27.04.1942
Neðri deild: 42. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (534)

108. mál, ljósmæðralög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og segir í grg. þessa frv., eru tildrög þess þau, að málið var tekið fyrir í sýslunefnd Mýrasýslu á fundi hennar 7.– 10 apríl s.l. og áskorun samþykkt, af þeim ástæðum, að nokkur af ljósmæðrahéruðum sýslunnar voru ljósmæðralaus eða þótti sýnt, að þau yrðu það innan skamms. vegna of lágra launa. Þótti nefndinni eigi annað fært en að fá launin hækkuð það mikið, að konur fengjust til þessara starfa. Þau hafa verið 300 kr. á ári, þar sem íbúar eru ekki yfir 300, en hækkað um 10 kr. fyrir hverja 50 íbúa umfram það. Eins og þm. sjá, eru þessi launakjör svo lág og svo mikið ósamræmi með þeim og öðrum launagreiðslum yfirleitt, að skiljanlegt er, að fáar eða engar konur líti nú við starfinu, þegar héruð losna.

Tillaga nefndarinnar var um hækkun úr 300 kr. í 500 og tilsvarandi á öðru. Ég hef ekki farið eins hátt í frv., aðeins hækkað um 50% upp í 450 kr. á ári og látið þá hækkun ganga nokkurn veginn jafnt yfir greiðslurnar. Ég geri ekki ráð fyrir, að mörg orð þurfi með frv. að svo stöddu, og óska. að því verði vísað til 2. umr. og nefndar.