09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (483)

72. mál, vörugjald fyrir Akureyrarkaupstað

*Ísleifur Högnason:

Eini bærinn á landinu, sem hefur haft þá sérstöðu hingað til að leggja á sérstakt vörugjald, er Vestmannaeyjakaupstaður. Á síðasta þingi fékkst loks leiðrétting á þessu, enda nær engri átt að veita einu einstöku bæjarfélagi slíka heimild.

Ég skal ekki efast um, að nauðsyn kunni að vera að byggja spítala á Akureyri eða stækka hann. Ég vil stuðla að því, að úr ríkissjóði verði veitt fé til þess að halda honum áfram, en að gefa bæjarstj. heimild til að skattleggja þannir bæjarbúa, álít ég að komi ekki til nokkurra mála. Alþ. leiðrétti þetta með Vestmannaeyjar, og álít ég það stóra bót. Vitanlega eiga bæjarfélögin að greiða slíkan kostnað með útsvörum, sem jafnað er niður eftir efnum og ástæðum. Ég geri ráð fyrir, að Akureyri hafi ástæður ekki síður en aðrir til að láta þá, sem efnin hafa til þess að styðja þetta mál, borga riflegri útsvör, og að því leyti sem það hrekkur ekki til, kemur til kasta ríkissjóðs að leggja fram fé til þessarar byggingar.

Sem sagt, það er mitt principmál og hefur verið lengi að hamla gegn því, að bæirnir fái þannig rétt til að leggja á óbeinan skatt og auka þannig dýrtíðina. Ég mun því greiða atkv. á móti þessu frv.