23.02.1942
Efri deild: 3. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

3. mál, útsvör

*Magnús Gíslason:

Herra forseti ! Ég kannast ekki við það, sem ég hlaut að skilja á orðum hv. 3. landsk., að allshn., sem hafði frv. líkt þessu til meðferðar í fyrra, hafi látið uppi nokkurt álit um þetta mál. Hinu man ég eftir, að form. n., hv. 2. landsk., var mjög tregur til þess að taka þetta mál fyrir í n., og það fór þannig, að það fékk enga afgreiðslu hjá honum. Ég vil þess vegna, hvað mig snertir, taka það fram, að ég vil ekki skrifa undir þau orð hv. 2. landsk., að það hafi verið álit n., að það væri varhugavert að samþ. frv. það, sem þá lá fyrir. Þvert á móti var það álit mitt, og ég lét það uppi þá, ef ég man rétt, að það væri í sjálfu sér nokkuð einkennilegt að setja sérstakar reglur hvað snertir niðurjöfnun útsvara í Reykjavík, í stað þess að láta sömu reglur gilda þar og í öðrum kaupstöðum landsins. Og ég hygg, að meðnm. mínir muni, að ég taldi, að eins og skattstjóri væri nú störfum hlaðinn væri það fullmikið á hann lagt að eiga líka að starfa sem formaður niðurjöfnunarn. Hitt er annað mál, að það er sjálfsagt, að nefndin hafi sem fullkomnast samstarf við skattstofuna, því að þar liggja öll gögn, sem fara verður eftir.

Mér finnst það vera fremur léttvæg ástæða til að vera á móti þessu að segja, að nefndin sé skipuð pólitískt í Reykjavík, þannig er það alls staðar á landinu, það er búið að koma því fyrirkomulagi á, og það er því ekkert sérstakt fyrir Reykjavík.