19.05.1942
Neðri deild: 61. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (569)

115. mál, barnakennarar og laun þeirra

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það er rétt, sem stendur í nál. á þskj. 428, að ég gat ekki orðið samferða hv. nm., sem mynda nú, að því er virðist, meiri hl. í þessu máli. Og það var af mjög einfaldri ástæðu, sem ég er dálítið undrandi yfir, að ekki hefur komið fram í nál. meiri hl. og ekki heldur einu sinni í framsöguræðu hv. frsm.. hv. 2. þm. Árn.

Það er í rauninni ekki nýtt, þótt fram komi hér á þingi, má segja á hverju þingi, einhverjar umsóknir og umleitanir, jafnvel kröfur og óskir frá barnakennurum hér og þar um kjarabætur eða launabætur í einhverri mynd. Og það er í sjálfu sér ekkert við því að segja undir eðlilegum kringumstæðum. Það væri frá almennt sjónarmiði heldur ekkert við því að segja, þó að líkar umleitanir kæmu frá fleirum en þessari stétt á þessum tímum. En af orsök, sem ég tel undravert, ef hv. frsm. og meiri hl. n. veit ekki um. hefur þessu öllu verið haldið niðri nú. Því hefur verið neitað af ríkisstj.. og þingflokkarnir hafa skellt skollaeyrum við því að taka launakjör embætti,manna og starfsmanna ríkisins til undurskoðunar. Og við það situr. Undir það hafa allir embættismenn orðið að beygja sig, sýslumenn, prestar, kennarar og hverjir aðrir, sem um er að ræða. Þó hefur það verið svo, að áleitnastir hafa barnakennararnir orðið, og þeir hafa, hjá einslaka hv. þm., fengið hljómgrunn. svo að ávallt hefur einhver orðið til þess að bera fram kröfur þeirra. Nú vildi ég gjarnan láta þá sitja við sama borð, ef um kjarabætur bjá öðrum stéttum hefði verið að ræða, en alls ekki skilja þá út undan. En eins og mönnum er kunnugt, þá verða aðrir að sætta sig við að halda launum sínum, að óendurskoðuðum launal., og fá uppbætur eftir því, sem lögmæt er og fram kemur í því, hvernig vísitala er út reiknuð or verðlagsuppbót greidd. Það er því í rauninni ófyrirsynju, að þetta kemur fram af þeim ástæðum. Hins vegar eru. eins og kunnugt er og hv. frsm. á að vera kunnugt um, til ný lög, sem gersamlega hindra slíkar breytingar, nema á þann hátt, að með því væru samræmdar kröfur í einstökum tilfellum. Og áður en slíkar breytingar eru gerðar, þá verða þær að leggjast fyrir sérstakan dómstól, sem nú er til og vakir yfir því, að engar hækkanir á grunnlaunum eigi sér stað. Dómnefnd verður að taka þær til meðferðar og samþykkja þær, án þess eru allar launabreytingar til hækkunar ólöglegar. Nú er engu slíku hér til að dreifa. Það er komið með þetta inn á þing, eins og gert hefur verið oft áður með eitt og annað, og þó að hv. flm. þessa máls, þm. Árn., hafi ekki séð sér annað fært en að koma því inn í þingið, þá læt ég það vera, en ég hafði ekki búizt við því, að það kæmi fram á þennan veg frá n.

Það varð að ráði í n. að senda þetta mál um sinn til umsagnar fræðslumálastjóra, og hefur hann nú sent sína umsögn, sem er engan veginn þannig, að hún skýri málið á einn eða annan veg. Þær breyt., sem frv. greinir, og sú breyt., sem fræðslumálastjóri leggur hér til, eru að mínum dómi sízt til bóta. Ef við athugum, hvað með 3. breyt. er farið fram á, þá liggur það eitt á bak við, að einstakir kennarar hafa, eins og svo fjölda margir aðrir starfsmenn þjóðfélagsins. lent í nokkru hraki með íbúðir, og þeir heimta bara, að Bæjar- eða sveitarsjóður sjái sér fyrir íbúð á þessum tímum. Það er þetta, sem virðist eiga að lögfesta, ekki sízt eftir till. þeirri, sem fram kemur frá fræðslumálastjóra. Og þá sjáum við, hvert stefnt er. Sveitar- og bæjarstjórnum er gert að skyldu að kaupa hús til íbúðar handa þessum mönnum, sem verður þá til þess, að þeir geta lagt minni áherzlu á að útvega sér íbúðir sjálfir. Halda hv. þm., að aðrir embættismenn séu svo vel settir, að þeir geti krafið ríkisvaldið um húsnæði? Engir. Ekki einu sinni þeir menn, sem eru þáttur af sjálfu ríkisvaldinu, sýslumenn og bæjarfógetar. Og svo ætti að taka þessa einu stétt út úr, sem er alls góðs makleg, en verður að sætta sig við það, sem gengur yfir aðrar stéttir. Og auk þess að hækka við hana laun, sem mætti vera rétt á venjulegum tímum. en nú er ekki gerlegt að lögum nema að leggja það undir dómstól. Inn á þetta vildi ég ekki ganga að svo stöddu. Ég hefði talið málinu bezt borgið með því, að hæstv. ríkisstj. fengi það í hendur, til þess að athuga, hvort nokkuð er hægt að gera fyrir þessa menn fremur en marga aðra, sem nú biða ýmiss konar tjón af þeirri óáran, er nú gengur yfir, ekki sízt af húsnæðismálum í fjölbýlinu.

Ég hef ekki séð þörf á að gefa út sérstakt nál., enda hef ég haft mikið að gera og því lítinn tíma til að semja það, ekki sízt þegar þótt hefur liggja svona mikið á. Annars er þetta mál svo einfalt, eins og ég hef lýst, að í rauninni sagði það sig sjálft, hvernig mín afstaða hlaut að vera. Mín till. í þessu máli er því sú, að því verði vísað til ríkisstj.