12.05.1942
Neðri deild: 56. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (498)

78. mál, ábyrgð fyrir lánum til rafveituframkvæmda

*Jón Pálmason:

Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., og er hún á þskj. 378. Í þessari brtt. er farið fram á, að þessi heimild nái einnig til Höfðahrepps og vindhælishrepps, ef hún kemur til framkvæmda. S.l. haust fór fram athugun á aðstöðu á þessum stað, og var hún framkvæmd af verkfræðingi frá rafmagnseftirliti ríkisins, og eru þær athuganir í tvennu lagi. Annars vegar var virkjun á Hallá, og er hún talin frekar vatnslítil en getur þó komið til greina, og hljóða áætlanir, sem þar koma til greina, upp á 440 þús. kr. Hin áætlunin var gerð um virkjun á Laxá, og er kostnaður við virkjun á henni áætlaður 460 þús. kr., miðeð við 200 hestafla stöð. Þessar áætlanir eru miðaðar við enskt efni, og má því gera ráð fyrir, að þetta verði talsvert dýrara, þar sem nú verður að miða við efni frá Bandaríkjunum.

Ég vil vænta þess, að hv. þd. líti með velvilja á þessa till. og geti samþ. hana á sama hátt og hinar tvær till. sem hér liggja fyrir.