. Hann vísar þar sérstaklega til umsagnar, sem hann sendi sjútvn. um þetta ml 2. maí 1941. Ég sé ekki ástæðu til að fara mikið út í umsögn Árna Friðrikssonar, en vil þó drepa á tvö atriði til stuðnings því, sem ég hef áður um þetta sat. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og ég hef bent á í bók minni: Skarkolaveiðar Íslendinga og dragnótin (Rvík 1932), sem ég leyfi mér að láta fylgja þessu bréfi, hrygnir skarkolinn, sem fyrst og fremst er miðað að að friða með takmörkunum á dragnótaveiðum, einnig í kalda sjónum, þótt í smáum stíl sé, og er þeirri hrygningu ef til vill ekki lokið fyrr en í byrjun júlí. (Sbr. einnig B. Sæmundsson: Íslenzk dýr I. Fiskarnir, Rvík 1926, bls. 319-320 og Á. V. Täning: Plaice Investigations in Icelandic Waters, Copenhagen 1929, bls. 15–16 . Það er því auðsætt, að þótt friðun sú, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, gangi mjög langt í þá átt að skerða athafnafrelsi útgerðarinnar frá því, sem nú er, er hæpið, að sá tilgangur náist til hlítar að friða allan hrygnandi skarkola.

Það er alþekkt staðreynd, að sumarmánuðina júní–september er mest um ungviði ýmissa nytjafiska á grunnmiðum, þannig að segja má, að frumvarpið geri mið fyrir, að veitt sé með dragnót, þegar það verður að teljast óheppilegast frá bíólógisku sjónarmiði. Ólíkt hagkvæmara fyrir framtíð fiskistofnanna væri að takmarka veiðina frekar við haustmánuðina sept.–des., og væri þá þar að auki séð fyrir þörfum bátaútgerðarinnar á hinu langa tímabili milli síldarvertíðarinnar á sumrin og þorskvertíðarinnar á vorin.“

Árni Friðriksson bendir hér á það sama og ég hef haldið fram, að ef það er hugsun hv. flm. að vernda kolastofninn, þá ættu þeir að vilja stytta veiðitímann framan af árinu, en leyfa hana haustmánuðina og vetrarmánuðina. Það er ákaflega einkennilegt, ef þessir þrír fiskifræðingar, sem ég hef nú vitnað til, þeir Táning, Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson, hafa ekki eins vel vit á fiskifræði okkar eins og hv. 1. þm. Skagf. Og sé það skoðun hv. 1. þm. Skagf., að hrygningartími kolans og sá tími, sem helzt þurfi að vernda, sé á haustin, þá fer það alveg í bága við þekkingu okkar og svo þvert ofan í það, sem fræðimenn halda fram, að það er því líkast, að hann sé að rengja starfsbræður sína, en flytji þessa frv. af tómum þráa og sé búinn að bíta sig í þetta og segi: Það, sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað, og það skal vera rétt og hagkvæmt, hvað sem allir aðrir segja og hvað sem vísindaleg reynsla annarra og reynsla þeirra, sem eitthvað hafa með atvinnulífi að gera, segir í þessu efni.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta við þessa umr. Ef málið kemst til 3. umr., liggur fyrir rökst. dagskrá og sennilega nál., því að ég vona, að sjútvn. gefist tækifæri til að taka málið til afgreiðslu á fundi, sem haldinn verður í fyrramálið, og fái nál. prentað og því útbýtt fyrir 3. umr.