19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (461)

35. mál, raforkusjóður

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Þetta frv. hefur legið alllengi fyrir fjhn., og er það af því, að n. hefur gert sér far um að reyna að fá samkomulagsleið um tekjuöflun til þessa raforkusjóðs, sem hér er ætlazt til, að verði stofnsettur með þessum l. Þessar tilraunir n. hafa orðið árangurslausar um það að geta tryggt framgang málsins, eins og upphaflega var til ætlazt og gert ráð fyrir á þskj. 47. Með því frv. var, eins og kunnugt er, ætlazt til, að farnar væru tvær tekjuöflunarleiðir til þess að stofna þennan sjóð til styrktar rafveitum í landinu. Í því frv. er gert ráð fyrir í fyrsta lagi 300 þús. kr. framlagi frá ríkissjóði næstu 10 árin, í öðru lagi árlegu gjaldi frá rafveitum, sem reistar hafa verið víðs vegar um landið.

Nú hefur verið leitazt fyrir um að koma fram síðari leiðinni, að leggja skatt á rafveitur, en það er engin leið að koma því fram á Alþingi nú, eins og það er skipað. Margir fulltrúar kaupstaðanna vilja ekki skattleggja rafveiturnar í þessu skyni og styðja á þann hátt að framkvæmd þessa máls.

N. er þó sammála um, að sjóðurinn skuli eigi að síður stofnaður, þótt þessi tekjuöflunarleiðin reynist ekki fær, og er þá aðeins stuðzt við framlag ríkissjóðs, er hækkar úr 300 þús. kr. upp í 500 þús. kr. á ári hverju.

Aðaltilgangurinn var, að fé úr sjóðnum skyldi varið til lánastarfsemi, til þess að koma upp rafveitum úti um landið. En um leið og fyrrnefnd tekjuöflunarleið reynist ófær, hefur n. lagt til, að lánastarfseminni skuli þá breytt í styrktarstarfsemi til rafveituframkvæmda í dreifbýlinu, sem yrði að nokkru leyti sambærilegt við jarðræktarstyrkinn.

N. leggur til, að styrkur úr rafveitusjóði, eftir þessa breytingu, megi nema allt að 13–30% af stofnkostnaði orkuvers, og skuli farið eftir aðstæðum, þannig að þau orkuver fái mestan styrkinn, er hafa verstu aðstöðuna til þess að byggja.

Fé úr sjóðnum yrði veitt til orkuvera, einstaklinga og heilla héraða, ef til kæmi.

Ég sé ekki ástæðu til að skýra nánar þær breytingar, er n. hefur gert á frv., en vænti þess aðelns, að þær verði samþ.