07.05.1942
Neðri deild: 53. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (444)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

* Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil leiðrétta missögn hv. 3. landsk. Hann segir, að sjútvn. hafi legið á þessu máli í 8 vikur, en ef hv. þm. hefði tesið nál., hefði hann ekki látið þau orð falla, því að nál. ber með sér, að málið er tekið fyrir 19. marz í sjútvn., og þá er það sent Fiskifél. Ísl. og Atvinnudeild háskólans til umsagnar. Önnur umsögnin er svo dags. 9. apríl, en hin 14. apríl. Málið var svo tekið fyrir í fundi 5. maí, en á fundunum þar á milli var n. önnum kafin við að afgreiða önnur mál, t.d. tvenn hafnarlög, sem flm. var mikið áhugamál að fá afgreidd.

Það er leitt vegna hv. 3. landsk. þm., ef hann skortir skilning til að sjá þetta við lestur nál. eða vilja til að viðurkenna, að n. afgreiddi málið á þann hátt, sem henni bar að gera.

Það var talað um, að fyrir lægju áskoranir mörg hundruð mönnum í Eyjafirði. Ég veit ekki, á hvaða hátt þessar undirskriftir eru fengnar, en ég stóð hv. þm. að því á síðasta þ. að segja rangt frá mótmælum, sem borizt höfðu. Það var þá ekki hægt að skilja hann öðruvísi en að áskoranirnar beindust að því almennt að banna allar dragnótaveiðar, en skjalið sýndi, að átt var við dragnótaveiðar báta undir 5 smál. Hann hélt þó hinu fram með skjalið í hendinni. Ég vil segja af minni kunnáttu, þegar ég stundaði fiskiveiðar með lóðum við Eyjafjörð, þá komu lóðaveiðarnar og dragnótaveiðarnar ekki í bága hvor við aðra, því að lóðaveiðar voru stundaðar í hinum djúpu álum fjarðarins, en dragnótaveiðar aðeins á grunnsævi. Ég held því, að vel verði séð fyrir hagsmunum lóðaveiðara við Eyjafjörð að lofa dragnótaveiðunum að halda áfram. Ég legg því til, að frv. verði afgr. eftir hinni rökstuddu dagskrá. Ef hv. 3. landsk. vildi fremur fallast á dagskrána öðruvísi, þá gæti ég orðað hana ákveðnara en hún er nú.