09.04.1942
Neðri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (486)

72. mál, vörugjald fyrir Akureyrarkaupstað

*Ísleifur Högnason:

Ég hef satt að segja ekki kynnt mér afstöðu samflokksmanna minna á Akureyri til þessa frv. Hafi þeir fallizt á þessa tekjuöflunarleið, geri ég ráð fyrir, að þeir hafi gert það í athugaleysi, því að með henni væri þverbrotin meginstefna flokksins í skattamálum. — Ég get að vísu fallið frá þeirri skoðun mínni, að vísa beri málinu frá umsvifalaust, og get fylgt því, að það fari til nefndar. Ég álit einmitt rétt, að nefnd athugi ýmsar hliðar málsins, þótt ég sé meginatriðinu mótfallinn, — því. að Akureyri séu veitt sérréttindi til að leggja óbeinan skatt á íbúana.

Um skattfrelsi kaupfélaga er svo margbúið að ræða. að ég get ekki farið út í það mál. Auðvitað væri það tvöfaldur skattur, ef félagið yrði að greiða tekjuútsvar og félagsmenn síðan af sama arðinum. Það er fjarstæða, að samvinnufélögin séu útsvarslaus eða „skattfrjáls“. Kaupfélag Eyfirðinga ber mjög hátt útsvar. Og þar að auki er umsetningargjaldið, sem mjög víða er lagt á.

Ég get tekið undir það með hv. siðasta ræðumanni, að athuga þurfi leiðir til, að Akureyri geti komið sér upp sjúkrahúsi með öðrum ráðum en þessu. sem ég er gersamlega andvígur.